Categories
Fréttir

Róttækar fyrirætlanir Framsóknar

Deila grein

23/04/2013

Róttækar fyrirætlanir Framsóknar

Sigmundur Davíð GunnlaugssonSigmundur Davíð kveðst hafa áhyggjur af því að Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylking hyggist koma saman ríkisstjórn til að koma í veg fyrir að róttækar fyrirætlanir Framsóknarflokksins nái fram að ganga. Hann undrast hörð viðbrögð forystumanna annarra stjórnmálaflokka við þessum tillögum á sama tíma og sífellt fleiri stígi fram og viðurkenni að svigrúm sé til staðar, með samkomulagi við kröfuhafa og eigendur aflandskróna um hina svonefndu snjóhengju.
„Miðað við umræðuna síðustu vikur virðist vera ljóst að annað af tvennu muni gerast. Annað hvort fær Framsóknarflokkurinn nógu mikið fylgi til að hafa nógu sterka samningsstöðu til að geta knúið á um að þessi stefna nái fram að ganga, að komið verði loksins til móts við skuldsett heimili og tekið á verðtryggingunni eða að aðrir stjórnmálaflokkar mynda ríkisstjórn um að vera á móti stefnu Framsóknarflokksins í skuldamálum heimilanna, sem yrði þá ríkisstjórn um verðtryggingu og ríkisstjórn um óbreytt ástand,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í viðtali við Eyjuna nú þegar aðeins eru fimm dagar til kosninga.
Formaður Framsóknarflokksins kveðst gera sér glögga grein fyrir þeirri ábyrgð sem fylgi því að setja fram slík kosningaloforð. Hann viti að við þau þurfi að standa. „Ef við fáum stuðning til að ráðast í þetta verkefni, að veita heimilunum það réttlæti sem þau hafa beðið eftir í fjögur og hálft ár, þá er enginn annar valkostur en að uppfylla þær væntingar og klára það dæmi.“
Og hann tekur skýrt fram að Framsóknarflokkurinn muni ekki semja sig frá þessum loforðum til þess eins að komast í ríkisstjórn. „Það kemur ekki til greina að semja sig frá þessu, Framsókn mun ekki gefa þetta eftir,“ segir hann.
Viðtal við Sigmund Davíð á eyjan.is er hér.