Efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna COVID-19 eru án hliðstæðu. Heildarumfang aðgerðanna gæti numið yfir 230 ma.kr., sem felst annars vegar í frestun greiddra gjalda og hins vegar auknum útgjöldum, skattalækkunum og lánafyrirgreiðslu með ríkisábyrgð. Auk þess mun ríkissjóður styðja við hagkerfið með lægri skatttekjum og auknum útgjöldum sem leiða af verri efnahagsaðstæðum. Þessar víðtæku aðgerðir leggjast á sveif með lækkun Seðlabanka Íslands á stýrivöxtum, bindiskyldu og sveiflujöfnunarauka.
Aðgerðunum er fyrst og fremst ætlað að vinna gegn atvinnuleysi og tímabundnum tekjumissi einstaklinga með hlutaatvinnuleysisbótum, aðgengi að séreignarsparnaði, frestun skattgreiðslna fyrirtækja og fyrirgreiðslu vegna rekstrarlána til þeirra. Þegar bein áhrif faraldursins verða í rénun verður stutt myndarlega við endurreisn hagkerfisins með auknum opinberum framkvæmdum sem stuðla að langtímahagvexti, skattaafslætti vegna vinnu á verkstað og átaki í markaðssetningu Íslands fyrir ferðamenn.
Hver eru áhrif COVID-19 á efnahagslífið?
COVID-19 faraldurinn hefur neikvæð áhrif á efnahagslífið um allan heim. Búast má við töluverðri fækkun ferðamanna sem koma hingað til lands á næstu mánuðum. Vegna faraldursins fara Íslendingar einnig sjaldnar í búðir og á veitingastaði og þá hefur þurft að fella niður ýmsa viðburði. Framleiðsla getur einnig dregist saman. Tekjur fjölda fyrirtækja skerðast vegna ástandsins, ekki síst í ferðaþjónustu. Líklegt er að mörg fyrirtæki grípi til uppsagna til að bregðast við þessu, en aðgerðir stjórnvalda miða að því að verja störf eins og kostur er. Faraldurinn hefur því töluverð áhrif á efnahagslífið á Íslandi en búist er við því að áhrifin gangi til baka þegar faraldurinn er genginn yfir, enda eru undirstöður hagkerfisins traustar.
Hvernig aðgerða eru stjórnvöld að grípa til?
Aðgerðir stjórnvalda eru afar umfangsmiklar og veita öflugt mótvægi við efnahagsáhrif faraldursins. Aðgerðirnar miða fyrst og fremst að því að auðvelda heimilum og fyrirtækjum að takast á við það tímabundna tekjutap sem þau kunna að verða fyrir. Þannig minnkum við óvissu og höldum hjólum atvinnulífsins gangandi ásamt því að koma í veg fyrir fjárhagserfiðleika eftir því sem frekast er unnt. Það má ekki gleyma því að ástandið er tímabundið og aðgerðir stjórnvalda munu styðja vel við efnahagslífið þegar faraldurinn er genginn yfir.
Mun verðbólga hækka?
Verðbólga er núna 2,4% sem er nálægt markmiði Seðlabanka Íslands um 2,5% verðbólgu. Eins og sakir standa er ekki búist við því að hún hækki verulega á næstu mánuðum. Seðlabanki Íslands hefur það hlutverk að tryggja stöðuga og lága verðbólgu og mun grípa til aðgerða til að tryggja það ef þess gerist þörf.
Munu lánin mín hækka?
Ekki er búist við því að verðbólga hækki verulega á næstu mánuðum og því er ekki gert ráð fyrir að verðtryggð lán hækki meira en í venjulegu árferði. Vextir á íbúðalánum hafa farið lækkandi og eru nú mjög lágir í samanburði við hvernig þeir hafa verið sögulega. Ekki er gert ráð fyrir vaxtahækkun á næstunni.
Mun atvinnuleysi aukast?
Aðgerðir stjórnvalda miða að því að draga úr aukningu atvinnuleysis eins og unnt er en það er fyrirsjáanlegt að aðstæður á vinnumarkaði verði erfiðar á meðan COVID-19 faraldurinn veldur fækkun ferðamanna og minni umsvifum í hagkerfinu. Þegar faraldrinum linnir er engin ástæða til að ætla annað en að hagkerfið taki við sér og þá mun atvinnuleysi minnka á ný.
Erum við komin aftur til ársins 2008?
