Categories
Fréttir

Skorar á fjármálastofnanir að gefa Grindvíkingum fullkomin grið

Deila grein

18/11/2023

Skorar á fjármálastofnanir að gefa Grindvíkingum fullkomin grið

Ríflega 150 manns hlýddu á ræðu Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknar, við upphaf miðstjórnarfundar flokksins sem hófst í Vík í Mýrdal í morgun og stendur fram á sunnudag.

Sigurður Ingi hóf mál sitt á náttúruhamförunum við Grindavík. „Við finnum öll til með þeim sem þurft hafa að yfirgefa heimili sín og lifa í óvissu,“ sagði Sigurður Ingi. Hann minnti á það að þegar áföll dynja á sjái fólk úr hverju samfélagið er búið til. „Það sem við getum gert er að taka utan um Grindvíkinga,“ sagði Sigurður Ingi og bað fólk um að rísa úr sætum til að sýna stuðning sinn við Grindvíkinga. Hann ræddi sameiginlega ábyrgð samfélagsins á velferð íbúa Grindavíkur og sagði ekki hægt að bankar og fjármálastofnanir skoruðust undan ábyrgð. Hann skoraði á banka og fjármálastofnanir að gefa Grindvíkingum fullkomin grið næstu mánuði.

Formaður Framsóknar ræddi því næst um ástandið í heiminum og sagði að allir hlytu að fordæma það ofbeldi sem heimurinn horfir upp á fyrir botni Miðjarðarhafs og bitnaði mest á saklausum börnum. Sigurður Ingi lagði áherslu á að ekki mætti gleyma árás rússneska hersins inn í Úkraínu.

„Við ráðum ekki við náttúruna heldur tökumst á við afleiðingar. Við getum stjórnað efnahagsmálunum,“ sagði Sigurður Ingi. Hann lagði áherslu á að tekið yrði utan um þá sem eru í erfiðri stöðu. Hann benti einnig á að háir vextir eru ekki náttúrulögmál. „Þetta er í höndunum á okkur sjálfum,“ sagði Sigurður Ingi.

Sigurður Ingi sagði að húsnæðismálin yrðu mikilvæg í kjarasamningum vetrarins og að ríkisstjórnin myndi gera allt sem hún gæti til að búa þannig að hlutum að kjarasamningar yrðu hófsamir. Hann rifjaði upp að Framsókn hefði frá árinu 2013 leitt húsnæðismálin, fyrst Eygló Harðardóttir, síðan Ásmundur Einar og nú hann sjálfur. Á þessum tíma hefði verið byggt upp nýtt norrænt húsnæðiskerfi sem væri nú að sýna styrk sinn.

„Tökum utan um unga fólkið í landbúnaðinum,“ sagði Sigurður Ingi og lýsti yfir áhyggjum sínum af stöðunni í íslenskum landbúnaði. Það sé erfitt að sækja fram þegar aðstæðurnar séu ekki nógu góðar. Hann furðaði sig ennfremur á því skilningsleysi sem mæti landbúnaði víða í kerfinu og stjórnmálunum.

Í ræðu sinni kom Sigurður Ingi inn á þann óróleika sem ríkir í stjórnmálum víða um heim og að hann mætti einnig greina hér á landi. „Það er erfitt að fá hljómgrunn fyrir hógværð og skynsemi,“ sagði hann og benti á að upphrópanir fengju meiri athygli en lausnir.

Sigurður Ingi lauk ræðu sinni á því að rifja upp að um þessar mundir eru sjö ár frá því hann var kjörinn formaður Framsóknar. Hann sagði að þá hefðu verið erfiðir tímar í flokknum og helsta áhyggjuefnið hvort tækist að endurheimta traust á flokknum. Fáir hefðu séð fyrir þann Framsóknaráratug sem hófst með kosningunum 2017 og er rúmlega hálfnaður. Sigurður Ingi sagði að á þessum tíma hefði náðst stöðugleiki í samfélaginu og eftirtektarverður árangur á flestum sviðum og hann kviði ekki dómi kjósenda. „Á grunni þessa árangurs sem við höfum náð og með stuðningi ykkar hlakka ég til að fá að leiða flokkinn inn í næstu kosningar og framlengja þennan Framsóknaráratug,“ sagði Sigurður Ingi að lokum og uppskar mikið lófatak.

Miðstjórnarfundur Framsóknar fór fram í Vík í Mýrdal um nýliðna helgi 🎉 Salurinn var þéttsetinn á fundinum og umræður…

Posted by Framsókn on Mánudagur, 20. nóvember 2023