Categories
Fréttir

Samkomulag um loftslagsvænni landbúnað

Deila grein

20/04/2016

Samkomulag um loftslagsvænni landbúnað

loftlagsmál og umhverfiSigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands undirrituðu í dag samkomulag um gerð vegvísis um minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði.
Vegvísirinn verður unninn í samvinnu stjórnvalda og Bændasamtaka Íslands og mun taka mið af sambærilegri vinnu í sjávarútvegi, greiningu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands og vinnu í öðrum geirum. Skipuð verður verkefnisstjórn til að hafa umsjón með verkefninu. Henni er meðal annars ætlað að greina losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði á Íslandi með hliðsjón af sambærilegum greiningum sem unnar hafa verið í öðrum ríkjum s.s. í Noregi og Nýja Sjálandi. Í framhaldinu verða mótaðar tillögur að raunhæfum lausnum sem miða að samdrætti losunar gróðurhúsalofttegunda í landbúnaði hérlendis.
Vegvísirinn er meðal verkefna í sóknaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum sem ætlað er að leiða til minni losunar og auðvelda Íslandi að standa við skuldbindingar í loftslagsmálum. Er í áætluninni lögð áhersla á samstarf stjórnvalda og atvinnulífs í því skyni að tryggja sem bestan árangur verkefnanna.
Samkomulag um loftslagsvænni landbúnað (pdf-skjal)
Á myndinni eru: Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna og Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Heimild: www.umhverfisraduneyti.is