Nei, ástandið er mjög ólíkt því sem var þá. Í kjölfar bankahrunsins gripu stjórnvöld til veigamikilla aðgerða til að treysta stoðir efnahagslífsins og koma í veg fyrir að álíka ástand geti skapast aftur. Skuldir hafa lækkað mikið og stjórnvöld hafa mun meira svigrúm til að styðja við efnahagslífið í þessari niðursveiflu. Það sama gildir um bankana sem standa afar traustum fótum. Ólíklegt er að verðbólga og lán hækki mikið eins og þau gerðu í kjölfar bankahrunsins. Einnig er ólíklegt að kaupmáttur minnki mikið eins og hann gerði í hruninu.
Hvað má búast við að niðursveiflan vari lengi?
Það er erfitt að segja en miðað við þær upplýsingar sem við höfum núna er líklegast að hagkerfið muni taka við sér á næsta ári.
Einstaklingar
Gripið er til ýmissa sérstakra aðgerða fyrir einstaklinga til að auðvelda þeim að standa af sér þetta tímabundna ástand, auk þeirra aðgerða sem snúa beint að því að viðhalda störfum:
-
Laun í sóttkví
-
Sérstakur barnabótaauki
-
Hlutaatvinnuleysisbætur
-
Aðgangur að séreignarsparnaði
-
Aukin og útvíkkuð endurgreiðsla virðisaukaskatts af vinnu
Laun í sóttkví
Stjórnvöld hafa í samstarfi við Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins tryggt að einstaklingum í sóttkví séu tryggð laun á meðan hún varir, en á þeim tíma eiga önnur réttindi, s.s. veikindaréttur samkvæmt kjarasamningum ekki við. Á þetta við um tímabilið 1. febrúar 2020 til og með 30. apríl 2020 og er miðað við að þetta taki til þeirra sem ekki geta sinnt starfi sínu úr sóttkví. Gert er ráð fyrir að atvinnurekandi greiði launþega laun en geti svo gert kröfu á ríkissjóð til endurgreiðslu upp að vissri hámarksfjárhæð. Það sama gildir um sjálfstætt starfandi einstaklinga hafi þeir þurft að leggja niður störf vegna sóttkvíar á framangreindu tímabili.
Hversu háar greiðslur fæ ég ef ég sæti sóttkví og get ekki unnið?
Greiðslur taka mið af heildarlaunum í þeim almanaksmánuði eða almanaksmánuðum sem einstaklingur er í sóttkví. Greiðslurnar verða aldrei hærri en 633.000 kr. á mánuði, eða 21.100 kr. á dag.
Ég er sjálfstætt starfandi. Fæ ég greiðslur?
Já. Greiðslur til sjálfstætt starfandi einstaklinga sem sæta sóttkví taka mið af 80% af mánaðarlegum meðaltekjum árið 2019. Greiðslur nema að hámarki 633.000 kr. á mánuði eða 21.100 kr. á dag.
Meðaltekjurnar taka mið af meðaltali þess reiknaða endurgjalds sem myndaði stofn til tryggingagjalds á tekjuárinu 2019.
Hvaða rétt hef ég í sjálfskipaðri sóttkví?
Ákvörðun um sóttkví er tekin á grundvelli sóttvarnarlaga af viðeigandi yfirvöldum. Einstaklingar í sjálfskipaðri sóttkví eiga ekki rétt á greiðslum.
Sérstakur barnabótaauki
Hvað er gert fyrir barnafólk?
Sérstakur barnabótaauki verður greiddur út 1. júní 2020 sem nemur 40.000 kr. með hverju barni innan 18 ára aldurs sé tekjuskattstofn einstæðs foreldris og þess hjóna eða sambúðaraðila sem hærri tekjur hefur undir 11,1 m.kr. Ef tekjuskattstofn er hærri verður barnabótaaukinn 20.000 kr. Þessi sérstaki barnabótaauki telst ekki til skattskyldra tekna.
Hlutastarfaleiðin
Vegna þeirra þrenginga sem blasa við vilja stjórnvöld koma til móts við fyrirtæki og launþega með hlutabótum. Fyrirtækjum í rekstrarvanda verður þannig gert kleift að lækka starfshlutfall hjá launafólki tímabundið og viðhalda þar með ráðningarsambandi á meðan erfiðustu mánuðirnir ganga yfir.
Hvað eru hlutabætur?
Hlutabætur eru atvinnuleysisbætur sem launafólk getur sótt um hjá Vinnumálastofnun (https://www.vinnumalastofnun.is/) ef atvinnurekandi hefur óskað eftir minnkuðu starfshlutfalli vegna þess efnahagsástands sem nú ríkir. Viðkomandi fær þá greiddar hlutabætur á móti launum hjá atvinnurekanda.
Hvenær á ég rétt á hlutabótum?
Þegar starfshlutfall er minnkað að frumkvæði vinnuveitanda um a.m.k. 20% vegna samdráttar í starfsemi. Gert er að skilyrði að launþegi haldi að lágmarki 25% starfshlutfalli hjá vinnuveitanda.
