Categories
Fréttir

Staðan á Íslandi sterk

Deila grein

16/04/2024

Staðan á Íslandi sterk

Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti í dag fjármálaáætlun fyrir árin 2025-2029 þar sem verður áhersla á að verja sterka stöðu með hóflegum vexti útgjalda til að stuðla að lækkun verðbólgu og skapa skilyrði fyrir lækkun vaxta. Þannig skila þær launahækkanir sem samið var um í kjarasamningum auknum kaupmætti til almennings. 

Það eru þrjú lykilatriði er skipta máli varðandi grunn að áframhaldandi kaupmáttarvexti:

  • Að aðhalds sé gætt í opinberum fjármálum.
  • Að stjórnvöld ráðist í þær aðgerðir sem tilkynnt var um samhliða gerð kjarasamninga.
  • Að kjarasamningar á opinberum vinnumarkaði samrýmist þeirri ábyrgu heildarstefnu sem mörkuð hefur verið á almennum vinnumarkaði.

Undanfarinn áratug hefur vöxtur kaupmáttar verið langt umfram öll önnur ríki Vestur-Evrópu á samræmdan mælikvarða. Sú stefnumörkun sem fram kemur í fjármálaáætlun leggur grunn að áframhaldandi kaupmáttarvexti.

Kaupmáttur launa á samræmdan mælikvarða

Lífskjarabatinn birtist víðar en í vexti kaupmáttar. Þannig hafa skuldir heimilanna sjaldan á undanförnum áratugum verið lægri í hlutfalli við ráðstöfunartekjur þeirra.

Í þeirri skýru stefnumörkun sem birt er í nýrri fjármálaáætlun og leggur grunn að áframhaldandi kaupmáttarvexti, skiptir þrennt mestu máli.

Í fyrsta lagi þarf áfram að gæta aðhalds í opinberum fjármálum. Halli ríkissjóðs helmingast þannig á næsta ári, úr 49 ma.kr. í 25 ma.kr., og snýst í afgang árið 2028.

Við mun­um síðan strax á næsta ári sjá að hall­inn helm­ing­ast, fer úr 49 ma 2024 niður í 25 millj­arða árið 2025. Þannig að þess­ar aðgerðir sýna okk­ur að við erum á réttri leið. Svo sjá­um við þróun á tíma­bil­inu miðað við hagspá sem ligg­ur til grund­vall­ar því að frum­jöfnuður vex. Hann varð já­kvæður á ár­inu 2023, tölu­vert fyrr en við höfðum vænst, en heild­ar­jöfnuði verður svo náð í lok tíma­bils,“ sagði Sig­urður Ingi í sam­tali við mbl.is

Sem fyrr vega útgjöld til heilbrigðismála og félags- og tryggingamála þyngst á tímabili þessarar fjármálaáætlunar en um helmingi heildarútgjalda ríkissjóðs er varið til þeirra málaflokka. Ekki er almenn aðhaldskrafa á heilbrigðis- og velferðarmál og verður áfram forgangsraðað til þeirra málaflokka en útgjöld verða þar aukin um 80 ma.kr. milli 2024 og 2029 sem svarar til tæplega 12% aukningar að raunvirði.

Ríkisstjórnin hefur sammælst um að ná tökum á útgjöldum vegna málaflokka útlendinga. Árið 2022 nærri tvöfölduðust útgjöldin frá árinu 2021. Hið sama gerðist árið 2023. Útgjöld til þessara málaflokka hafa frá árinu 2017 ríflega þrefaldast að raunvirði.

Þótt jarðhræringarnar í Grindavík og aðkoma ríkissjóðs að kjarasamningum hafi kallað á nokkuð umfangsmikil bein útgjöld úr ríkissjóði helst afkoman stöðug milli ára. Er það vísbending um aukinn stöðugleika samanborið við miklar sveiflur síðustu ára. Á tímabili áætlunarinnar verður farið hægar í ný útgjöld eða þeim mætt með aðhaldi í öðrum rekstri með því að vinna að markvissum umbótum í ríkisrekstri.

Líkt og kemur fram í umbótakafla fjármálaáætlunar verður settur aukinn kraftur í að bæta skilvirkni hins opinbera og stofnanaskipulagið við rekstur opinberrar þjónustu endurmetið. Miklir möguleikar liggja þar í að nýta fjármagn betur og gera stofnanir burðugri til að veita þjónustu sem þörf er á. Þegar hefur náðst mikill árangur í að auka framleiðni hins opinbera í gegnum verkefni Stafræns Íslands og hafa sýslumannsembættin t.d. náð að auka hraða afgreiðslunnar markvert með aukinni stafvæðingu á sama tíma og hagrætt hefur verið í rekstrinum.

Útgjöld ríkissjóðs og hins opinbera í heild munu því vaxa hóflega í ár og á tímabili fjármálaáætlunar. Með hægfara útgjaldavexti er stefnt að því að hlutfall heildarútgjalda hins opinbera af VLF, sem í ár mun nema um 44%, verði orðið tæplega 41% undir lok tímabilsins. Með þeim hætti auðvelda opinber fjármál það verkefni Seðlabankans að stuðla að stöðugu verðlagi.

Í öðru lagi munu stjórnvöld ráðast í þær aðgerðir sem tilkynnt var um samhliða gerð kjarasamninga. Aðgerðirnar auka ráðstöfunartekjur heimila með sérstakri áherslu á húsnæðisuppbyggingu, húsnæðisstuðning og málefni barnafjölskyldna. Þökk sé hóflegum vexti annarra útgjalda eins og fram hefur komið og nokkrum áframhaldandi vexti í tekjum ríkissjóðs næst að fjármagna aðgerðir til stuðnings kjarasamningum á komandi árum.

Í þriðja lagi leggja stjórnvöld á það ríka áherslu að kjarasamningar á opinberum vinnumarkaði samrýmist þeirri ábyrgu heildarstefnu sem mörkuð hefur verið á almennum vinnumarkaði. Mikilvægt er að um verði að ræða langtímasamninga sem dragi úr óvissu og styðji við lækkun verðbólgu. Aðeins þannig myndast skilyrði fyrir lækkun vaxta.