Categories
Fréttir

Samþættur akstur almenningsvagna og skólabíla ‒ skilar betri þjónustu og loftslagsmarkmiðum Íslands mætt

Deila grein

05/06/2024

Samþættur akstur almenningsvagna og skólabíla ‒ skilar betri þjónustu og loftslagsmarkmiðum Íslands mætt

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, ræddi almenningssamgöngur innan sveitar eða milli landshluta í störfum þingsins. Búa verði þannig um hnútana að almenningssamgöngur séu raunhæfur valkostur og mæti þörfum farþega. Einnig sé mikilvægi þeirra þáttur í að jafna aðgengi að þjónustu samkvæmt byggðaáætlun og hún á að styðja við þróun á því.

„Mikilvægi þeirra er gríðarlegt, ekki bara til þess að dreifa ferðamönnum heldur til að mæta þörfum atvinnulífsins og fjölbreyttara samfélags,“ sagði Halla Signý.

Í svari innviðaráðherra við fyrirspurn Höllu Signýjar hvernig hafi gengið með framkvæmd þessarar byggðaaðgerðar segir að unnið hafi verið að endurskipulagning á leiðakerfi landsbyggðarvagna frá árinu 2022. Markmiðið sé að tengja byggðarlög sem deila vinnusóknar- og skólasvæðum og stefnt sé að því að til verði nýtt leiðakerfi í næsta útboði á landsbyggðarvögnum á tímabilinu 2025–2026.

„Auk þess hafa verið tilraunaverkefni um samþættan akstur með stuðningi úr byggðaáætlun. Þar er verið að horfa á að nýta almenningsvagna og skólabíla annars vegar í Borgarbyggð og á sunnanverðum Vestfjörðum. Í Borgarbyggð hefur þessi tilraun reynst vel á meðal íbúa á báðum svæðum og hún verið vel nýtt af börnum og ungmennum sem sækja tómstundir og íþróttir að loknum skóladegi. Samþættur akstur hefur farið fram að frumkvæði sveitarfélaganna og landshlutasamtaka og aðkoma ríkisins að beiðni þessara aðila. Uppruni og gerð hvers verkefnis eru því ólík.“

„Það er mikilvægt að unnið verði hratt og örugglega að því að bæta almenningssamgöngur milli byggðarlaga og landsvæða til að bæta þjónustu og mæta loftslagsmarkmiðum stjórnvalda. Það er allra hagur,“ sagði Halla Signý að lokum.


Ræða Höllu Signýar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Illa hefur gengið að auka almenningssamgöngur milli staða síðustu ár, hvort sem það er innan sveitar eða milli landshluta. Mikilvægi þeirra er gríðarlegt, ekki bara til þess að dreifa ferðamönnum heldur til að mæta þörfum atvinnulífsins og fjölbreyttara samfélags. Svo að almenningssamgöngur séu raunhæfur valkostur þurfa þær að mæta þörfum farþega. Erfitt hefur verið að feta þennan gullna meðalveg á öllum svæðum. Almenningssamgöngur eru mikilvægar til að jafna aðgengi að þjónustu samkvæmt byggðaáætlun og hún á að styðja við þróun á því.

Nú á vormánuðum sendi ég fyrirspurn til hæstv. innviðaráðherra til að leita svara við því hvernig hefur gengið með þessa aðgerð. Í svarinu segir að unnið hafi verið að endurskipulagningu á núverandi leiðakerfi landsbyggðarvagna síðan 2022, en Vegagerðin tók formlega við rekstri í janúar 2020. Markmiðið er að tengja byggðarlög sem deila vinnusóknar- og skólasvæðum og stefnt að því að innleiða nýtt leiðakerfi í næsta útboði á landsbyggðarvögnum á tímabilinu 2025–2026. Vonir standa til að grunnur að nýju greiðslukerfi verði þá kominn langt á leið. Auk þess hafa verið tilraunaverkefni um samþættan akstur með stuðningi úr byggðaáætlun. Þar er verið að horfa á að nýta almenningsvagna og skólabíla annars vegar í Borgarbyggð og á sunnanverðum Vestfjörðum. Í Borgarbyggð hefur þessi tilraun reynst vel á meðal íbúa á báðum svæðum og hún verið vel nýtt af börnum og ungmennum sem sækja tómstundir og íþróttir að loknum skóladegi. Samþættur akstur hefur farið fram að frumkvæði sveitarfélaganna og landshlutasamtaka og aðkoma ríkisins að beiðni þessara aðila. Uppruni og gerð hvers verkefnis eru því ólík.

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að unnið verði hratt og örugglega að því að bæta almenningssamgöngur milli byggðarlaga og landsvæða til að bæta þjónustu og mæta loftslagsmarkmiðum stjórnvalda. Það er allra hagur.“