Ákveði launþegi sjálfur að minnka starfshlutfall sitt á hann ekki rétt til hlutabóta.
Ef starfshlutfall mitt var minnkað fyrir gildistöku laganna – á ég þá ekki rétt á bótum?
Ef skilyrði laganna eru að öðru leyti uppfyllt gilda þau jafnframt um þá aðila sem fóru í minnkað starfshlutfall að beiðni vinnuveitenda fyrir gildistöku laganna.
Hversu háum greiðslum á ég rétt á ef ég fer í minnkað starfshlutfall?
Þeir sem fara niður í allt að 25% starfshlutfall munu eiga rétt á hlutaatvinnuleysisbótum á móti þeim launum sem þeir fá frá vinnuveitanda fyrir hlutastarfið.
Greiðsla til einstaklings sem er færður úr 100% starfshlutfalli í 50% verður þá 50% af 456.404.- kr. eða 228.202.- kr. ásamt 11,5% mótframlagi í lífeyrissjóð.
Þetta er með þeim fyrirvörum að laun frá vinnuveitanda og greiðslur atvinnuleysisbóta samanlagt geta ekki numið hærri fjárhæð en 700.000 kr. á mánuði og skulu ekki nema hærri fjárhæð en 90% af meðaltali heildarlauna launamanns.
Laun undir 400 000 kr. á mánuði, miðað við fullt starf, skerðast ekki.
Heildarlaun einstaklings geta ekki hækkað við það að fara í lægra starfshlutfall.
Dæmi I:
Launamaður í 100% starfi hefur 400 þús. í mánaðarlaun en vinnuveitandi ákveður að minnka starfshlutfall hans um 75% vegna erfiðleika í rekstri. Þessi einstaklingur sækir um 75% atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun og vinnuveitandi greiðir honum 25% laun. Hann fær því 100 þús. frá vinnuveitanda og 300 þús. frá Vinnumálastofnun. Laun hans og atvinnuleysisbætur munu þá samanlagt jafngilda þeim launum sem hann hafði áður en hann fór í hið minnkaða starfshlutfall, eða 400 þús. á mánuði.
Dæmi II:
Launamaður í 100% starfi hefur 600 þús. í mánaðarlaun en vinnuveitandi ákveður að minnka starfshlutfall hans um 50% vegna erfiðleika í rekstri. Þessi einstaklingur sækir um 50% atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun. Hann fær því 300 þús. frá vinnuveitenda og 228 þús. frá Vinnumálastofnun. Laun hans og atvinnuleysisbætur munu þá samanlagt nema 528 þús. á mánuði eða 84% af heildarlaunum.
Dæmi III:
Launamaður í 100% starfi hefur 900 þús. í mánaðarlaun en vinnuveitandi ákveður að minnka starfshlutfall hans niður í 60% vegna erfiðleika í rekstri. Þessi einstaklingur sækir um 40% atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun. Hann fær því 540 þús. frá vinnuveitenda og 160 þús. frá Vinnumálastofnun. Laun hans og atvinnuleysisbætur munu þá samanlagt nema 700 þús. á mánuði eða tæpum 80% af heildarlaunum.
Dæmi IV:
Launamaður í 50% starfi hefur 250 þús. í mánaðarlaun en vinnuveitandi ákveður að minnka starfshlutfall hans um helming vegna erfiðleika í rekstri. Þessi einstaklingur sækir um 25% atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun. Hann fær því 125 þús. frá vinnuveitenda og 114 þús. frá Vinnumálastofnun. Við þetta lækkar viðkomandi í heildartekjum en ekki vegna skerðingar bóta – hann fær óskert 25% af hámarkstekjutengingu atvinnuleysisbóta þar sem hann er með laun undir 400 þús.kr.
Ég er í hlutastarfi. Fæ ég greiðslur?
Já. Sömu reglur gilda um einstaklinga í hlutastarfi við útreikninga á hlutaatvinnuleysisbótum.
Ég er sjálfstætt starfandi. Fæ ég greiðslur?
Já, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum – þ.e. sjálfstætt starfandi þurfa að hafa tilkynnt um verulegan samdrátt í rekstri og breytingu á reiknuðu endurgjaldi til launagreiðendaskrár Skattsins.
Ég er námsmaður. Fæ ég greiðslur?
Já, námsmenn sem uppfylla önnur skilyrði ákvæðisins eiga rétt til hlutabóta.
Skerðist réttur minn til atvinnuleysisbóta ef ég fer á hlutabætur og missi vinnuna í kjölfarið?
Nei. Greiðslur hlutaatvinnuleysisbóta skerða ekki áunnin réttindi samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.
