„Hæstv. forseti. Í pólitísku umróti liðinna daga er oft gott að leita í grunninn og spyrja grundvallarspurninga. Hvað er okkur mikilvægast? Ég get svarað þessu svo til að fólk hafi vinnu og þak yfir höfuðið. Auðvitað er þetta ekki svo einfalt en fræðilega viðurkennt að til útskýringa er einfaldleikinn oft góður.
Þá finnst mér hollt þegar ákall um breytingar er sterkt að velta fyrir mér andstæðu breytinga og hversu mikilvægur stöðugleikinn sé. Það er staðreynd að hér hefur náðst markverður efnahagslegur stöðugleiki allt kjörtímabilið með batnandi hag á mörgum sviðum og að atvinnuástand er með besta móti þar sem skráð atvinnuleysi í mars síðastliðnum samkvæmt Hagstofunni var 2,7% og hefur farið jafnt og þétt lækkandi. Fleiri og fleiri hafa vinnu og atvinnutækifæri. Það sem er einkar ánægjulegt er að atvinnulausum hefur fækkað í öllum landshlutum.
Ég held því ekki fram að þingkosningar raski endilega stöðugleika, þær eru alla jafna á fjögurra ára fresti, en það er viss hætta á að við gleymum okkur í því kappi sem fylgir. Kosningafjárlög sem við þekkjum í sögunni eru kannski besta dæmið um það. Stöðugleikinn er hreint ekki sjálfgefinn og það hefur náðst mikill árangur á því sviði. Mikilvægast er að við höldum áfram að vinna að því að bæta þau tæki og tól sem geta áfram tryggt efnahagslegan stöðugleika. Við höldum áfram að bæta hér umgjörð peningastefnunnar, vinnum ábyrga ríkisfjármálaáætlun sem rammar inn fjárlög og látum þessi tvö hagstjórnartæki vinna saman. Vinnumarkaðurinn verður að fylgja í takt með launaþróun og hækkunum í takt við framleiðnivöxt og getu hagkerfisins á hverjum tíma.
Virðulegi forseti. Breytingar í formi þróunar eru æskileg framvinda, en stöðugleikinn er okkur nauðsynlegur.“
Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 19. apríl 2016.
Categories
Staðreynd að hér hefur náðst markverður efnahagslegur stöðugleiki
20/04/2016
Staðreynd að hér hefur náðst markverður efnahagslegur stöðugleiki