Categories
Fréttir Greinar

Sterkt samfélag nær utan um Grindavík

Deila grein

25/01/2024

Sterkt samfélag nær utan um Grindavík

Með vakn­ingu þeirra nátt­úru­afla sem búa í iðrum jarðar á Reykja­nesi blas­ir við nýr veru­leiki fyr­ir kyn­slóðir okk­ar tíma á suðvest­ur­horni lands­ins. Með eld­gos­inu í Geld­inga­döl­um við Fagra­dals­fjall hinn 19. mars 2021 hófst nýtt eld­gosa­tíma­bil á Reykja­nesskag­an­um sem átti sér und­an­fara með jarðskjálfta­hrin­um allt frá ár­inu 2019. Líkt og við þekkj­um er helsta verk­efni sam­fé­lags­ins að ná utan þá stöðu sem skap­ast hef­ur í Grinda­vík vegna eld­goss­ins og styðja við Grind­vík­inga. Síðustu ára­tugi hef­ur ís­lenska hag­kerfið skapað mik­il verðmæti og því er ljóst að við sem sam­fé­lag náum utan um þá áskor­un sem blas­ir við. Hins veg­ar skipt­ir efna­hags­stjórn miklu máli um hvort vel tak­ist til!

Jarðhrær­ing­ar

Að mati vís­inda­manna er á Reykja­nes­inu að finna sex eld­stöðva­kerfi sé Hengil­s­kerfið talið með, en hin kerf­in á Reykja­nes­inu eru frá vestri til aust­urs; Reykja­ne­s­kerfið, Eld­vörp/​Svartsengi, Fagra­dals­fjall, Krýsu­vík­ur­kerfið og Brenni­steins­fjalla­kerfið. Hafa þessi kerfi mótað hið ægifagra langslag sem birt­ist okk­ur á Reykja­nes­inu og set­ur ein­kenn­andi svip á lands­hornið. Sam­kvæmt gögn­um og rann­sókn­um sem líta aft­ur til síðustu 3.500 ára hafa vís­inda­menn getið sér til um að gosskeið hafi staðið í um 400-500 ár, með 600-800 ára gos­hlé­um þar á milli, þó svo að gos­hlé í stöku eld­stöðva­kerfi vari að meðaltali í um 1.000 ár. Sem dæmi um hversu lif­andi svæðið get­ur orðið hafa vís­inda­menn meðal ann­ars bent á að gos­virkni geti flust milli eld­stöðva­kerfa með 30-150 ára milli­bili sé miðað við síðasta gosskeið á svæðinu. Að frá­tal­inni þeirri gos­hrinu sem hófst árið 2021 hef­ur ein meiri hátt­ar gos­hrina átt sér stað á Reykja­nesi frá land­námi sem hófst með Bláfjalla­eld­um um árið 950 og lauk með Reykja­neseld­um árið 1240, en þar á milli gaus í Krýsu­vík­ur­kerf­inu með Krýsu­víkureld­um en einu hraun­in sem hafa nálg­ast höfuðborg­ar­svæðið á sögu­leg­um tíma runnu ein­mitt úr Krýsu­vík­ur­kerf­inu og standa sunn­an við Hafn­ar­fjörð.

Hús­næðisaðgerðir rík­is­stjórn­ar­inn­ar fyr­ir Grind­vík­inga

Ljóst er að eld­gosið í Grinda­vík hinn 14. janú­ar síðastliðinn gjör­breytti stöðu mála í bæn­um. Það var lands­mönn­um öll­um mikið áfall að sjá seinni gossprungu opn­ast sunn­an þeirra varn­argarða sem risið höfðu ofan við bæ­inn og horfa á hraun renna yfir íbúðar­hús í bæn­um. Í kjöl­farið virt­ist staðfest að ekki yrði búið í bæn­um næstu mánuði og miss­eri og hófu því stjórn­völd að fram­lengja gild­andi aðgerðir ásamt því að kynna nýj­ar aðgerðir sem ætlað er að tryggja ör­yggi Grind­vík­inga þegar kem­ur að hús­næði, af­komu og verðmæt­um. Með þeim mun ríkið skapa for­send­ur fyr­ir Grind­vík­inga til að koma sér upp ör­uggu heim­ili til lengri tíma á eig­in for­send­um. Sam­hliða þessu ætla stjórn­völd að tryggja fram­boð á var­an­legu hús­næði með ýmsu móti, þar á meðal með upp­bygg­ingu á hús­næði á til­tekn­um svæðum, með kaup­um á sam­tals 260 íbúðum í gegn­um íbúðafé­lög­in Bríeti og Bjarg. Þá verður lagt fram frum­varp á næstu dög­um sem unnið hef­ur verið að í menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyt­inu og snýr að þreng­ingu skil­yrða varðandi al­menna skamm­tíma­út­leigu íbúða og er ætlað að stuðla að auknu fram­boði á íbúðar­hús­næði. Sér­stak­ur hús­næðisstuðning­ur verður jafn­framt fram­lengd­ur til loka júní ásamt því að verða út­víkkaður til að styðja bet­ur fjár­hags­lega við fólk. Aldrei hef­ur verið jafn­brýnt að stór­auka fram­boð af hús­næði á Íslandi.

