Categories
Fréttir Greinar

Ruglið um kyrrstöðuna

Deila grein

06/03/2025

Ruglið um kyrrstöðuna

Við veit­um því ekki eft­ir­tekt í dag­legu lífi en snún­ing­ur jarðar ger­ir það að verk­um að við erum í raun á ríf­lega 700 kíló­metra hraða á klukku­stund alla daga hér á Íslandi. Að sama skapi er sam­fé­lagið á fleygi­ferð þótt við tök­um ef til vill ekki alltaf eft­ir því. Það er áhuga­vert, á köfl­um átak­an­legt, að hlusta á mál­flutn­ing rík­is­stjórn­ar­flokk­anna þar sem þeim verður tíðrætt um að „rjúfa kyrr­stöðuna“. Fyr­ir skömmu fór þing­flokks­formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar mik­inn í Viku­lok­un­um á Rás 1 og þingmaður Viðreisn­ar, María Rut Krist­ins­dótt­ir, skrifaði grein í sama anda í Morg­un­blaðinu 19. fe­brú­ar. Ragn­ar Þór Ing­ólfs­son, þingmaður Flokks fólks­ins, rit­ar grein í sama dúr hinn 25. fe­brú­ar. Yf­ir­lýs­ing­ar þeirra eru reist­ar á ótrú­legri staðreyndafirr­ingu – eða þá að staðreynd­irn­ar skipta þau hrein­lega engu máli.

Hús­næðismál: Öflug­asta upp­bygg­ing í ára­tugi

Á und­an­förn­um miss­er­um hef­ur gríðarleg­ur þungi verið lagður í upp­bygg­ingu hús­næðis. Sig­urður Ingi Jó­hanns­son og Fram­sókn hafa leitt marg­vís­leg mik­il­væg verk­efni sem bein­ast að því að tryggja jafn­vægi á hús­næðismarkaði og auka hús­næðis­ör­yggi lands­manna.

• Síðastliðin sjö ár hef­ur full­bún­um íbúðum á land­inu fjölgað um 25.000 og aldrei áður hafa jafn marg­ar íbúðir verið byggðar utan höfuðborg­ar­svæðis­ins.

• Tíma­móta­samn­ing­ur rík­is og sveit­ar­fé­laga var und­ir­ritaður árið 2022 um að byggja 35.000 íbúðir frá 2023 til 2032. Þar af eiga 30% að vera hag­kvæm fyr­ir tekju- og eignam­inni hópa og 5% fé­lags­legt hús­næði. Þetta mark­mið skal end­ur­skoða ár­lega og Reykja­vík reið á vaðið með sér­stak­an samn­ing um 16.000 nýj­ar íbúðir á tíu árum.

• Rík­is­stjórn­in hef­ur stór­aukið stofn­fram­lög og hlut­deild­ar­lán; um 4.300 íbúðir hafa verið fjár­magnaðar með þess­um hætti og stuðning­ur rík­is­ins við hús­næðismál hleyp­ur á tug­um millj­arða króna.

• Sér­stak­ur vaxt­astuðning­ur var greidd­ur út vegna hækk­andi vaxta, 5,5 millj­arðar króna sem náðu til tæp­lega 56 þúsund ein­stak­linga.

• Rétt­arstaða leigj­enda var styrkt með end­ur­skoðun á húsa­leigu­lög­um og sveit­ar­fé­lög fengu aukn­ar heim­ild­ir til að tryggja að bygg­ing­ar­fram­kvæmd­ir gengju eft­ir, meðal ann­ars með tíma­bundn­um upp­bygg­ing­ar­heim­ild­um.

Stór­sókn í sam­göngu­mál­um

Önnur full­yrðing sem oft heyr­ist frá tals­mönn­um „kyrr­stöðukórs­ins“ er að ekk­ert miði í sam­göng­um. Staðreynd­irn­ar segja annað:

• Fjár­fest­ing­ar í sam­göng­um hafa verið með mesta móti síðustu ár og veru­lega verið bætt í viðhald vega. Alþing­is bíður að fjalla um og staðfesta nýja sam­göngu­áætlun, en á þeirri sam­göngu­áætlun sem lögð var fyr­ir þingið síðastliðinn þing­vet­ur fyr­ir árin 2024-2038 eru 909 millj­arðar króna í beina fjár­fest­ingu á fimmtán árum, þar af 263 millj­arðar fyrstu fimm árin. Þar að auki bæt­ist við fjár­mögn­un í sam­starfs­verk­efn­um eins og Sunda­braut og Ölfusár­brú.

• Ein­breiðum brúm fækk­ar stöðugt og stefnt er að því að eng­in ein­breið brú verði eft­ir að loknu áætl­un­ar­tíma­bil­inu. Gríðarlegt átak í bundnu slit­lagi held­ur áfram, auk sam­göngu­verk­efna á borð við Reykja­nes­braut, Suður­lands­veg, Kjal­ar­nes, Foss­vogs­brú, fram­kvæmd­ir sem til­greind­ar eru í jarðganga­áætl­un og aðrar fram­kvæmd­ir víða um land. Fram­kvæmd­ir við Sunda­braut eru komn­ar á rek­spöl þannig að stefnt er að opn­un árið 2031.

• Vara­flug­vall­ar­gjald var leitt í lög til að byggja upp inn­an­lands­flug­velli og veru­leg upp­bygg­ing hef­ur átt sér stað meðal ann­ars á Ak­ur­eyr­arflug­velli.

