Categories
Fréttir

Sjálfviljug samfélagsleg ábyrgð sveitarfélaganna útrunninn

Deila grein

30/09/2022

Sjálfviljug samfélagsleg ábyrgð sveitarfélaganna útrunninn

Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, varaþingmaður, sagði í störfum þingsins á Alþingi að sjálfviljug samfélagsleg ábyrgð sveitarfélaganna að veita umsækjendum um vernd þjónustu sé útrunninn. Reykjavíkurborg, Reykjanesbær og Hafnarfjarðarbær hafa um árabil sinnt þjónustu við umsækjendur um vernd og álitið það vera samfélagslega mikilvægt. Stofnanir ríkisins hafa ítrekað leitað til fleiri sveitarfélaga með ósk um samstarf án árangurs. Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun er fjöldi þeirra sem sóttu um vernd frá janúar og fram í ágúst á þessu ári er 2.552. Á undanförnum árum hafa í kringum 900 manns óskað eftir vernd á Íslandi ár hvert.

„Það er ljóst að aukinn fjöldi flóttafólks leitar til Íslands og því gengur ekki upp að þjónustan sé einungis í höndum þriggja sveitarfélaga sem eru ítrekað beðin um að stækka samninga sína þrátt fyrir ákall um að fleiri sveitarfélög komi að verkefninu,“ sagði Halldóra Fríða.

Vinnumálastofnunin leigir húsnæði í sveitarfélögunum þremur og sér um þjónustuna á meðan beðið er eftir að vernd sé veitt. Þá færist fólk sjálfkrafa yfir á sveitarfélagið þar sem búseta er nú þegar til staðar. Á sama tíma þarf fólk að nýta þá innviði sem til staðar eru í sveitarfélögunum, svo sem menntastofnanir, heilbrigðisþjónustu og löggæslu.

„Virðulegi forseti. Ég hvet hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra til að setja kraft í þessa vinnu og að horfa til verklags sem notað er í Danmörku þar sem farið er eftir kvótaákvörðun við val á sveitarfélagi í móttöku flóttafólks með einfaldri reiknireglu sem miðar við hlutfall íbúa.

Þannig geta önnur sveitarfélög, og þá sérstaklega á stórhöfuðborgarsvæðinu, ekki skautað fram hjá móttöku fólks á flótta,“ sagði Halldóra Fríða að lokum.