Categories
Greinar

Nú árið er liðið

Deila grein

11/01/2023

Nú árið er liðið

Við tökum á móti nýju ári og nýju upphafi. Veðurguðirnir sem virtust hafa gleymt sér í sumrinu hrukku í takt í upphafi aðventu og lögðu snjó með kulda yfir landið. Allt hefur sinn tíma og árstíðir hafa sitt hlutverk sem fyrr. Þó kemur það landanum alltaf jafn mikið á óvart þegar fer að snjóa og það í desember. Ófærðin veldur írafári en það er mögulega merki um breytta samfélagsmynd. Fólk er háð greiðum samgöngum, sækir vinnu og skóla í næstu byggðalög og ferðaþjónustan reiðir sig á að samgöngur séu góðar allt árið um kring.

Það eru sannarlega tímamót að taka móti nýju ári, nýju upphafi fylgir uppgjör þess liðna, söknuður og tilhlökkun í senn.

Þannig hefur árið 2022 liðið. Hófst í samkomutakmörkunum og það ótrúlega gerðist að stríð hófst í Evrópu og stendur enn. Okkur finnst það ótrúlegt og það er líkt og mannkynið læri aldrei af sögunni því þrátt fyrir góð áform birtast vond öfl sem ná of oft yfirhöndinni og allir tapa. Óvissan er mikil og áhrifin breiða sig yfir alla Evrópu þar sem enn sér ekki fyrir endann á áhrifunum og hugur okkar er hjá fólki sem býr við ógnir stríðs í Evrópu og reyndar víðar um heiminn. Áhrif stríðsins vara í nokkrar kynslóðir og enginn verður krýndur sigurvegari.

Staðan hér á landi

Heimsfaraldur og áhrif stríðs í Evrópu gætir hér á landi sem víðar. Traustar undirstöður ríkisfjármála eru lykill að því að mæta sveiflum og áskorunum sem þeim fylgja.  Áherslan fram að heimsfaraldri var að greiða niður skuldir og lækka vaxtabirgði. Ríkissjóður stóð sterkur þegar við gengum inn í öldusjó sem gaf okkur möguleika á viðspyrnu og dýrmætu samspili við peningastefnu og vinnumarkað. Við afgreiðslu fjárlaga 2023 erum við viðbúin að sækja fram og halda áfram að byggja upp inniviði samfélagsins og búa í haginn fyrir komandi kynslóðir. Miklu skipir að kjaraviðræður í haust gengu með ágætum og má þar þakka vilja allra aðila til að byggja áfram undir velferð fólks í landinu.

Samgöngur

Síðustu fimm ár hefur verið stórsókn í samgöngubótum á Vestfjörðum sem hófust með Dýrafjarðargöngum en áfram skal haldið þangað til að við getum talað um nútímavegi allan Vestfjarðarhringinn. Unnið er að 12-14 km vegbótum á Dynjandisheiðinni og stórframkvæmdir eru í Gufudalssveitinni þar sem framkvæmdir ganga vel en áfangar þar eru fimm. Einum er lokið, þrír eru í framkvæmd og enn á eftir að bjóða út þann síðasta. Allt eru þetta áfangar í að gera samgöngur greiðari fyrir vaxandi samfélag á Vestfjörðum

Sveitarfélög í sveiflu

Sveitastjórnarkosningar settu svip sinn á síðasta ár. Sem fyrr urðu nokkrar breytingar og margt nýtt og öflugt sveitastjórnarfólk tók við keflinu. Við í Framsókn erum gríðarlega þakklát og auðmjúk yfir sigri okkar í sveitarstjórnarkosningunum og erum stolt af kosningabaráttunni um land allt ekki síst af okkar glæsta árangri í höfuðborginni þar sem náðum inn fjórum fulltrúum. Í Ísafjarðarbæ jókst fylgið þótt fulltrúatalan sé sú sama og í Bolungarvík náði okkar kona að leiða M-listann til sigurs sem eru stórtíðindi. Áfram vinnur okkar fólk að því að leiða starfið í samvinnu til að ná fram árangri.

