Categories
Fréttir

Sjaldnast ekki annar valkostur en að ferðast til og frá flugvelli á bíl

Deila grein

23/01/2024

Sjaldnast ekki annar valkostur en að ferðast til og frá flugvelli á bíl

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, ræddi fyrirhuguð bílastæðagjöld á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum í störfum þingsins. Áformin áttu að koma framkvæmda nú um næstu mánaðarmót, en hefur verið frestað. Telur hún mikilvægt að áformin verði skoðuð, m.a. í tengslum við byggðastefnu og loftslagsmál.

„Hvaða áhrif hafa bílastæðagjöld á þessum stöðum, t.d. á aðgengi og kostnað við heilbrigðisþjónustu og nám?,“ sagði Líneik Anna.

Ræddi Líneik Anna að það hafi fengist viðurkenning með tilkomu loftbrúarinnar að innanlandsflug sé liður í almenningssamgöngum. Þannig sé tryggður aðgangur þeirra sem búa fjarri höfuðborginni að ýmiss konar sérfræðiþjónustu og menningarviðburðum.

„Í flestum tilfellum hafa þeir sem þurfa að nota flugvöllinn ekki annan valkost en að ferðast til og frá flugvelli á bíl. Ef bílastæðagjöldum verður bætt ofan á kostnaðinn vakna spurningar um hvort Sjúkratryggingar muni endurgreiða viðbótina. Verður bætt í ferðasjóð ÍSÍ eða verður bætt í Loftbrúna?,“ sagði Línek Anna að lokum


Ræða Líneikar Önnur í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Þingfundir þessa árs hefjast við þær aðstæður að hugur okkar allra er hjá Grindvíkingum vegna þeirra náttúruhamfara sem þar ganga yfir. Öll veltum við fyrir okkur leiðum til að styðja við samfélagið, fjölskyldur og einstaklinga í þeim miklu breytingum á daglegu lífi sem þau standa öll frammi fyrir og vil ég senda mínar bestu óskir til allra Grindvíkinga. Við þurfum þétta samvinnu um allt samfélagið næstu daga og mánuði við að útfæra leiðir sem draga úr óvissunni og gott er að finna þann mikla vilja til samvinnu sem er hér á þinginu og í samfélaginu öllu varðandi þau málefni sem við þurfum að greiða úr.

En nú langar mig að koma inn á fyrirhuguð bílastæðagjöld á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum, áform sem áttu að koma til framkvæmda 1. febrúar en hefur verið frestað. Ég legg mikla áherslu á að áformin verði þá skoðuð í víðara samhengi, m.a. í tengslum við byggðastefnu og loftslagsmál. Hvaða áhrif hafa bílastæðagjöld á þessum stöðum, t.d. á aðgengi og kostnað við heilbrigðisþjónustu og nám? Innanlandsflug er mikilvægur liður í samgöngukerfi landsins og í því felst aðgangur þeirra sem búa fjarri höfuðborginni að ýmiss konar sérfræðiþjónustu og menningarviðburðum. Innanlandsflug er liður í almenningssamgöngum og á því fékkst nokkur viðurkenning með tilkomu loftbrúarinnar. Í flestum tilfellum hafa þeir sem þurfa að nota flugvöllinn ekki annan valkost en að ferðast til og frá flugvelli á bíl. Ef bílastæðagjöldum verður bætt ofan á kostnaðinn vakna spurningar um hvort Sjúkratryggingar muni endurgreiða viðbótina. Verður bætt í ferðasjóð ÍSÍ eða verður bætt í loftbrúna?“