Categories
Fréttir

Sjálfseignarstofnunin Almannarómur hlýtur bjartsýnisverðlaun Framsóknar

Deila grein

10/03/2018

Sjálfseignarstofnunin Almannarómur hlýtur bjartsýnisverðlaun Framsóknar

Bjartsýnisverðlaun Framsóknarflokksins voru fyrst veitt árið 1996 en að baki lá samþykkt flokksþings Framsóknarflokksins frá árinu 1994 þar sem samþykkt var í flokksmálaályktun „að koma á fót verðlaunum sem veitt verði aðilum utan flokksins sem hafa lagt eitthvað jákvætt að mörkum til íslensks samfélags“.
Verðlaunin hafa verið veitt bæði fyrirtækjum og félagasamtökum á þessum árum.
Fyrstu „bjartsýnisverðlaun“ Framsóknarflokksins, voru afhent á miðstjórnarfundi haustið 1997, en þau hlutu samtökin „Heimili og skóli“.
Á síðustu árum hafa eftirtaldir aðilar hlotið verðlaunin:
2016 – Eiríkur Jónsson, yfirlæknir þvagfæraskurðlækninga á Landspítala háskólasjúkarahúss
2015 – Kvenfélagssamband Íslands
2013 – Slysavarnarfélagið Landsbjörg og björgunarsveitirnar
2011 – Hagsmunasamtök heimilanna
Við lifum í heimi þar sem örar tækniframarir breyta samfélögum mannanna harðar en áður hefur þekkst. Birtingamyndir þess eru sjáanlegar á öllum sviðum þjóðlífsins, hvort sem litið er til aukinnar sjálfvirknivæðingar í atvinnulífinu, samskiptamáta fólks eða afþreyingar. Mý mörg tækifæri felast í breytingum sem þessum, en jafnframt stórar og krefjandi áskoranir. Ein stærsta áskorunin snýr að tungumálinu okkar, íslenskunni, og stöðu hennar í hinum stafræna heimi.
Almannarómur er sjálfseignarstofnun sem var stofnuð árið 2014 og mun standa að smíði máltæknilausna fyrir íslensku. Stofnaðilar Almannaróms eru rúmlega 20 og eru það háskólar, fræðastofnanir, félagasamtök og fyrirtæki. Tæknilausnir Almannaróms verða opnar öllum stofn- og styrktaraðilum Almannaróms, íslensku atvinnulífi og almenningi til góða.
Markmið Almannaróms er að tryggja að íslenskan standi jafnfætis öðrum tungumálum í tækniheiminum en á þeim vettvangi sameinast háskólar, stofnanir, fyrirtæki og félög um það markmið að tryggja stöðu íslenskrar tungu í tækniheiminum með þvi að skapa og þróa íslensk máltæknitól eins og talgreini, vélrænar þýðingar, fyrirspurnarkerfi, samræðukerfi, talgervla ásamt stafsetningar- og málfarsleiðbeiningum.
Lausnir sem þessar munu auðvelda fólki að eiga samskipti við tölvur og tæki á íslensku ásamt því að auka samkeppnishæfni einstaklinga og fyrirtækja í vinnslu texta sem standast gæðakröfur um málfár. Umfram allt munu þessar tæknilausnir gera íslenskuna gildandi um ókomna tíð í hinum starfræna heimi.
Þeir sem stóðu að stofnun Almannaróms ásamt því öfluga fólki sem skipar stjórn hans hafa dregið vagninn í því að sækja fram fyrir íslenska tungu. Framtíðarsýn Almannaróms hefur aldrei átt meira erindi við okkur en nú. Það er því sönn ánægja að veita forsvarsmönnum Almannaróms, bjartsýnisverðlaun Framsóknarflokksins árið 2018. Hugsjónastarf ykkar er er ómetanlegt fyrir íslenska þjóð. Kærar þakkir fyrir vinnu ykkar og elju.