Heil­brigðismál: Aldrei meiri fjár­fest­ing

Sjald­an hafa orðið jafn víðtæk­ar fram­far­ir í heil­brigðis­kerf­inu og á síðustu árum. Will­um Þór Þórs­son fv. heil­brigðisráðherra beitti sér af miklu afli fyr­ir fjöl­breytt­um aðgerðum til að bæta þjón­ustu og lækka greiðsluþátt­töku sjúk­linga:

• Lang­tíma­samn­ing­ar við sjúkraþjálf­ara, sér­greina­lækna og tann­lækna sem tekn­ir voru upp eft­ir fjög­urra ára samn­ings­leysi.

• Stór­auk­in end­ur­hæf­ing­ar­rými, upp­bygg­ing á bráðamót­tök­um og heilsu­gæslu­stöðvum um allt land; m.a. í Reykja­nes­bæ og á Ak­ur­eyri.

• Marg­ir biðlist­ar hafa styst með samn­ing­um til að mynda um kaup á liðskiptaaðgerðum og aðgerðum vegna en­dómetríósu.

• Fjar­skipta­lækn­ir og upp­bygg­ing tækni­búnaðar við bráðaþjón­ustu um land allt, til að jafna aðgengi og bæta ör­yggi.

• Mikl­ar fram­kvæmd­ir standa yfir vegna Nýja Land­spít­al­ans (stærsta op­in­bera fram­kvæmd Íslands­sög­unn­ar) upp á sam­tals 210 millj­arða, auk þess sem ráðist hef­ur verið í und­ir­bún­ing að áfanga 2 og nýju geðsjúkra­húsi. Svo mætti lengi áfram telja.

Kyrrstaðan í efna­hags­mál­um?

Ein furðuleg­asta goðsögn­in er að ís­lensk efna­hags­mál séu í kyrr­stöðu. Þvert á móti hef­ur hag­vöxt­ur verið kröft­ug­ur og at­vinnu­leysi með því minnsta sem þekk­ist í Evr­ópu.

Ísland hef­ur staðið af sér mikl­ar áskor­an­ir, frá falli WOW til heims­far­ald­urs covid-19 og jarðhrær­inga á Reykja­nesi. Þrátt fyr­ir það hef­ur hag­kerfið sýnt ótrú­lega þraut­seigju, þar sem hag­vöxt­ur hef­ur hald­ist sterk­ur og at­vinnu­leysi verið minna en í ESB und­an­far­inn ára­tug. Raun­ar hef­ur helsta áskor­un Seðlabank­ans verið að halda aft­ur af þess­um mikla krafti m.a. með hækk­un vaxta.

Kyrrstaðan um ESB

Eina raun­veru­lega kyrrstaðan sem þessi rík­is­stjórn gæti rofið er kyrrstaðan um aðild að Evr­ópu­sam­band­inu. Sá leiðang­ur var geng­inn til þraut­ar síðast þegar Sam­fylk­ing­in sat í for­sæt­is­ráðuneyt­inu og að lok­um var viðræðum slitið. Í ljós hafði komið, sem marg­ir höfðu raun­ar bent á löngu áður, að hags­mun­um Íslands væri bet­ur borgið utan sam­bands­ins. Leiðang­ur­inn var kostnaðarsam­ur og tíma­frek­ur, skipti ís­lenskri þjóð upp í fylk­ing­ar og niðurstaðan fyr­ir­sjá­an­leg. Nú á að gera sömu mis­tök­in aft­ur.

Það eina sem hef­ur breyst er að ný­út­gefn­ar skýrsl­ur staðfesta að Evr­ópa stend­ur frammi fyr­ir veru­leg­um áskor­un­um, at­vinnu­leysi er óviðun­andi, hag­vöxt­ur slak­ur og skort­ur á sam­keppn­is­hæfni veru­legt áhyggju­efni. Á sama tíma hef­ur ís­lenskt efna­hags­líf ein­kennst af mikl­um þrótti síðustu ár og ein helsta áskor­un­in fal­ist í því að halda aft­ur af spennu og af­leiddri verðbólgu.

Þegar allt kem­ur til alls

Er allt full­komið? Nei. Auðvitað ekki. Áskor­an­ir við stjórn­un og framþróun sam­fé­lags­ins munu alltaf fyr­ir­finn­ast og verk­efni nýrr­ar rík­is­stjórn­ar verður án efa krefj­andi þótt hún taki sann­ar­lega við góðu búi fyrri rík­is­stjórn­ar. Upp munu koma áskor­an­ir sem ekki eru á sjón­deild­ar­hringn­um þegar þetta er skrifað og öll get­um við sam­ein­ast í því að óska þeim sem fara með valdið velfarnaðar.

Allt tal um að rjúfa kyrr­stöðu er inn­an­tómt þegar horft er til staðreynda. Það má kannski gefa tals­mönn­um Sam­fylk­ing­ar og Viðreisn­ar prik fyr­ir snjalla póli­tík, því það er sann­ar­lega auðvelt að „rjúfa kyrr­stöðu“ sem á sér enga stoð í raun­veru­leik­an­um. Áróður þeirra skilaði nokkr­um ár­angri í síðustu kosn­ing­um, en nú væri vert að þau nálguðust verk­efni sín af virðingu og ábyrgð og hættu þess­um fyr­ir­slætti.

Svo má kannski svona á létt­um nót­um í rest­ina, úr því þingmaður Viðreisn­ar er áhuga­sam­ur um að skíra börn sem nálg­ast ferm­ingu með vís­an í skrif henn­ar um fyrri rík­is­stjórn, gefa nýrri rík­is­stjórn nafn við hæfi. Nafnið „end­ur­vinnslu­stjórn­in“ færi þeim vel, enda er lítið að frétta af þeim bæn­um annað en fram­lagn­ing frum­varpa fyrri rík­is­stjórn­ar.

Helgi Héðinsson, fram­kvæmda­stjóri Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. mars 2025.