Verður eitthvað eftirlit með þeim fyrirtækjum sem nýta úrræðið?
Vinnumálastofnun er heimilt að óska eftir upplýsingum og gögnum frá vinnuveitanda þar sem fram komi nánari rökstuðningur fyrir samdrætti í starfseminni, svo sem fækkun verkefna eða samdráttur í þjónustu.
Gildir úrræðið um hlutabætur til ákveðins tíma?
Já úrræðið er tímabundið og gildir til 1. júní nk.
Getur minnkað starfshlutfall í einhverjum aðstæðum verið einhliða ákvörðun atvinnurekanda?
Nei, launamaður þarf alltaf að samþykkja minnkað starfshlutfall og viðkomandi heldur öllum kjarasamningsbundnum réttindum.
Ef fyrirtæki sem ég vinn hjá verður gjaldþrota í kjölfar minnkaðs starfshlutfalls á ég þá minni rétt til greiðslna úr Ábyrgðasjóði launa?
Nei. Í tilvikum þegar starfshlutfall launamanns hefur verið lækkað að kröfu vinnuveitanda vegna samdráttar í starfsemi hans verður miðað við tekjur launamannsins líkt og þær voru áður en starfshlutfall var lækkað, við útreikning á kröfum.
Útgreiðsla séreignarsparnaðar
Get ég nýtt mér séreignarsparnaðinn minn til framfærslu?
Já. Allir þeir sem eiga séreignarsparnað geta fengið greitt út allt að 12 milljónir kr. Miðað er við stöðu á samanlögðum séreignarsparnaði einstaklings hinn 1. apríl 2020. Séreignarsparnaðurinn greiðist út á 15 mánaða tímabili frá því að umsókn berst. Ef um lægri fjárhæð en 12 milljónir kr. er að ræða styttist útgreiðslutími hlutfallslega.
Útgreiðsla hvers mánaðar getur að hámarki numið 800 þús. kr. og skattleggst líkt og tekjur. Lífeyrissjóður eða banki sem greiðir út sparnaðinn stendur skil á staðgreiðslu skattsins.
Hvernig sæki ég um útgreiðslu séreignarsparnaðar?
Einstaklingur leggur fram umsókn hjá þeim lífeyrissjóði eða banka sem heldur utan um séreignarsparnað hans.
Umsóknarfrestur er til 1. janúar 2021 og því getur einstaklingur sótt um að fá sparnaðinn greiddan út hvenær sem er á tímabilinu frá og með 1. apríl 2020 til og með 31. desember 2020.
Skiptir máli hvort ég hef tekið út sparnað eftir hrunið eða nýti séreignarsparnað inn á fasteignalán?
Ekki skiptir máli að eldri heimildir til útgreiðslu séreignarsparnaðar hafi verið nýttar eða að séreignarsparnaður hafi verið nýttur inn á fasteignaveðlán.
Endurgreiðsla virðisaukaskatts
Hvernig virkar endurgreiðsla virðisaukaskatts af vinnu við íbúðarhúsnæði?
Þeir sem eiga eða byggja íbúðarhúsnæði hafa fengið endurgreidd 60% af virðisaukaskatti á vinnu manna á vinnustað vegna nýbyggingar, endurbóta eða viðhalds. Það hlutfall verður nú hækkað í 100%, þ.e. allur virðisaukaskattur á þessa vinnu verður endurgreiddur. Heimildin verður einnig útvíkkuð þannig að hún nái líka til frístundahúsnæðis, t.d. sumarbústaða. Heimildin mun einnig ná til hönnunar og eftirlits með framkvæmdum. Þessar auknu heimildir munu gilda til ársloka 2020.
Hvernig virkar endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna heimilisaðstoðar og reglulegrar umhirðu?
Þeir sem eiga eða leigja íbúðarhúsnæði geta fengið endurgreidd 100% þess virðisaukaskatts sem greiddur hefur verið af vinnu manna vegna heimilisaðstoðar eða reglulegrar umhirðu íbúðarhúsnæðis. Sem dæmi má nefna að einstaklingar eða leigjendur geta fengið endurgreiddan virðisaukaskatt sem fellur til vegna ræstingar, þrifa, snjómoksturs, garðsláttar o.fl. Heimildin nær einnig til skráðra húsfélaga vegna reglulegrar umhirðu í sameign íbúðarhúsnæðis. Þessar heimildir munu gilda til ársloka 2020.
Hvað þarf ég að gera til að fá endurgreiðsluna?
