Categories
Fréttir

Sauðfjárbændur samhljóma á aðalfundum – niðurtröppun taki ekki gildi um áramótin

Deila grein

13/12/2022

Sauðfjárbændur samhljóma á aðalfundum – niðurtröppun taki ekki gildi um áramótin

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður, var með óundirbúna fyrirspurn fyrir matvælaráðherra á Alþingi um greiðslumark sauðfjárbænda.

Minnti hún matvælaráðherra á að greiðslumarkið væri eini öryggi greiðslugrunnurinn sem sauðfjárbændur hljóta sama hvort ári vel eða illa. Því komi það á óvart að ætlan ráðherra væri að hefja að nýju niðurtröppun á greiðslumarkinu.

„Árið 2019 var ákveðið að stöðva niðurtröppun greiðslumarks vegna slæmrar afkomu í stéttinni. Það var án efa rétt skref á sínum tíma en staða sauðfjárbænda í dag er því miður engu skárri en þá. Það vekur því furðu að hefja eigi niðurtröppun að nýju þegar staðan hefur ekki batnað síðan árið 2019 og nýliðun er því miður í lágmarki,“ sagði Ingibjörg.

„Sauðfjárbændur á Norðvestur- og Norðausturlandi horfa áhyggjufullir á áframhaldið, skyldi umrædd niðurtröppun verða að veruleika, enda þau svæði landsins sem verst verða úti ef þetta gengur eftir. Sauðfjárbændur hafa ítrekað ávarpað fyrirhugaða niðurtröppun og deilt áhyggjum sínum af stöðunni, bæði opinberlega og innan sinna raða.“

Á síðustu tveimur aðalfundum sauðfjárbænda hefur niðurstaðan verið samhljóma um að niðurtröppun skuli ekki taka gildi um áramótin. Augljóst sé að sauðfjárbændur standa saman í þessu hagsmunamáli.

„Að auki vekja þessi áform sérstakan óhug meðal yngri sauðfjárbænda sem margir hafa fjárfest í greiðslumarki. Þessi óvissa er alls ekki til þess fallin að auka nýliðun innan stéttarinnar. Þetta er skýr vilji bænda og hann byggir ekki á óskhyggju heldur nauðsyn.“

„Vegna þessa vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hyggst halda niðri niðurtröppun á greiðslumarki til sauðfjárbænda áfram í lok ársins þrátt fyrir ákall sauðfjárbænda og þann mikla sameiningarmátt sem loksins er innan greinarinnar,“ sagði Ingibjörg.

„Ekki þeir er hringja í ráðherra, ráðuneytið og í fleiri“

Matvælaráðherra segir að bændur hefðu enga eina skoðun á kerfinu, það hafi komið fram í svörum bænda í könnunum og eins í samtölum bænda er hringja í ráðherra, ráðuneytið og í fleiri, eru ólík.

„Þegar sauðfjárbændur eru spurðir hversu sanngjarnt eða ósanngjarnt þeim finnist greiðslumarkskerfið vera þá er afstaða sauðfjárbænda klofin. Sá hluti sauðfjárbænda sem á mikið greiðslumark vill halda í það kerfi og finnst það sanngjarnt. Þeir bændur sem eiga lítið greiðslumark og sjá að þangað flytjast fjármunir finnst þetta kerfi ósanngjarnt.“

„Raunar er kerfið svo umdeilt að meira að segja fimmtungur þess hluta sauðfjárbænda sem á mikið greiðslumark telur að kerfið sé ósanngjarnt þrátt fyrir það. Þessi spurning var lögð fyrir sauðfjárbændur sumarið 2021 í könnun á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og könnuninni svöruðu 770 sauðfjárbændur,“ sagði matvælaráðherra.

„Aðalatriðið er það, virðulegi forseti, að halda því til haga að á mínum tíma í embætti hefur svo sannarlega verið hlustað á bændur,“ sagði matvælaráðherra.

Vilji sauðfjárbænda sjaldan verið jafn skýr

Ingibjörg sagði það „afar ánægjulegt að heyra að það sé verið að hlusta á sauðfjárbændur. Það er varla hægt að ítreka nógu oft hversu mikilvægt það er að taka samtalið og það sé hlustað, því að sjaldan hefur vilji sauðfjárbænda verið jafn skýr og núna.“

„Við eigum að koma í veg fyrir að rekstrargrundvöllur sauðfjárbænda sem stendur höllum fæti í dag fari versnandi. Með leyfi forseta, vitna ég hér til samningsins:

„Á grundvelli upplýsinga skv. 1. mgr. getur framkvæmdanefnd búvörusamninga ákveðið að færa fjármuni á milli einstakra verkefna sem falla undir samning um starfsskilyrði sauðfjárræktar. Heimilt er að færa árlega allt að 20% þeirrar fjárhæðar sem ætluð er til hvers verkefnis.“

„Því spyr ég hæstv. ráðherra: Er þetta ekki leið sem er hugsanlega fær þar sem kveðið er á um þetta í samningnum sjálfum?“

Matvælaráðherra svarði því til að ef fallast ætti á beiðnina myndi rúmlega helmingur bænda fá hærri greiðslur en helmingur bænda fá lægri greiðslur.

„Heildarumfangið er upp á rúmar 110 millj. kr. sem myndi flytjast milli bænda, en þetta eru 2,3% af heildarumfangi sauðfjársamningsins. Það er rétt að árétta að við þessa breytingu lækkar ekki stuðningurinn við sauðfjárrækt heldur færist, bara þannig að það sé sagt,“ sagði matvælaráðherra.