Categories
Fréttir

Sjóvarnir eru forgangsmál!

Deila grein

19/09/2023

Sjóvarnir eru forgangsmál!

„Þegar sjóvarnargarður brast við Hvalsnes skammt frá Sandgerði í Suðurnesjabæ í byrjun mánaðarins vorum við enn og aftur minnt á mikilvægi sjóvarna. Heimilisfólk varð að vaða frá heimili sínu á þurrt land samkvæmt fréttum og Brunavarnir Suðurnesja þurftu að bíða eftir því að sjávarstaða breyttist til að dæla vatni frá húsinu,“ sagði Jóhann Friðrik Friðriksson, alþingismaður, í störfum þingsins.

Sagði hann stjórnvöld hafa unnið að ýmsum forvörnum gegn óblíðum náttúruöflum, þar mætti helst nefna snjóflóðavarnir, eftirlit með jarðhræringum og mögulegum eldgosum, áætlanagerð og ýmiss konar aðra þætti er snúa að almannavarnakerfinu.

Vakti Jóhann Friðrik athygli á sérstakri bókun bæjarráðs Suðurnesjabæjar um sjóvarnir á fundi sínum, þann 13. september, en í henni segir: „Sjávarflóð eru ein tegund af náttúruvá sem við búum við hér á landi, mikilvægt er að bregðast við þessari vá á sama hátt og t.d. ofanflóðahættu þar sem góðar varnir skipta höfuðmáli til að lágmarka líkur á neikvæðum áhrifum á samfélagið.“

„Hamfarahlýnun er staðreynd og sjóvarnir eru ekki bara forgangsmál í Suðurnesjabæ heldur víða í mínu kjördæmi, svo sem í Vík, Höfn, Grindavík og víðar, og raunar um allt land. Sjávarstaða hækkar og sjóvarnir verða æ mikilvægari,“ sagði Jóhann Friðrik.

Eiga stjórnvöld að stofna sjávarflóðasjóð?

Sagði Jóhann Friðrik mikilvægt að fara sérstaklega vel yfir fjárveitingar vegna sjóvarna og að fram fari endurskoðun á fjármögnun sjóvarna.

„Við getum t.d. horft til ofanflóðasjóðs og þess forvarnahlutverks sem sjóðnum er ætlað. Á sama hátt tel ég ástæðu til þess að kanna hvort stjórnvöld eigi að stofna sjávarflóðasjóð sem hefur það að hlutverki að verjast ágangi sjávar og sjávarflóðum um landið allt, enda deginum ljósara að þörfin er knýjandi og hún á aðeins eftir að vaxa á komandi árum,“ sagði Jóhann Friðrik að lokum.


Ræða Jóhanns Friðriks í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Við búum í návist óblíðra náttúruafla hér á landi. Stjórnvöld vinna að ýmsum forvörnum í þessu tilliti, má helst nefna snjóflóðavarnir, eftirlit með jarðhræringum og mögulegum eldgosum, áætlanagerð og ýmiss konar aðra þætti er snúa að almannavarnakerfinu okkar. Þegar sjóvarnargarður brast við Hvalsnes skammt frá Sandgerði í Suðurnesjabæ í byrjun mánaðarins vorum við enn og aftur minnt á mikilvægi sjóvarna. Heimilisfólk varð að vaða frá heimili sínu á þurrt land samkvæmt fréttum og Brunavarnir Suðurnesja þurftu að bíða eftir því að sjávarstaða breyttist til að dæla vatni frá húsinu. Hinn 13. september lagði bæjarráð Suðurnesjabæjar fram sérstaka bókun um málið þar sem segir, með leyfi forseta:

„Sjávarflóð eru ein tegund af náttúruvá sem við búum við hér á landi, mikilvægt er að bregðast við þessari vá á sama hátt og t.d. ofanflóðahættu þar sem góðar varnir skipta höfuðmáli til að lágmarka líkur á neikvæðum áhrifum á samfélagið.“

Virðulegi forseti. Hamfarahlýnun er staðreynd og sjóvarnir eru ekki bara forgangsmál í Suðurnesjabæ heldur víða í mínu kjördæmi, svo sem í Vík, Höfn, Grindavík og víðar, og raunar um allt land. Sjávarstaða hækkar og sjóvarnir verða æ mikilvægari. Nú þegar við fáum samgönguáætlun til meðferðar er mikilvægt að við skoðum sjóvarnir sérstaklega. Vegagerðin hefur úr takmörkuðu fjármagni að spila og því velti ég fyrir mér hvort ekki sé ástæða til þess að endurskoða fjármögnun sjóvarna hér á landi. Við getum t.d. horft til ofanflóðasjóðs og þess forvarnahlutverks sem sjóðnum er ætlað. Á sama hátt tel ég ástæðu til þess að kanna hvort stjórnvöld eigi að stofna sjávarflóðasjóð sem hefur það að hlutverki að verjast ágangi sjávar og sjávarflóðum um landið allt, enda deginum ljósara að þörfin er knýjandi og hún á aðeins eftir að vaxa á komandi árum.“