Þeir sem eiga rétt á endurgreiðslu vegna vinnu við íbúðarhúsnæði, heimilisaðstoðar eða reglulegrar umhirðu skulu senda Skattinum endurgreiðslubeiðni á rafrænu formi í gegnum þjónustusíðu sína skattur.is með rafrænum skilríkjum eða veflykli. Í kjölfarið skal senda Skattinum frumrit þeirra reikninga sem sótt er um endurgreiðslu fyrir og greiðslustaðfestingar vegna þeirra. Vanti umsækjanda upplýsingar um hvernig komast á inn á þjónustusíðuna er hægt að lesa sér til um rafræn skilríki eða óska eftir að fá veflykil sendan í heimabanka eða á lögheimilisfang umsækjanda.
Fyrirtæki
Frestun, dreifing, lækkun og niðurfelling skatta og gjalda
Hvaða greiðslum er verið að fresta, dreifa, lækka eða fella niður?
-
Launagreiðendur geta óskað eftir greiðslufresti á allt að þremur greiðslum staðgreiðslu og tryggingagjalds með gjalddaga á tímabilinu 1. apríl 2020 til og með 1. desember 2020 að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
-
Heimild veitt fyrir ráðherra til að fella niður eða lækka fyrirframgreiðslu á tekjuskatti hjá fyrirtækjum.
-
Greiðendur fasteignaskatta geta að ákveðnum skilyrðum uppfylltum óskað eftir frestun á allt að þremur greiðslum fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði sem eru á gjalddaga 1. apríl 2020 til og með 1. desember 2020.
-
Gistináttaskattur verður felldur niður tímabundið á tímabilinu 1. apríl 2020 til og með 31. desember 2021 og gjalddaga skatts frá janúar og út mars 2020 verður frestað til 5. febrúar 2022.
-
Tollafgreiðslugjald vegna skipa og flugvéla verður fellt niður tímabundið, til ársloka 2021.
-
Gjalddögum aðflutningsgjalda vegna uppgjörstímabila frá mars 2020 hjá þeim fyrirtækjum sem njóta greiðslufrests verður dreift á tvo gjalddaga með heimild til færslu alls innskatts viðkomandi tímabils.
-
Áður lögfestri lækkun bankaskatts sem taka átti gildi í skrefum 2021-2023 verður flýtt þannig að hún verði öll komin til framkvæmda árið 2021. Þannig verður svigrúm banka aukið til að styðja við heimilin og atvinnulífið.
-
Endurgreiðsla virðisaukaskatts af vinnu fólks við íbúðarhúsnæði á byggingarstað verður tímabundið aukin úr 60% í 100%. Heimildin verður jafnframt látin ná til frístundahúsnæðis oghönnunar eða eftirlits.
Við hvaða aðstæður er heimilt að fresta staðgreiðslu og tryggingargjaldi?
Launagreiðendum sem eiga við tímabundna rekstrarörðugleika að stríða vegna tekjufalls er heimilt að óska eftir frestun á allt að þremur greiðslum staðgreiðslu launa og tryggingagjalds sem eru á gjalddaga á tímabilinu 1. apríl til 1. desember 2020.
Í framangreindu felast fjögur skilyrði sem öll þurfa að vera til staðar svo launagreiðanda sé heimilt að óska eftir frestun á greiðslu.
-
Að launagreiðandi hafi orðið fyrir tekjufalli.
-
Að um rekstrarörðugleika sé að ræða sem ekki voru tilkomnir fyrir upphaf ársins 2020.
-
Að um tímabundna rekstrarörðugleika sé að ræða.
-
Að skil hafi verið gerð á opinberum gjöldum og upplýsingum til Skattsins. Til viðbótar þeim frestum sem nefndir eru að ofan þá stendur þeim til boða sem verða fyrir miklu tekjufalli að fá aukinn frest á greiðslu þeirri sem er á gjalddaga 15. janúar 2021 þannig hún dreifist á gjalddaga í júní, júlí og ágúst það ár.
1) Hvernig er tekjufall metið?
Við mat á því hvort um tekjufall er að ræða skal miða við að minnsta kosti þriðjungs samdrátt í rekstrartekjum yfir heilan mánuð samanborið við sama mánuð árið 2019. Ef atvinnureksturinn hefur staðið í innan við tvö ár er heimilt að miða við þriðjungs samdrátt rekstrartekna samanborið við meðaltekjur síðastliðinna tólf mánaða. Samanburðurinn miðast við rekstrartekjur og því ber að horfa framhjá áhrifum af óreglulegum tekjum og, eftir atvikum, eignatekjum. Þá er gengið er út frá því að tekjufallið megi rekja beint til Covid-19 og ekki er því hægt að sækja um frestun ef tekjufallið má rekja til óskyldra orsaka.
2) Hvernig er lagt mat á hvort rekstrarörðugleikar séu til staðar?
