Categories
Fréttir

Staða barnaverndar í landinu

Deila grein

28/10/2014

Staða barnaverndar í landinu

Í síðustu viku fór fram sérstök umræða á Alþingi um stöðu barnaverndar í landinu. Jóhanna María Sigmundsdóttir, alþingismaður, var málshefjandi en Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra var til andsvara.
Jóhanna maría_SRGB_fyrir_vefJóhanna María Sigmundsdóttir fór yfir að í ársskýrslu Barnaverndarstofu fyrir árin 2012–2013 komi fram að fyrir árin 2009–2013 var töluverð aukning í beiðnum um fósturheimili fyrir börn. „Algengast er að barnaverndarnefndir ráðstafi 15 ára börnum í tímabundið fóstur, 16 ára börnum í varanlegt fóstur og 15 ára börnum í styrkt fóstur.“
En einnig kemur fram í skýrslunni að umsóknum um „meðferð á meðferðarheimili fyrir börn á aldrinum 12–18 ára hefur fækkað töluvert í heildina á milli áranna 2009 og 2013 þótt fjöldi barna sem eru í meðferð á þessum árum endurspegli ekki þá fækkun. Hjá þeim sem hafa lagt inn umsókn um meðferð er algengasta fjölskyldugerðin einstæð móðir og reyndar áberandi hærri en hjá öðrum fjölskyldugerðum.“
„Eitt frábært framtak Barnaverndarstofu er Barnahús. Það er hannað sérstaklega til að mæta þörfum barna. Mjög góð aðstaða er í húsinu, bæði fyrir börn og þá sem þeim fylgja. Í húsinu er sérútbúið viðtalsherbergi til að framkvæma rannsóknarviðtöl og skýrslutökur. Þar er einnig hægt að taka könnunarviðtöl og gera læknisskoðanir.
Fjöldi barna sem kom í rannsóknarviðtöl í Barnahúsi jókst á milli áranna 2012 og 2013 um meira en 40 tilfelli. Þá hefur aukist að börn segi frá kynferðislegu ofbeldi í rannsóknarviðtölum á milli áranna úr 37,8% í 51,8%. Er þessi aukning samferða þeirri vitundarvakningu sem orðið hefur í þjóðfélaginu um þessi mál.“
Eygló HarðardóttirEygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, sagði „óumdeilt að velferð barna á fyrstu æviárunum leggur grunn að allri þeirra framtíð. Þar kemur til umhyggja foreldra og almenn þjónusta, svo sem öflug mæðraskoðun og ungbarnaeftirlit, góðir leikskólar og grunnskólar sem tryggja flestum börnum farsæla æsku og uppvaxtarár, en einstaka barn þarf meiri aðstoð.“
Eygló telur Íslendinga verða að bæta sig „verulega til að tryggja að þau þjónustukerfi sem við höfum í velferðarsamfélagi okkar vinni mun betur saman. Þá er ég að tala um heilbrigðiskerfið, skólakerfið, félagsþjónustuna og barnaverndina, að ógleymdu að sjálfsögðu samstarfi við foreldrana og börnin sjálf. Við erum ekki að mínu mati með nægilega heildstætt þjónustuferli.“
„Úrræði barnaverndarnefnda eru margþætt, þar með talin leiðsögn til foreldra, að stuðla að því í samvinnu við hlutaðeigandi stofnanir að börn njóti þjónustu samkvæmt öðrum lögum, útvega barni viðeigandi stuðning eða meðferð eða útvega barni eða fjölskyldu persónulegan ráðgjafa eða stuðningsfjölskyldu. Einnig geta barnaverndarnefndir beitt úrræðum utan heimilis, svo sem fóstri, styrktu fóstri eða vistun á meðferðarheimili.
Á vegum Barnaverndarstofu eru sem sagt rekin úrræði sem barnaverndarnefndir geta nýtt sér, meðferðarheimili og einnig MST-fjölkerfameðferðin, sem felur í sér aðstoð utan stofnana fyrir börn og fjölskyldur þeirra vegna alvarlegs hegðunar- og fíkniefnavanda. Markmiðið er að efla og styðja fjölskylduna til að takast á við vandann og bregðast við bakslögum. Það er unnið þétt í umhverfi barnsins og eru samstarfsaðilar meðal annarra skólakerfið, Barna- og unglingageðdeild, Fjölsmiðjan og lögreglan.
Í dag er þessi þjónusta, MST-þjónustan, aðeins í boði í 100 km radíus frá Reykjavík. Ég er núna að leita leiða til að tryggja að við getum tryggt börnum alls staðar á landinu MST eða sambærilega þjónustu.“
„Varðandi tilkynningarnar hjá okkur tel ég jákvætt að við sjáum að tikynningum hefur fjölgað jafnt og þétt vegna þess að fólk lætur vita. Það er það sem vitundarvakningin gekk út á, að hafa í huga að félagsþjónustan og barnaverndin eru þarna til að hjálpa fólki.“
Hægt er að kynna sér umræðuna í heild sinni hér.
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.