Categories
Fréttir

Samkomulag um myndun meirihluta í Múlaþingi undirritað

Deila grein

25/05/2022

Samkomulag um myndun meirihluta í Múlaþingi undirritað

Oddvitar B- og D- lista í sveitarstjórn Múlaþings undirrituðu í gær, þriðjudaginn 24. maí, samkomulag um myndun meirihluta á komandi kjörtímabili. Í samkomulaginu er kveðið á um fjölmörg áhersluatriði við stjórn og rekstur sveitarfélagsins næstu fjögur ár auk áhersluatriða í samskiptum við ríkisvaldið um uppbyggingu þjónustu við íbúa sveitarfélagsins.

Í samkomulaginu kemur fram að Jónína Brynjólfsdóttir, oddviti B- lista, verður forseti sveitarstjórnar og Berglind Harpa Svavarsdóttir, oddviti D- lista, verður formaður byggðarráðs. Í samkomulaginu kemur fram að gengið verði til samninga við Björn Ingimarsson sveitarstjóra um að gegna starfinu áfram.

Í samkomulaginu er lögð áhersla á að vinna áfram að því að byggja upp stjórnsýslu Múlaþings, með áherslu á gott samtal við íbúa í öllum byggðakjörnum, samlegð í rekstri, betri nýtingu fjármuna og bættri þjónustu við íbúa m.a. með aukinni sérhæfingu starfsfólks, áherslu á rafrænar lausnir og styttingu boðleiða. Gert er ráð fyrir að þróa áfram heimastjórnir hvers byggðarkjarna og að þeim verði ætlað framkvæmdafé til smærri samfélagsverkefna þar sem íbúar komi beint að forgangsröðun.

Vinna á aðalskipulag fyrir sveitarfélagið og tryggja fullnægjandi framboð byggingarlóða auk þess sem stutt verður við byggingu íbúðarhúsnæðis með ýmsum ráðum. Þá verður því fylgt eftir að ráðist verði í nauðsynlegar samgönguframkvæmdir innan sveitarfélagins, svo sem Fjarðarheiðargöng og Axarveg. Einnig verður þrýst á ríkisvaldið um bætta heilbrigðisþjónustu í öllum byggðarkjörnum sveitarfélagins og að aðstaða fyrir bráðagreiningu verði til staðar á Egilsstöðum. Áhersla verður lögð á að tryggja fjárframlög og framkvæmdir við ofanflóðavarnir á Seyðisfirði.

Meirihlutinn vill auka veg hafna sveitarfélagsins, byggja þær upp og nýta þau tækifæri sem í þeim felast. Þá verður lögð áhersla á uppbyggingu Egilsstaðaflugvallar fyrir millilandaflug. Hvað varðar verklegar framkvæmdir er áhersla á uppbyggingu veitukerfa, húsnæði grunnskóla og að lokið verði við viðbyggingu Safnahúss. Ljúka á undirbúningi að byggingu nýs leikskóla á Egilsstöðum á kjörtímabilinu.

Frekari upplýsingar um kosningarnar af vefnum kosningasaga:

Í sveitarstjórnarkosningunum voru listar Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks, Austurlistans, Miðflokksins og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í kjöri.

Sjálfstæðisflokkur hlaut 3 bæjarfulltrúa og tapaði einum, Framsóknarflokkur hlaut 3 og bætti við sig einum, Austurlistinn hlaut 2 og tapaði einum, Vinstrihreyfingin grænt framboð hlaut 2 og bætti við sig einum og Miðflokkurinn hlaut 1. Sjálfstæðisflokkinn vantaði 99 atkvæði til að fella þriðja mann Framsóknarflokks.

Úrslit

MúlaþingAtkv.%Fltr.Breyting
B-listi Framsóknarflokks58725.09%35.92%1
D-listi Sjálfstæðisflokks68429.23%3-0.03%-1
L-listi Austurlistans47020.09%2-7.11%-1
M-listi Miðflokksins2078.85%1-2.10%0
V-listi Vinstri grænna39216.75%23.33%1
Samtals gild atkvæði2,340100.00%110.00%0
Auðir seðlar753.09%
Ógild atkvæði120.49%
Samtals greidd atkvæði2,42766.26%
Kjósendur á kjörskrá3,663
Kjörnir bæjarfulltrúarAtkv.
1. Berglind Harpa Svavarsdóttir (D)684
2. Jónína Brynjólfsdóttir (B)587
3. Hildur Þórisdóttir (L)470
4. Helgi Hlynur Ásgrímsson (V)392
5. Ívar Karl Hafliðason (D)342
6. Vilhjálmur Jónsson (B)294
7. Eyþór Stefánsson (L)235
8. Guðný Lára Guðrúnardóttir (D)228
9. Þröstur Jónsson (M)207
10. Ásrún Mjöll Stefánsdóttir (V)196
11. Björg Eyþórsdóttir (B)196
Næstir innvantar
Ólafur Áki Ragnarsson (D)99
Ásdís Hafrún Benediktsdóttir (L)118
Hannes Karl Hilmarsson (M)185
Pétur Heimisson (V)196