Rekstrarörðugleikar eru skilgreindir í lögunum með neikvæðum formerkjum þannig að launagreiðandi telst ekki vera í þeim aðstæðum, jafnvel þótt um tekjufall sé að ræða, ef:
-
Hann á nægt eigið fé til að sækja sér lánafyrirgreiðslu á almennum markaði.
-
Hann á nægt handbært fé til að standa straum af útgjöldum til rekstrar þegar þau falla í gjalddaga.
Gengið er út frá því að stærri og stöndugri fyrirtæki eigi auðveldara með að fjármagna þær tímabundnu aðstæður sem uppi eru í þjóðfélaginu. Heimildunum um frestun er þannig fyrst og fremst beint að litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem eiga erfiðara um vik að fjármagna sig.
3) Hvað eru tímabundnir rekstrarörðugleikar?
Heimild til greiðslufrests nær aðeins til þeirra launagreiðenda sem talið er að stríði við tímabundna rekstrarörðugleika. Þannig nær úrræðið ekki til þeirra sem voru komnir í varanlega rekstrarörðugleika fyrir upphaf ársins 2020 en við það mat er horft til þess hvort eigið fé launagreiðandans í árslok 2019 hafi verið neikvætt um fjárhæð sem er hærri en helmingur innborgaðs hlutafjár, stofnfjár eða framlags eiganda.
4) Hver eru formskilyrðin?
Formskilyrðin eru tvö:
-
Að launagreiðandi hafi ekki verið í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem komnar voru á eindaga í lok árs 2019. Hægt er að fá yfirlit yfir skuldastöðu við ríkissjóð hjá Skattinum.
-
Að launagreiðandi hafi staðið skil á skattframtölum ásamt lögboðnum fylgigögnum til Skattsins. Hér er átt við að skattframtölum hafi verið skilað þannig að álagning byggist ekki á áætlun. Með lögboðnum fylgigögnum er einkum verið að vísa til þess að ársreikningi hafi verið skilað með skattframtali til Skattsins.
Hversu mörgum gjalddögum má fresta?
Allt að þremur greiðslum á gjalddögum á tímabilinu 1. apríl til 1. desember 2020.
Hvenær gjaldfalla frestaðar greiðslur?
Gjalddagi og eindagi greiðslna sem óskað er að fresta færist til 15. janúar 2021 að því gefnu að skilyrði fyrir frestun hafi verið fyrir hendi.
Hvað gerist ef greiðslu er frestað án þess að skilyrði hafi verið uppfyllt?
Sé greiðslu frestað án þess að skilyrðin hafi verið uppfyllt þá helst gjalddagi og eindagi óbreyttur, þ.e. gjalddagi miðast við 1. næsta mánaðar eftir að launatímabili lýkur og eindagi er 14 dögum síðar. Eigi greiðsla sér stað eftir eindaga reiknast álag jafnhátt dráttarvöxtum Seðlabanka Íslands frá og með gjalddaga. Á stofn til staðgreiðslu reiknast, auk dráttarvaxtaálags, 1% álag fyrir hvern dag sem greiðslur dragast fram yfir eindaga, þó ekki hærra en 10%.
Hvað gerist ef greiðslu er réttilega frestað en ekki greidd á eindaga?
Hafi greiðslu verið réttilega frestað þannig að öll skilyrði hafi verið uppfyllt þá færist gjalddagi og eindagi til 15. janúar 2021. Greiðsludráttur fram yfir eindaga hefur í för með sér álag (sjá umfjöllun að framan) sem reiknast frá og með 15. janúar 2021.
Hvar er sótt um frestun greiðslna og hvar eru frekari upplýsingar veittar um frestun skattgreiðslna?
Á vef Skattsins verður hlekkur á síðu sem heldur utan um umsóknir og yfirlýsingu launagreiðanda um að skilyrði um tímabundna rekstrarörðugleika séu uppfyllt ásamt öðrum samskiptum vegna frestunar.
Hver eru skilyrði þess að fá aukinn frest?
Þeir launagreiðendur sem hafa réttilega frestað greiðslu eða greiðslum geta sótt um aukinn frest á greiðslu á gjalddaga 15. janúar 2021. Séu skilyrði fyrir auknum fresti uppfyllt dreifist greiðsla á gjalddaga þann 15. janúar 2021 á gjalddaga í júní, júlí og ágúst.
Sækja skal um aukinn frest til Skattsins og er skilyrði fyrir því að fá aukinn frest að launagreiðandi hafi orðið fyrir miklu tekjufalli á öllu rekstrarárinu, samanborið við rekstrarárið þar á undan. Í lögunum er ekki skilgreint hvað átt sé við með miklu tekjufalli en í greinargerð kemur fram að jafnaði sé það þegar tekjur hafa dregist saman um helming að lágmarki.