Af­koma og verðmæti var­in

Stjórn­völd hafa einnig lagt kapp á að tryggja af­komu­ör­yggi Grind­vík­inga og stuðla að verðmæta­björg­un eigna. Launastuðning­ur til þeirra sem ekki geta sótt at­vinnu í bæn­um vegna ástands­ins verður fram­lengd­ur til loka júní, og leng­ur ef þörf kref­ur. Þá hef­ur áhersla verið lögð á, eft­ir því sem aðstæður leyfa, að kom­ast hjá verðmæta­tjóni. Það verður áfram unnið að því að gera Grind­vík­ing­um kleift að bjarga verðmæt­um í sam­vinnu við helstu viðbragðsaðila. Í því sam­hengi er vert að nefna að unnið er að sam­starfi við flutn­inga­fyr­ir­tæki til að styðja við þá Grind­vík­inga sem ekki hafa tök á að sækja verðmæti á eig­in spýt­ur ásamt því að aðstoða fólk við að fá ör­uggt geymslu­hús­næði til að geyma inn­bú og önn­ur verðmæti eins og þarf. At­vinnu­lífið í Grinda­vík er merki­lega fjöl­breytt og viðamikið og skipt­ir máli í ut­an­rík­is­viðskipt­um lands­ins. Stærstu at­vinnu­grein­arn­ar snúa að ferðaþjón­ustu og sjáv­ar­út­vegi, en ýms­ar teg­und­ir greina hafa náð að koma sér vel fyr­ir, auk starfa á veg­um sveit­ar­fé­lags­ins og hins op­in­bera. Það verður mik­il­vægt að tryggja að þau verðmæti sem sköpuð hafa verið í Grinda­vík verði áfram til að styðja við þjóðarbúið. Það hef­ur gengið bet­ur en á horfðist varðandi sjáv­ar­út­veg­inn, þar sem sam­starf og samstaða í grein­inni hef­ur komið til góða við að bjarga verðmæt­um. Gengi ferðaþjón­ust­unn­ar hef­ur verið mis­jafnt. Lok­un Grinda­vík­ur hef­ur komið þungt niður á minni fyr­ir­tækj­um. Eitt öfl­ug­asta fyr­ir­tækið á svæðinu, Bláa lónið, hef­ur búið við mikla óvissu vegna þeirra aðstæðna sem uppi eru. Afar brýnt er að klára áhættumat al­manna­varna á svæðinu til að draga úr þeirri óvissu. Bláa lónið er sá ferðamannastaður sem hef­ur einna mest aðdrátt­ar­afl fyr­ir þá sem heim­sækja landið. Tæp­lega 900 manns starfa hjá Bláa lón­inu og af­leidd eru störf afar mik­il­væg fyr­ir Reykja­nesið og alla ferðaþjón­ust­una.

Mót­vægisaðgerðir skipta öllu um efna­hags­fram­vind­una

Það er meira en að segja það að koma heilu byggðarlagi fyr­ir í nýju hús­næði, en það hef­ur ekki staðið á rík­is­stjórn­inni að gera sitt besta í þeim efn­um. Hins veg­ar er afar brýnt að gæta að þjóðhags­leg­um stærðum þegar horft er fram á veg­inn. Glím­an við verðbólg­una hef­ur verið ein helsta áskor­un­in frá því að heims­far­aldri lauk. Leik­ur­inn í þeirri bar­áttu hef­ur verið að snú­ast í rétta átt á allra síðustu vik­um og mánuðum. Hús­næðisliður­inn er afar þung­ur í verðbólgu­mæl­ing­um hér á landi. Á síðasta ára­tug hef­ur óvíða verið jafn mik­ill efna­hags­leg­ur upp­gang­ur eins og á Íslandi. Vegna hins opna vinnu­markaðar hef­ur fram­boðsvand­inn í hag­kerf­inu á síðustu miss­er­um einna helst birst á vett­vangi hús­næðismarkaðar. Það er því mik­il­vægt að öll­um árum sé róið að því að styrkja fram­boðshliðina á hús­næðismarkaði, hvort sem það er á sviði fram­boðs lóða eða bygg­ing­ar­gerðar. Hús­næðismarkaðnum verður þó ekki breytt á einni nóttu og má vænt­an­lega bú­ast við tíma­bundn­um þrýst­ingi, en mik­il­vægt verður að taka á fram­boðshliðinni sem allra fyrst til hags­bóta fyr­ir framtíðina. Stjórn­völd þurfa jafn­framt að horfa til hús­næðisliðar vísi­tölu neyslu­verðs, t.d. með sam­an­b­urði á fyr­ir­komu­lagi hans í ná­granna­lönd­un­um. Þessi umræða hef­ur verið uppi á borðum hér á landi í nær 20 ár og því tíma­bært að skoða það nán­ar með framtíðina í huga. Hér er ekki verið að tala um að taka hús­næðisliðinn út úr vísi­tölu neyslu­verðs held­ur að láta hann verða sam­an­b­urðar­hæf­ari. Vera kann að einnig þurfi að grípa til annarra þjóðhags­varúðar­tækja til að draga úr spennu á hús­næðismarkaði, líkt og var gert á Nýja-Sjálandi eft­ir stóra jarðskjálft­ann í Christchurch árið 2011.

Á síðustu viku hef ég orðið þeirr­ar gæfu aðnjót­andi að vera í dag­leg­um sam­skipt­um við íbúa í Grinda­vík. Það sem ein­kenn­ir hóp­inn er dugnaður, sam­kennd, þraut­seigja og vilj­inn til að ráða sín­um ör­lög­um sjálf­ur. Á þess­ari stundu er óljóst hver framtíð Grinda­vík­ur verður og verður það í hönd­um okk­ar fær­asta vís­inda­fólks að meta aðstæður af kost­gæfni og taka svo upp­lýsta ákvörðun í sam­vinnu við íbúa og fyr­ir­tæk­in. Þrátt fyr­ir alla þá óvissu sem ein­kenn­ir stöðuna, þá er eitt ljóst, en það er að stjórn­völd standa með Grind­vík­ing­um og munu mál­efni þeirra áfram njóta for­gangs við rík­is­stjórn­ar­borðið.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. janúar 2024.