Categories
Fréttir

Sigurður Ingi á fundi með Íbúasamtökum Grafarvogs

Deila grein

19/03/2021

Sigurður Ingi á fundi með Íbúasamtökum Grafarvogs

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hélt opinn fjarfund með Íbúasamtökum Grafarvogs um Sundabraut. Á fundinum kynnti ráðherra niðurstöður starfshóps Vegagerðarinnar og næstu skref sem miða að tillögu um breytingu á aðalskipulagi.

Sundabrú er hagkvæmari kostur en jarðgöng fyrir legu Sundabrautar að mati starfshóps á vegum Vegagerðarinnar en Reykjavíkurborg, Faxaflóahafnir og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu áttu einnig fulltrúa í hópnum. Starfshópurinn telur vega þyngst að kostnaður við brúarleið væri lægri, brú henti betur fyrir alla ferðamáta og almenningssamgöngur og að ný Sundabraut á brú bæti samgöngur innan höfuðborgarsvæðisins og til og frá borginni með því að dreifa umferð, minnka álag á öðrum stofnvegum og stytta ferðatíma. Guðmundur Valur Guðmundsson, framkvæmdarstjóri Þróunarsviðs hjá Vegagerðinni og formaður starfshópsins kynnti á fundinum nánari útfærslur á frumhönnun.

„Kynningin er hluti af ferlinu um Sundabrú sem er loksins hafið, svo fólk geti kynnt sér valkosti. Sundabrú verður gríðarleg framför fyrir alla, eykur lífsgæði, styttir ferðatíma og stuðlar að skilvirkni í umferðinni. Samtal við íbúana skiptir miklu máli þannig að allir geti fylgst með. Íbúar eru nú að melta þessa nýju útfærslu og munum við halda samtalinu áfram.“ sagði Sigurður Ingi að loknum fundi.

Þátttaka íbúa var góð á fundinum og málefnalegar umræðum spunnust. Meðal þess sem kom fram í máli íbúa voru spurningar um umferðarflæði, mikilvægi þess að losa um núverandi flöskuhálsa í umferðinni, skipulagsmál borgarinnar, áhættumat framkvæmda og félaghagfræðileg greining.

Tímalína

Sundabraut gæti orðið að veruleika á næstu 8-10 árum. Niðurstaða liggur fyrir, næst er frekari undirbúningur og umhverfismat sem tekur ca 2-3 ár. Mikið og ítarlegt samráð þarf að eiga sér stað við hagsmunaaðila og íbúa með mörgum formlegum ferlum og mörgum umsagnaraðilum. Rannsóknir þarf að gera vegna mats á umhverfisáhrifum.  Hönnun er hægt að vinna að einhverju leyti samhliða þessum ferlum en þó ekki alfarið. Síðan má gera ráð fyrir að útboðsferli fyrir svo stóra framkvæmd taki um 1 ár áður en framkvæmdir geta hafist árið 2025 og þeim loki 2029-2030. Nauðsynlegt að vanda til verka með svo stóra og kostnaðarsama framkvæmd.