Á hvaða tímabili fellur gistináttaskattur niður?
Greiðsla og innheimta gistináttaskatts verður felld niður á tímabilinu 1. apríl 2020 til og með 31. desember 2021. Því þarf ekki að greiða gistináttaskatt vegna gistingar sem á sér stað á því tímabili.
Hvað með gistináttaskatt fyrir 1. apríl?
Greiðslu er frestað á gistináttaskatti sem fellur til á tímabilinu 1. janúar til og með 31. mars 2020.
Gjalddaga gistináttaskatts vegna gistingar á þessu tímabili verður frestað til 5. febrúar 2022.
Hvað ef seljandi gistiþjónustu gefur út reikning fyrir 1. apríl en gistingin á sér stað eftir það tímamark?
Ef reikningur hefur verið gefinn út fyrir 1. apríl 2020 en gistingin á sér stað eftir það tímamark telst þjónustan engu að síður hafa verið veitt á útgáfudegi reiknings og afhending þjónustunnar farið fram á útgáfudegi hans. Gjalddagi gistináttaskatt í þessu tilfelli frestast hins vegar til 5. febrúar 2022.
Hvaða fasteignagjöldum verður frestað?
Sveitarfélög fá heimild til að fresta gjalddögum fasteignagjalda hjá fyrirtækjum sem hafa orðið fyrir verulegu tekjutapi. Sveitarfélög munu setja sér reglur um viðmið í því efni.
Hvað kosta skatta- og gjaldalækkanirnar?
Heildaráhrif þessara aðgerða nema um 13 ma.kr. Lækkun bankaskatts á árunum 2021-2023 nemur samtals 10,6 ma.kr., og áætlað er að niðurfelling gistináttaskatts nemi um 1,6 ma.kr. Loks er gert ráð fyrir að tekjur Skattsins af tollafgreiðslugjaldi lækki um 600 m. kr. árin 2020-21.
Af hverju er verið að lækka bankaskatt?
Markmiðið með lækkun bankaskatts er að gera bönkunum kleift að lækka vexti af útlánum í samræmi við vaxtalækkanir Seðlabankans. Skattalækkunin eykur einnig getu bankanna til að auka útlán þegar aðstæður skapast.
Aðgengi fyrirtækja að fjármagni
Ætla bankarnir að gera eitthvað til að hjálpa viðskiptavinum að standast áfallið?
Bankar, sparisjóðir og opinberir lánasjóðir¹ hafa gert með sér samkomulag um hvernig staðið verði að frestunum á innheimtu skulda fyrirtækja sem lenda í tímabundnum greiðsluvanda vegna
heimsfaraldursins. Gert er ráð fyrir að þau fyrirtæki sem uppfylli tiltekin skilyrði um mat á tímabundnum greiðsluvanda muni geta frestað afborgunum af höfuðstól og greiðslu vaxta um allt að sex mánuði.
Frestaðar greiðslur bætast við höfuðstól og samningstíminn lengist sem nemur fjölda frestaðra afborgana.
Munu stjórnvöld aðstoða bankana?
Fyrirtæki munu, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, geta fengið viðbótarrekstrarlán vegna áhrifa af heimsfaraldrinum. Ríkissjóður mun leggja fram ábyrgðir fyrir helmingi slíkra rekstrarlána og er gert ráð fyrir að heildaráhætta ríkissjóðs vegna þeirra geti að hámarki numið 35 mö.kr.
Hvernig sækir fyrirtæki um lán með ábyrgð?
Það verður í höndum lánastofnana að ákveða hvaða fyrirtæki geta fengið lán með ábyrgð. Lánin verða þó að uppfylla ákveðin skilyrði og vera til reksturs.
Hvaða skilyrði eru fyrir ábyrgðum ríkissjóðs?
Meðal skilyrða fyrir ábyrgðunum eru eftirfarandi:
-
Ábyrgðir taka eingöngu til nýrra lána til fyrirtækja sem hafa orðið fyrir a.m.k. 40% tekjumissi milli ára vegna heimsfaraldurs kórónaveiru.
-
Lán með ábyrgð geta að hámarki numið tvöföldum árslaunakostnaði fyrirtækis á liðnu ári.
-
Lán takmarkast við fyrirtæki með launakostnað sem nam a.m.k. 25% af heildarútgjöldum ársins 2019.
-
Heimilt verður að takmarka hagnýtingu lánsins þannig að það verði t.a.m. eingöngu nýtt til greiðslu launa, rekstraraðfanga og húsaleigu.
Er eitthvað gert til að auðvelda aðgengi að fjármagni?
