Categories
Fréttir

Síðdegisvaktin kom saman í gær

Deila grein

11/01/2023

Síðdegisvaktin kom saman í gær

Það var góður hópur sem kom saman í gær til að fara yfir stöðuna á nýju ári. Hópurinn kallast síðdegisvaktin enda hefur hann staðið sína plikt síðdegis á kosningaskrifstofu Framsókn nú í tvennum kosningum í röð, alþingiskosningunum 2021 og borgarstjórnarkosningunum 2022.

Hópinn skipa, Þórunn Sveinbjörnsdóttir, Hulda Finnlaugsdóttir, Dagbjört Höskuldsdóttir, Inga Þyrí Kjartansdóttir, Sigrún Magnúsdóttir og Bragi Ingólfsson. Rétt er að taka fram að fleiri aðilar hafa komið að starfi hópsins og verða þeir vonandi festir á filmu á næsta fundi.

Farið var yfir mjög góðan kynningarfund, í byrjun síðasta mánaðar, þar sem kynnt voru drög að aðgerðaáætlun til fjögurra ára um þjónustu við eldra fólk. Nafn verkefnisins er: Gott að eldast.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og Guðmundur Ingi félags- og vinnumarkaðsráðherra fóru þar yfir að fólk eigi að geta látið sig hlakka til efri áranna og síðustu áratugir ævinnar eigi að vera meðal þeirra allra bestu. Markmiðið sé að trygga eldra fólki þjónustu við hæfi, hvort sem um ræðir heimaþjónustu á vegum sveitarfélaga eða heilbrigðisþjónustu. Þórunn fór vel yfir þetta allt.

Í samráðsgátt eru nú drög að þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk 2023-2027 og er umsagnarfrestur er 23. janúar. Aðgerðaáætlunin byggir á fimm stoðum, þ.e. samþættingu þjónustu, virkni, upplýsingu, þróun og heimili. Meginþungi aðgerða liggur í þróunarverkefnum þar sem samþætting og nýsköpun og prófanir munu nýtast til ákvarðanatöku um framtíðarskipulag þjónustu við elda fólk. Þar að auki verður ráðist í aðgerðir sem hverfast um sveigjanleika í þjónustu, heilbrigða öldrun með alhliða heilsueflingu, og betri aðgang að ráðgjöf og upplýsingum.

Ingibjörg Isaksen alþingismaður hefur lagt fram á Alþingi tilllögu til þingsályktunar um markvissa öflun gagna um líðan, velferð og efnahag eldra fólks. Þetta er fjölbreyttur hópur með ólíkar þarfir og það sem hentar einum þarf ekki að henta öðrum. Þá þarf samfélagið einnig að vera tilbúið til þess að takast á við sístækkandi hóp eldra fólks með það að markmiði að koma til móts við þeirra þarfir. Svo hægt sé að greina stöðu eldra fólks með markvissum og skilvirkum hætti er nauðsynlegt að hafa við höndina rétt tól og tæki.