Categories
Fréttir

Uggur og áhyggjur

Deila grein

20/04/2016

Uggur og áhyggjur

Þorsteinn-sæmundsson„Hæstv. forseti. Við Íslendingar stærum okkur af því að hér sé jafnrétti meira en víðast hvar annars staðar og þá er ég að tala um jafnrétti kynjanna. Við stærum okkur af því að staða kvenna sé óvíða betri en á Íslandi. Víst er það svo að þegar maður sækir alþjóðaráðstefnur, eins og ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um málefni kvenna, sér maður að vissulega höfum við náð langt og erum framarlega. Það eru samt tvær fréttir sem hafa heyrst á Íslandi á síðustu vikum sem valda mér ugg og áhyggjum, í fyrsta lagi frétt um að fjöldi heimilisofbeldismála sem komu til kasta lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu meira en tvöfaldaðist á milli áranna 2014 og 2015. Tvö heimilisofbeldismál koma til kasta lögreglu á degi hverjum.
Hin fréttin varðar það að kynferðisbrotum fjölgar og kærum fækkar. Fjöldi kynferðisbrotamála hjá Stígamótum hefur aukist á milli síðustu tveggja ára en af 468 málum sem komið hafi til kasta Stígamóta hefur einungis 41 verið kært.
Vissulega eru báðir þessir brotaflokkar mjög erfiðir. Það vill svo til að ég held að á Alþingi liggi enn fyrir þverpólitískt mál um að stemma stigu við heimilisofbeldi. Það væri góðu heilli gjört að koma því í gegnum Alþingi á þeim tíma sem við höfum til stefnu.
Ég held enn fremur að hugarfarsbreyting þurfi að verða í þjóðfélaginu, sérstaklega meðal karlmanna, hvað þessi mál varðar. Karlmenn eru gerendur í langflestum þessara tilvika. Það þarf að senda þau skilaboð inn í þennan hóp að slík framkoma í garð kvenna líðist ekki og muni ekki líðast. Við þurfum að gera gangskör í því að taka á þessum málum.“
Þorsteinn Sæmundsson í störfum þingsins 19. apríl 2016.