Lán með ábyrgð ríkissjóðs koma til viðbótar við mikla lækkun vaxta Seðlabankans og aðrar aðgerðir sem auðvelda bönkunum að viðhalda lánveitingum til heimila og fyrirtækja, þ.m.t. lækkun sveiflujöfnunarauka og bindiskyldu.
Mannúðar- og líknarfélög, íþróttafélög og björgunarsveitir
Hvað með mannúðar- og líknarfélög, íþróttafélög og björgunarsveitir?
Mannúðar- og líknarfélög, íþróttafélög, björgunarsveitir, landssamtök björgunarsveita og slysavarnadeildir og einstakar félagseiningar sem starfa undir merkjum samtakanna geta fengið endurgreiddan 100% þess virðisaukaskatts sem þessir aðilar hafa greitt af vinnu fólks sem innt er af hendi á tímabilinu 1. mars 2020 til og með 31. desember 2020 á byggingarstað við byggingu, viðhald eða endurbætur á mannvirkjum sem alfarið eru í eigu þessara aðila, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
Hvað með kaup á þjónustu í formi hönnunar eða eftirlits með byggingu mannvirkisins?
Virðisaukaskattur sem fellur til vegna kaupa á hönnun eða eftirliti með byggingu á mannvirkinu fellur einnig hér undir. Sem dæmi má nefna að ef íþróttafélag ákveður að kaupa þjónustu arkitekta og/eða verkfræðinga vegna hönnunar íþróttamannvirkis fellur virðisaukaskattur af slíkri þjónustu einnig undir endurgreiðsluheimildina.
Hvaða skilyrði eru til staðar fyrir endurgreiðslunni?
Uppfylla þarf ýmis skilyrði svo að heimild til endurgreiðslu sé til staðar. Sem dæmi má nefna að umsækjandi þarf að vera skráður í fyrirtækjaskrá Skattsins, hann má hvorki í heild eða hluta vera í eigu opinberra aðila og ekki í vanskilum vegna opinberra gjalda eða afdreginna lífeyrisiðgjalda. Þá er að finna frekari skilyrði í lögum um virðisaukaskatt fyrir endurgreiðslunni.
Hvernig eflum við hagkerfið að nýju?
Þegar það tímabundna áfall sem leiðir af COVID-19 líður hjá mun hagkerfið taka við sér að nýju, enda stuðla aðgerðir stjórnvalda að því að halda lífvænlegum fyrirtækjum starfandi auk þess sem undirstöður hagkerfisins eru traustar. Til þess að viðspyrnan verði öflug hyggst ríkisstjórnin grípa til sértækra aðgerða annars vegar til stuðnings ferðaþjónustunni og hins vegar auka opinbera fjárfestingu sem mun glæða hagkerfið til bæði skemmri og lengri tíma.
Hvað á að gera til að koma ferðaþjónustunni aftur af stað?
Í undirbúningi er samræmt kynningar- og markaðsstarf erlendis á árunum 2020-2021 til að bregðast við neikvæðum áhrifum heimsfaraldurs á íslenska ferðaþjónustu. Því verður hleypt af stokkunum þegar aðstæður skapast til þess og ætla má að ferðalög hefjist á ný.
Efnt verður til markaðsátaks til að hvetja landsmenn til að ferðast innanlands á næstu mánuðum og styðja þannig við innlenda ferðaþjónustu.
Aukin fjárfesting til að efla efnahagslífið
Ríkisstjórnin hefur lagt mikla áherslu á fjárfestingu og að efla innviði samfélagsins. Nú á að gera enn betur og fara í sérstakt flýtifjárfestingarátak. Sérstaklega er horft til framkvæmda sem hægt er að flýta eða annarra arðbærra verkefna sem skapa fjölbreytt störf með skömmum fyrirvara. Fjárfestingarnar eru m.a. á sviði vegagerðar, fasteigna og upplýsingatækni. Auk þess sem framlög eru aukin í ýmsa sjóði á sviði vísinda og nýsköpunar. Umfang átaksins er 20 ma.kr. sem skiptist á ríkissjóð (15 ma.kr.) og opinber fyrirtæki (5 ma.kr.)
Hvað tekur við eftir að fjárfestingarátakinu lýkur?
Í undirbúningi er annað átak sem tekur við á árunum 2021-2023 þar sem ráðist verður í viðameiri fjárfestingar sem krefjast meiri undirbúnings.
Hvernig hjálpar fjárfestingarátak að koma hagkerfinu aftur af stað?
Auknar fjárfestingar munu skapa störf og ýta undir eftirspurn í hagkerfinu. Auk þess mun fjárfestingin auka framleiðni í hagkerfinu sem byggir undir hagvöxt til lengri tíma.
———
¹ Lánasjóður sveitarfélaga, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, ÍL-sjóður, Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og Byggðastofnun.