Categories
Fréttir

Sjö frumvörp menningar- og viðskiptaráðherra urðu að lögum

Deila grein

15/06/2023

Sjö frumvörp menningar- og viðskiptaráðherra urðu að lögum

Sjö frumvörp Lilju Daggar Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra urðu að lögum á Alþingi þingveturinn 2022-2023. Auk þess samþykkti Alþingi fyrir þinglok þrjár tillögur ráðherra til þingsályktunar.

Stuðningur við fjölmiðla og ný tónlistarlög

Í desember 2022 voru samþykkt lög um breytingu á lögum um skráningu raunverulegra eigenda. Í sama mánuði voru einnig samþykkt lög um breytingu á lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög og lögum um ársreikninga. Einnig samþykkti Alþingi frumvarp ráðherra um framlengingu gildistíma á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist.

Í maí á þessu ári samþykkti Alþingi tónlistarlög. Markmið laga þessara er að efla umgjörð fyrir sköpun og flutning tónlistar á Íslandi með því að marka heildarramma fyrir málefni tónlistar og búa henni hagstæð skilyrði. Í lok maí voru samþykkt lög um breytingu á lögum um leigu skráningarskyldra ökutækja.

Í júní samþykkti Alþingi breytingu á lögum um fjölmiðla, sem snýr að stuðningi við einkarekna fjölmiðla. Einnig voru samþykkt lög um breytingu á safnalögum, lögum um Þjóðminjasafn Íslands og lögum um Náttúruminjasafn Íslands.

Tónlist, myndlist, hönnun og arkitektúr

Í vor samþykkti Alþingi þrjár þingsályktunartillögur menningar- og viðskiptaráðherra tengdar skapandi greinum á Íslandi.

Þingsályktun um tónlistarstefnu fyrir árin 2023–2030 var samþykkt. Með tónlistarstefnu verði mótuð framtíðarsýn og vegvísar með það að markmiði að styðja við tónlist sem listgrein, tónlistarfólk og aðra sem starfa við tónlist. Tryggð verði inngilding og aðgengi almennings að tónlist og tónlistarmenntun.

Samþykkt var þingsályktun um myndlistarstefnu til 2030. Stefnan miðar að því að efla myndlistarmenningu landsins. Myndlistarstefnan stuðli að aukinni þekkingu og áhuga almennings á myndlist og bæti lífsgæði og ánægju.

Fyrir þingslok var einnig samþykkt þingsályktun um aðgerðaáætlun í málefnum hönnunar og arkitektúrs fyrir árin 2023–2026. Þar er lögð áhersla á markvissa nýtingu á aðferðafræði hönnunar og arkitektúrs til að auka lífsgæði með verðmætasköpun, nýsköpun og sjálfbærni fyrir samfélagið í heild að leiðarljósi.

Lista yfir mál menningar- og viðskiptaráðherra sem hlutu samþykki á 153. löggjafarþingi má hér fyrir neðan.

Lög samþykkt á 153. þingi

Leiga skráningarskyldra ökutækja

Safnalög o.fl.

Fjölmiðlar

Tónlist

Tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist

Skráning raunverulegra eigenda

Hlutafélög o.fl.

Þingsályktanir samþykktar á 153. þingi

Myndlistarstefna til 2030

Tónlistarstefna fyrir árin 2023-2030

Aðgerðaáætlun í málefnum hönnunar og arkitektúrs fyrir árin 2023–2026

Heimild: stjr.is