Sterk sveitarfélög

Unnið hefur verið að sameiningu sveitarfélaga á landsvísu og bara á síðasta ári fækkaði þeim um fimm og eru í dag 64 sveitarfélög á landinu. Fjöldi sveitarfélaga á Vestfjörðum eru níu og hafa verið svo síðustu tuttugu árin. Nú hafa tvö þeirra hafið sameiningarviðræður og ef niðurstaðan verður sú að þeim sé betur borgið saman fækkar enn í hópnum. Stjórnvöld hafa unnið að átaki í að styrkja sveitastjórnarstigið með sjálfbærni sveitarfélaga og lýðræðislegri starfsemi þeirra að markmiði. Auk þess þarf alltaf að vinna að því að tryggja sem jöfnust réttindi og aðgengi íbúa að grunnþjónustu. Á síðustu 20 árum hafa vissulega verið breytingar á verkefnum og skyldum sveitarfélaga.  Ber þar hæst flutning á málefnum fatlaðra til sveitarfélaga. Þar hafa minni sveitarfélög séð hag sínum betur borgið að vinna að verkefninu saman og breytingar eru að verða á sviði barnaverndar og ný farsældarlög í málefnum barna kalla á nýtt verklag. Auknar skyldur og umsýsla hefur aukist og þar skiptir ekki máli hver stærð sveitarfélagsins er.

Nú stendur til að kanna grundvöll fyrir því að sveitarfélögin á Vestfjörðum sameinist um velferðarþjónustu sem sinni barnaverndarþjónustu, þjónustu við fatlað fólk og móttöku flóttafólks. Byggðasamlög um verkefni og skyldur eru góð og oft nauðsynleg en það er þó staðreynd að lýðræði og aðkoma sveitarfélaganna innan slíkra samlaga færist lengra frá stjórnsýslu hvers sveitarfélags fyrir sig en ella.  Sjókvíeldi á Vestfjörðum kallar á aukna samvinnu sveitarfélaga og ábati að nýrri atvinnugrein skiptir öll sveitarfélag fjórðungsins máli.

Það er gott að staldra við og hækka flugið, líta yfir svæðið og horfa á samvinnu og/eða sameiningu sveitarfélaga út frá nýjum sameiginlegum áskorunum og verkefnum. Það er alltaf gott að taka samtalið og svo ákvörðun út frá því.

Áfram veginn

Áherslan næstu ár er á fólkið í landi og að nýta auð íslensks samfélags hvar á landinu sem fólk býr. Hvert samfélag og hver einstaklingur skiptir máli. Öflugt velferðarkerfi er undirstaða jöfnuðar. Vinna að kerfisbreytingum í þágu barna í samræmi við lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna heldur áfram. Nýta skal sömu hugmyndafræði til að samþætta þjónustu annarra hópa eins og eldra fólks, en það mun án efa skila okkur betri lýðheilsu og meiri virkni út lífið. Þjóðin er að eldast og því þarf sérstaklega að huga að þessum þáttum til að virkni eldra fólks í samfélaginu sé virt. Við þurfum að leiða leiða til að auðvelda fólki að búa lengur heima. Samþætting þjónustu er nauðsynleg til að ná fram virkni og aukinni þátttöku eldra fólks í lifandi samfélagi.

Samfélög í blóma

Það má svo sannarlega segja að það hafi verið byr í seglum samfélaga á Vestfjörðum undanfarinn áratug. Ef horft er til síðustu þriggja áratuga má segja að það ríki meiri bjartsýni og þróttur nú en skynja mátti í upphafi þessarar aldar. Uppbygging nýrra atvinnugreina líkt og fiskeldis og ferðaþjónustu hafa komið inn með nýjan kraft og afleidd störf sem leiðir af sér að nú vex íbúatalan á ný.

Það eykur slagkraft, ef við í sameiningu í fjórðungnum vinnum að baráttumálum til að geta staðið jafnfætis við önnur landssvæði. Við ætlum okkur ekki að halla okkur aftur og slaka á í ferðalaginu, heldur standa áfram vörð um verkefni sem eru undirstaða frekari vaxtar og samkeppnishæfni fjórðungsins í heild á komandi árum.

Gleðilegt ár.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður.

Greinin birtist fyrst á bb.is 9. janúar 2023.