Categories
Fréttir

Spurt og svarað um efnahagsaðgerðir stjórnvalda vegna COVID-19 — 2. hluti

Deila grein

21/04/2020

Spurt og svarað um efnahagsaðgerðir stjórnvalda vegna COVID-19 — 2. hluti

Ríkisstjórnin hefur kynnt framhald efnahagsaðgerða sinna vegna áhrifa Covid-19 heimsfaraldursins.

Markmið aðgerða ríkisstjórnarinnar er að verja grunnstoðir samfélagsins, vernda afkomu fólks og fyrirtækja, og tryggja öfluga viðspyrnu fyrir íslenskt efnahagslíf. Eftir því sem neikvæð efnahagsleg áhrif Corona-faraldursins raungerast ber aukna nauðsyn til að huga að félagslegu öryggi og velferð.

Aðgerðir sem snúa beint að einstaklingum eru tvíþættar. Áhrifa faraldursins gætir víða í samfélaginu og eru af bæði efnahagslegum og félagslegum toga. Annars vegar er aðgerðum ætlað að styðja við þá hópa sem talið er að þurfi bráða aðstoð vegna samfélagslegra afleiðinga COVID-19. Hins vegar er markmiðið að skapa tímabundin náms- og atvinnutækifæri fyrir námsmenn, fólk á atvinnuleysisbótum og aðra sem kunna að sækjast eftir slíkum tækifærum. Helstu aðgerðir eru eftirfarandi:

 • Geðheilbrigði og fjarþjónusta: Efling geðheilbrigðisþjónustu, heilsugæslu og fjarþjónustu
 • Vernd fyrir börn og viðkvæma hópa: Átak gegn ofbeldi, stuðningur vegna tómstunda og veikinda og úrræði gegn félagslegri einangrun
 • Sértækur stuðningur: Framlínuálag fyrir heilbrigðisstarfsfólk
 • Vegir til virkni í námi og starfi: Átak til að fjölga námsúrræðum og tímabundnum störfum
 • Efling nýsköpunar og lista: Auknir nýsköpunarstyrkir, fleiri mánuðir listamannalauna

Afkoma heimila var í brennidepli í þeim aðgerðum sem kynntar voru í mars síðastliðnum, s.s. með atvinnuleysisbótum vegna minnkaðs starfshlutfalls, eingreiðslu til barnafólks og öryrkja og tímabundinni heimild til úttektar á séreignarsparnaði. Þrjár þeirra aðgerða sem nú eru kynntar miða að því að styrkja starfsgrundvöll fyrirtækja í erfiðu efnahagsástandi og standa þannig vörð um störf og afkomu heimila. Nánari upplýsingar um þær aðgerðir má sjá undir flipanum „fyrirtæki“ hér að ofan.
Þeim aðgerðum sem snúa beint að fyrirtækjum er ætlað að styðja þau til að takast á við mjög erfiðar efnahagsaðstæður sem orðið hafa vegna COVID-19 heimsfaraldursins og þeirra sóttvarnaraðgerða sem grípa hefur þurft til:

 • Lokunarstyrkir: Rekstrarstyrkir vegna fyrirmæla um lokun starfsemi
 • Stuðningslán: Rekstrarlán til minni fyrirtækja í lægð vegna faraldursins
 • Tekjuskattsjöfnun: Heimild til að jafna tap þessa árs á móti hagnaði í fyrra

Aðgerðir taka mið af þeim úrræðum sem þegar hafa komið til framkvæmda og má sjá nánari upplýsingar um hér[BB3] . Einnig hafa verið kynntar aðgerðir til viðspyrnu sem snúa sérstaklega að sprotum og nýsköpunarfyrirtækjum og má sjá nánari upplýsingar undir viðeigandi flipa hér að ofan.
Sú kreppa sem við göngum nú í gegnum er tímabundin. Viðspyrnan kemur þó óvíst sé hversu lengi þurfi að bíða hennar. Undirstöður hagkerfisins eru góðar til að takast á við þá áskorun að byggja upp öflug fyrirtæki bæði á útflutningsmarkaði og heimamarkaði og vinna til baka markaði sem lokuðust vegna COVID-19. Sérstaklega er mikilvægt að byggja upp atvinnugreinar sem byggja á nýsköpun og ótakmörkuðum auðlindum hugvits sem hraða munu uppbyggingu, fjölga störfum og auka hagvöxt. Um það fjalla þær aðgerðir sem snúa beint að sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum og frumkvöðlum:

 • Efling nýsköpunar: Auknar R&Þ endurgreiðslur og styrkir
 • Fjármögnun sprota: Mótframlög og fjárfestingar í sprota- og vaxtarfyrirtækjum
 • Aukning innlendrar verðmætasköpunar: Nýr matvælasjóður til að efla nýsköpun og markaðssetningu, aukning á listamannalaunum