Categories
Fréttir

„Samtal milli þjóða hefur aldrei verið mikilvægara í því ástandi sem nú ríkir í heiminum“

Deila grein

19/10/2023

„Samtal milli þjóða hefur aldrei verið mikilvægara í því ástandi sem nú ríkir í heiminum“

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, fór yfir störf þingmannanefndar um norðurskautsmál er fundaði á Egilsstöðum í vikunni í störfum þingsins. Þátttakendur voru þingmenn og starfsmenn þjóðþinga frá Norðurlöndunum, Kanada og Bandaríkjunum. Eins sátu fulltrúar Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs fundina. Margir þátttakendur á þessum fundi munu í framhaldinu taka þátt í Hringborði norðurslóða.

„Áherslurnar í samstarfi þingmannanna snúast nú sem áður um þrjár stoðir sjálfbærni: Í fyrsta lagi þróun mannlífs á norðurslóðum og þar með málefni frumbyggja og velferð í samfélögunum, loftslagsbreytingar og sambúð manns og náttúru og loks sjálfbæra efnahagsþróun.

Áhrif loftslagsbreytinga blasa nú við í öllum þessum löndum, hvort sem er með tíðari krapaflóðum á Austfjörðum eða gróðureldum í Norður-Ameríku. Á fundinum kynnti Morten Høglund formennskuáætlun Noregs í Norðurskautsráðinu og átti virkt samtal við nefndarmenn í gegnum fjarfundabúnað um samstarfið í víðu samhengi. Starfsmenn þeirra vinnuhópa Norðurskautsráðsins sem hafa starfsstöð á Akureyri kynntu vinnuna sem fram fer á þeirra vegum,“ sagði Líneik Anna.

„Á þessum fundum ræða þingmenn leiðir til að ná árangri í baráttu fyrir sameiginlegum hagsmunum íbúa við norðurskautið og kynna sér samfélögin þar sem fundað er hverju sinni, enda alltaf hægt að læra hvert af öðru. Í því skyni fengu gesti kynningu á orkumálum á Austurlandi, heimsóttu Fljótsdalsstöð og hitaveitu Múlaþings auk þess að fá innsýn í sjávarútveg og ýmsa uppbyggingu á ferðaþjónustu. Samtal milli þjóða hefur aldrei verið mikilvægara í því ástandi sem nú ríkir í heiminum,“ sagði Líneik Anna að lokum.


Ræða Líneikar Önnu í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Þingmannanefnd um norðurskautsmál fundaði á Egilsstöðum í gær. Þann fund sóttu rúmlega 20 manns, þingmenn og starfsmenn þjóðþinga frá Norðurlöndunum, Kanada og Bandaríkjunum. Þá sitja fulltrúar Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs fundina. Margir þátttakendur á þessum fundi munu í framhaldinu taka þátt í Hringborði norðurslóða. Áherslurnar í samstarfi þingmannanna snúast nú sem áður um þrjár stoðir sjálfbærni: Í fyrsta lagi þróun mannlífs á norðurslóðum og þar með málefni frumbyggja og velferð í samfélögunum, loftslagsbreytingar og sambúð manns og náttúru og loks sjálfbæra efnahagsþróun.

Áhrif loftslagsbreytinga blasa nú við í öllum þessum löndum, hvort sem er með tíðari krapaflóðum á Austfjörðum eða gróðureldum í Norður-Ameríku. Á fundinum kynnti Morten Høglund formennskuáætlun Noregs í Norðurskautsráðinu og átti virkt samtal við nefndarmenn í gegnum fjarfundabúnað um samstarfið í víðu samhengi. Starfsmenn þeirra vinnuhópa Norðurskautsráðsins sem hafa starfsstöð á Akureyri kynntu vinnuna sem fram fer á þeirra vegum. Annars vegar er vinnuhópurinn sem hefur skammstöfunina CAFF, sem fjallar um viðhald líffræðilegs fjölbreytileika, bæði flóru og fánu, og hins vegar hópurinn PAME, sem fæst við umhverfisvernd og sjálfbæra nýtingu í hafinu.

Á þessum fundum ræða þingmenn leiðir til að ná árangri í baráttu fyrir sameiginlegum hagsmunum íbúa við norðurskautið og kynna sér samfélögin þar sem fundað er hverju sinni, enda alltaf hægt að læra hvert af öðru. Í því skyni fengu gesti kynningu á orkumálum á Austurlandi, heimsóttu Fljótsdalsstöð og hitaveitu Múlaþings auk þess að fá innsýn í sjávarútveg og ýmsa uppbyggingu á ferðaþjónustu. Samtal milli þjóða hefur aldrei verið mikilvægara í því ástandi sem nú ríkir í heiminum.“