Categories
Fréttir

Seðlabankinn verður að sjá að sér

Deila grein

07/06/2016

Seðlabankinn verður að sjá að sér

Þorsteinn-sæmundsson„Hæstv. forseti. Haft er eftir Gylfa Zoëga hagfræðingi í Kjarnanum nýlega. Þar segir, með leyfi forseta:
„Ef sú hagstæða efnahagsþróun sem hér hefur verið lýst á að viðhaldast eftir að fjármagnshöftum hefur verið aflétt þá er nauðsynlegt að tekið sé upp nýtt hagstjórnartæki sem minnkar virkan vaxtamun á milli Íslands og helstu viðskiptalanda. Ef þetta er ekki gert má búast við að fjárfestar reyni að hagnast á vaxtamun með því að kaupa krónur og fjárfesta í innlendum skuldabréfum. Gengi krónunnar mun þá styrkjast og afkoma ferðaþjónustu versna.“
Það er út af fyrir sig hárrétt og gott að sá ágæti maður skuli koma því á framfæri, en þess ber að geta að hann er líka meðlimur í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands sem ákvað í morgun að halda stýrivöxtum á Íslandi óbreyttum í 5,75%, sem þýðir í raun 6,5% vexti í 1,7% verðbólgu sem mælist nú um stundir.
Sú ákvörðun, ein af mörgum í langri röð, er jafn röng nú og fyrr. Ef mönnum væri mikil alvara með að koma hér á nýjum hagstjórnartækjum held ég að þeir mundu ekki við núverandi aðstæður halda vöxtum óbreyttum í þessum hæðum um leið og hótað er hækkun þessara vaxta ef verðbólga hækkar, en verðbólguvæntingar á Íslandi mælast nú einungis og eiginlega einvörðungu á Kalkofnsveginum þar sem Seðlabankinn er til húsa, því að aðrir búast ekki við verðbólgu, enda er ekkert von á verðbólgu. Hér vantar enn á að skila styrkingu krónunnar inn í vöruverð o.s.frv.
Það er hins vegar mjög alvarlegt mál að nú eru að dembast inn peningar sem aldrei fyrr síðan rétt fyrir hrun, út af þeim vaxtakjörum sem Seðlabankinn býður upp á. Þau eru ávísun á vandræði og óhöpp í framtíðinni ef Seðlabankinn sér ekki að sér í þessum málum.“
Þorsteinn Sæmundsson í störfum þingsins 1. júní 2016.