Categories
Fréttir

Staðan á Íslandi er grafalvarleg – öryggi og orkuöflun er í húfi í nýjum raunveruleika

Deila grein

24/01/2024

Staðan á Íslandi er grafalvarleg – öryggi og orkuöflun er í húfi í nýjum raunveruleika

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, var málshefjandi í sérstakri umræðu um orkumál á Alþingi og var umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra til andsvara.

„Orkumál og orkuöryggi þjóðarinnar hefur fengið mikla umfjöllun undanfarnar vikur sem reyndar kemur ekki til af hinu góða. Staðan á Íslandi er grafalvarleg. Kyrrstaða hefur ríkt um árabil og niðurstaðan er sú að orkuöryggi okkar er ógnað. Sú sorglega staða að við sjáum okkur knúin til þess að leggja fram frumvarp til að tryggja heimilum og litlum og meðalstórum fyrirtækjum forgang að raforku og horfum á fyrirtæki neyðast til að brenna olíu vegna skerðingar raforku til að halda daglegri starfsemi sinni er með öllu óásættanleg,“ sagði Ingibjörg.

Fór hún í máli sínu yfir að skerðing raforku kosti ríkissjóð, atvinnulífið og alls samfélagið talsverðar fjárhæðir. Eins væri mögulega hægt að spyrja sig hvort að upp sé kominn forsendubrestur varðandi samninga fyrirtækja vegna ótryggrar orku. En slíkir samningar eru mikilvægir til að fullnýta kerfið. Á móti kemur að gera verði ráð fyrir skerðingum, hefur þeim fjölgað og vara í lengri tíma en áður. Fyrirséð er að þeim fjölgi enn frekar á næstu árum.

„Orkuöflun undanfarin ár hefur ekki verið næg þrátt fyrir ábendingar sérfræðinga um yfirvofandi orkuskort og þrátt fyrir áskoranir í loftslagsmálum, fólksfjölgun og fjölgun ferðamanna og aukna framleiðni fyrirtækja,“ sagði Ingibjörg.

Aflaukning í kerfinu hefur numið um 384 MW á 16 ára tímabili, það nemur um 24 MW á ári.

„Ljóst er að stórauka þarf orkuöflun ef við ætlum að tryggja orkuöryggi hér á landi og ná okkar markmiðum í loftslagsmálum.“

„Eldsumbrot á Reykjanesskaga sýna okkur hvað náttúruhamfarir geta haft alvarlegar afleiðingar. Þar var og er Svartsengi í raunverulegri hættu vegna nálægðar við eldsumbrotin. Þaðan fær Reykjanesið heitt vatn og orku eða um 30.000 manns og þá er ekki talin atvinnustarfsemin sem þetta getur haft áhrif á.

Orkuöryggi, orkuöflun og flutningskerfið er í húfi í nýjum raunveruleika.

„Ítrekað hefur verið bent á mikilvægi þess að koma upp hringtengingu hér á landi, m.a. svo hægt sé með góðum hætti að flytja orku á milli landsvæða, nýta virkjanir betur og minnka sóun. Það sem hefur tekið áratugi þarf núna að taka mánuði eða örfá ár án þess þó að gefa nokkurn afslátt af þeim umhverfisþáttum er tengjast leyfisveitingum. Við hugum vissulega að vernd náttúrunnar en sagan hefur sýnt sig að vernd og nýting getur farið saman,“ sagði Ingibjörg.

Nefndi Ingibjörg að Landsnet sé að ráðast í framkvæmdir við flutningslínu frá Akureyri til Grundartanga og hún sé í forgangi. En flókið ferli muni taka langan tíma.

„Það er grundvallaratriði að þessari framkvæmd verði flýtt eins og unnt er, enda um þjóðaröryggi að ræða. Í fyrra hefði línan komið í veg fyrir skerðingar sem kostuðu þjóðarbúið um 5 milljarða. Vatnsstaða lóna var með þeim hætti á þeim tíma að aflaukning hefði verið á við eina Hvammsvirkjun. Þarna er hægt að auka aflið í kerfinu án þess að ráðast í virkjunarframkvæmdir,“ sagði Ingibjörg.

„Rammaáætlun 3 var samþykkt í upphafi þessa kjörtímabils en í nefndaráliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar var bent á mikilvægi þess að endurskoða rammaáætlun og þar með verndun heilu vatnasviðanna. Það þarf að nýta þau tækifæri sem okkur bjóðast hér og alls ekki útiloka virkjunarmöguleika til framtíðar. Þegar kostur er settur í verndarflokk í rammaáætlun er allt vatnasviðið verndað. Það hefur í för með sér að fleiri kostir á sama svæði sem gætu komið til greina komast ekki inn í rammaáætlunarferlið. Þetta útilokar kosti sem geta verið hagkvæmir en við vitum öll að vatnsföll á Íslandi eru ekki óþrjótandi. Mögulega þarf að skoða fleiri þætti þegar ákvörðun er tekin varðandi orkukosti, þætti er varða orkuöryggi, köld svæði og markmið ríkisstjórnar hverju sinni.“

„En það er afar ánægjulegt að sjá kollega mína hér á þingi loksins kveikja á perunni og átta sig á þeirri stöðu sem við erum í. Ég bind vonir við að yfirlýsingar þingmanna og heilu þingflokkanna séu ekki orðin tóm enda er ljóst að margir þessara þingmanna þurfa að taka U-beygju á sinni afstöðu, t.d. hvað varðar friðun og regluverk. Við þurfum að setja okkur markmið um hve mikillar orku við ætlum að afla til framtíðar og aðgerðaáætlun er lýtur að því hvernig við ætlum að afla hennar.

Ég vil nýta hér tækifærið og spyrja hæstv. ráðherra hversu mikillar orku hann telur okkur þurfa að afla til framtíðar og hvort ráðherra hafi sett upp aðgerðaáætlun til að afla þeirrar orku. Eins vil ég spyrja ráðherra hvort hann telji að í ljósi yfirvofandi orkuskorts sé þörf á frekari aðgerðum ríkisstjórnarinnar umfram sameiningu stofnana og ef svo er, hverjar þær eru,“ sagði Ingibjörg að lokum.