Categories
Fréttir

Sóttvarnaaðgerðir á Íslandi í heimsfaraldri voru mjög árangursríkar!

Deila grein

06/02/2024

Sóttvarnaaðgerðir á Íslandi í heimsfaraldri voru mjög árangursríkar!

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins nýlega skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD og þá niðurstöðu skýrslunnar að sóttvarnaaðgerðir á Íslandi á tímum heimsfaraldurs hafi verið mjög árangursríkar. Ítarleg greining leiðir í ljós að af OECD-ríkjum voru dauðsföll á Íslandi færri en búast hefði mátt við miðað við fólksfjölda og aldurssamsetningu þjóðar.

Minnti Líneik Anna á að í þingsal Alþingis hafi ítrekað verið velt upp þeirri spurningu hvort dauðsföll hér á landi á meðan sóttvarnaaðgerðum á tímum heimsfaraldurs Covid stóð hafi verið umfram samanburðarlönd. „Af þeirri umræðu að dæma var greinilegt að fólk las á mjög mismunandi hátt út úr fyrirliggjandi tölfræði í rauntíma.“

„Aðeins á Nýja-Sjálandi var hlutfall umframdauðsfalla lægra en hér á landi. Þegar leiðrétt hefur verið fyrir lýðfræðilegum breytum og tekið tillit til fólksfjölgunar og aldurssamsetningar voru að meðaltali 5,3% fleiri dauðsföll í OECD-ríkjunum á árunum 2020–2022 en á samanburðarárum fyrir faraldurinn,“ sagði Líneik Anna.

„Mér finnst mikilvægt að draga þessar upplýsingar fram hér og hrósa um leið þeim sem stóðu í stafni í sóttvarnaaðgerðum, starfsfólki í heilbrigðiskerfinu og öllum þeim sem lögðu sitt af mörkum til að við gætum sinnt ábyrgðinni um að vera öll almannavarnir,“ sagði Líneik Anna að lokum.


Ræða Líneikar Önnur í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Í þessum þingsal hefur þeirri spurningu ítrekað verið velt upp á síðustu þingum hvort dauðsföll hér á landi á meðan sóttvarnaaðgerðum á tímum heimsfaraldurs Covid stóð hafi verið umfram samanburðarlönd. Af þeirri umræðu að dæma var greinilegt að fólk las á mjög mismunandi hátt út úr fyrirliggjandi tölfræði í rauntíma. Það var þess vegna mjög ánægjulegt að sjá í nýlegri skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, að sóttvarnaaðgerðir á Íslandi á tímum heimsfaraldurs hafi verið mjög árangursríkar. Niðurstaða skýrslunnar sem byggir á ítarlegum greiningum leiðir í ljós að af OECD-ríkjum voru dauðsföll á Íslandi færri en búast hefði mátt við miðað við fólksfjölda og aldurssamsetningu þjóðar. Aðeins á Nýja-Sjálandi var hlutfall umframdauðsfalla lægra en hér á landi. Þegar leiðrétt hefur verið fyrir lýðfræðilegum breytum og tekið tillit til fólksfjölgunar og aldurssamsetningar voru að meðaltali 5,3% fleiri dauðsföll í OECD-ríkjunum á árunum 2020–2022 en á samanburðarárum fyrir faraldurinn. Munur milli landa var hins vegar verulegur og níu lönd af 41 skera sig úr þar sem dauðsföll á Covid-árunum voru færri en búast mátti við miðað við árin á undan. Þeirra á meðal eru Nýja-Sjáland, Ísland, Noregur, Írland og Austurríki. Mér finnst mikilvægt að draga þessar upplýsingar fram hér og hrósa um leið þeim sem stóðu í stafni í sóttvarnaaðgerðum, starfsfólki í heilbrigðiskerfinu og öllum þeim sem lögðu sitt af mörkum til að við gætum sinnt ábyrgðinni um að vera öll almannavarnir.“