Categories
Fréttir Greinar

Sam­gönguáætlun – skuld­binding, ekki kosninga­lof­orð

Deila grein

01/09/2025

Sam­gönguáætlun – skuld­binding, ekki kosninga­lof­orð

Samgönguáætlun er lögbundin langtímaáætlun ríkisins um samgöngur og fjarskipti og er samþykkt af Alþingi. Hún skiptist í annars vegar tólf ára stefnumarkandi áætlun, þar sem sett eru fram markmið og áherslur stjórnvalda, og hins vegar fjögurra ára framkvæmdaáætlun. Markmið hennar er að tryggja að uppbygging innviða sé markviss, samræmd og fjármögnuð. Hún er þannig grundvallartæki til að tengja saman framtíðarsýn, stefnumótun og fjármögnun í innviðauppbyggingu.

Það hlýtur því að teljast ámælisvert þegar ráðherra gefur í skyn að samgönguáætlun sé fyrst og fremst pólitískt plagg sem megi breyta eftir hentugleikum eða jafnvel nota sem verkfæri í kjördæmapoti. Með slíkum málflutningi er dregið í efa að verkefnum sé raðað eftir faglegri og ígrundaðri forgangsröðun og gefið til kynna að fyrri ákvarðanir Alþingis skipti ekki máli þegar nýir ráðherrar kjósa að fara aðra leið.

Dæmi um þetta má sjá í umræðunni um Fjarðarheiðargöng. Þau hafa verið hluti af samgönguáætlun frá árinu 2011, voru jafnframt inni í áætluninni árið 2016 og eru nú á gildandi samgönguáætlun, sem var samþykkt samhljóða á Alþingi með stuðningi allra flokka. Þegar slíkar ákvarðanir eru teknar með þeim hætti hlýtur almenningur og sveitarfélög að mega vænta þess að aðgerðir fylgi í kjölfarið.

Það hlýtur einnig að vekja spurningar um traust sveitarfélaga gagnvart ríkinu þegar stjórnvöld sýna slíkan sveigjanleika í afstöðu sinni. Það er ekki trúverðugt að hrósa Múlaþingi fyrir farsæla sameiningu og lýsa henni sem fyrirmynd annarra, en ætla síðan ekki að standa við þau loforð sem voru grundvallarforsenda sameiningarinnar og staðfest í samgönguáætlun.

Frá árinu 2013 hafa bókanir Sambands sveitarfélaga á Austurlandi verið skýrar: næstu jarðgöng á Austurlandi skulu verða Fjarðarheiðargöng. Þau eru fyrsti áfangi í hringtengingu Austurlands – innviðaverkefni sem sambandið hefur kallað eftir í áratugi. Það er óásættanlegt að sveitarstjórnarráðherra, sem ber ábyrgð á samskiptum ríkis og sveitarfélaga, sýni sveitarstjórnum þá óvirðingu að hunsa samhljóða og langvarandi kröfur um forgangsröðun framkvæmda.

Samgönguáætlun er ekki hugmyndaskjal sem má víkja til hliðar að hentugleikum. Hún er skuldbinding Alþingis og stjórnvalda gagnvart almenningi og sveitarfélögum landsins. Það er því lágmarkskrafa að hún sé virt og framkvæmd í samræmi við þann trúnað sem liggur til grundvallar.

Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar Múlaþings. 

Greinin birtist fyrst á visir.is 1. september 2025.