Categories
Fréttir

„Mun það þýða að 18 ára einstaklingur geti boðið sig fram til forseta?“

Deila grein

25/01/2024

„Mun það þýða að 18 ára einstaklingur geti boðið sig fram til forseta?“

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, alþingismaður, sagði í störfum þingsins aldur ekki vera hæfniviðmið og eins eigi það ekki að liggja til grundvallar hvort einstaklingur hafi öðlast ákveðna reynslu eða hæfni. Fór hún síðan yfir álitamál ef samþykkt yrði að fella á brott 35 ára aldurstakmarkið um kjörgengi til forseta. Hún hefur lagt til á Alþingi frumvarp til stjórnskipunarlaga um breytingu á stjórnarskránni að 35 ára aldurstakmarkið verði fellt á brott.

Sú breyting varðar ákvæði sem er svohljóðandi í dag: „Kjörgengur til forseta er hver 35 ára gamall maður, sem fullnægir skilyrðum kosningarréttar til Alþingis, að fráskildu búsetuskilyrðinu.“

„Mun það þýða að 18 ára einstaklingur geti boðið sig fram til forseta? Já. Mun það þýða að 18 ára einstaklingur verði forseti? Nei, þetta ákvæði eitt og sér myndi ekkert gera það. Til þess að verða forseti þurfa einstaklingar að fara í gegnum kosningabaráttu þar sem þau þurfa að sýna fram á hæfni, reynslu og jafnvel menntun til að geta sinnt þessu embætti og verið landi og þjóð til sóma,“ sagði Lilja Rannveig.

Sagði hún okkur sem kjósendur gera ríkar kröfur til forseta lýðveldsins, þó svo þær séu ekki endilega meitlaðar í stein. „Aldur er ekki hæfniviðmið og það á ekki að leggja það til grundvallar hvort einstaklingur hafi öðlast ákveðna reynslu eða hæfni. Með aldrinum kemur lífsreynsla og það er alveg eðlilegt að áætla að þeir sem eru eldri séu reynslumeiri.“

„En fjölbreytni samfélagsins er mikil og þar af leiðandi ætti það ekki að vera meginregla að hafa náð ákveðnum aldri til að öðlast ákveðin réttindi eða til að gegna ákveðnum skyldum eftir að einstaklingur er samkvæmt lögum og alþjóðasáttmálum orðinn fullorðinn.

Ég fæ ekki séð að nóttina sem einstaklingur verður 35 ára verði hann mun hæfari og lífsreyndari en þegar hann var 34 ára. En ég skal glöð láta ykkur vita 2031 þegar ég hef náð þeim aldri hvort ég skipti um skoðun,“ sagði Lilja Rannveig að lokum.


Ræða Lilju Rannveigar í heild sinni á Alþingi:

„Hæstv. forseti. Í gær lagði ég fram frumvarp ásamt fjórum öðrum þingmönnum Framsóknar um breytingu á stjórnarskránni. Sú breyting varðar ákvæði sem er svohljóðandi í dag, með leyfi forseta:

„Kjörgengur til forseta er hver 35 ára gamall maður, sem fullnægir skilyrðum kosningarréttar til Alþingis, að fráskildu búsetuskilyrðinu.“

Í því frumvarpi sem við leggjum fram gerum við það að tillögu okkar að 35 ára aldurstakmarkið verði fellt á brott. Mun það þýða 18 ára einstaklingur geti boðið sig fram til forseta? Já. Mun það þýða að 18 ára einstaklingur verði forseti? Nei, þetta ákvæði eitt og sér myndi ekkert gera það. Til þess að verða forseti þurfa einstaklingar að fara í gegnum kosningabaráttu þar sem þau þurfa að sýna fram á hæfni, reynslu og jafnvel menntun til að geta sinnt þessu embætti og verið landi og þjóð til sóma. Við sem kjósendur gerum kröfur til forseta þó að þær séu ekki endilega skrifaðar í stjórnarskrána. Aldur er ekki hæfniviðmið og það á ekki að leggja það til grundvallar hvort einstaklingur hafi öðlast ákveðna reynslu eða hæfni. Með aldrinum kemur lífsreynsla og það er alveg eðlilegt að áætla að þeir sem eru eldri séu reynslumeiri. En fjölbreytni samfélagsins er mikil og þar af leiðandi ætti það ekki að vera meginregla að hafa náð ákveðnum aldri til að öðlast ákveðin réttindi eða til að gegna ákveðnum skyldum eftir að einstaklingur er samkvæmt lögum og alþjóðasáttmálum orðinn fullorðinn. Ég fæ ekki séð að nóttina sem einstaklingur verður 35 ára verði hann mun hæfari og lífsreyndari en þegar hann var 34 ára. En ég skal glöð láta ykkur vita 2031 þegar ég hef náð þeim aldri hvort ég skipti um skoðun.“