Categories
Fréttir

„Stærsta verkefni okkar í dag er húsnæðismarkaðurinn“

Deila grein

05/06/2023

„Stærsta verkefni okkar í dag er húsnæðismarkaðurinn“

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknar, kom víða við í yfirlitsræðu sinni á vorfundi miðstjórnar.

Sagði hann ástandið á annan veg hér á landi en erlendis. Á Íslandi er mikill hagvöxtur, hjól atvinnulífsins snúast á fullu og fjölmargar greinar í miklum vexti, þenslan er mikil. Hættan sé vítahringur vixlverkunar hækkunar launa og verðlags.

„Frá því ríkisstjórn Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs tók við árið 2017 hafa lífsgæði aukist á Íslandi. Við höfum fjárfest gríðarlega í uppbyggingu innviða, heilbrigðiskerfinu, menntun, menningu og veitt atvinnulífinu gott umhverfi,“ sagði Sigurður Ingi.

„Stærsta verkefni okkar í dag er húsnæðismarkaðurinn. Við stigum stór skref með stofnun innviðaráðuneytis í átt að meiri yfirsýn, betri rauntímaupplýsinga og þar af leiðandi öflugri tækja ríkisins til að stíga inn og koma í veg fyrir alltof miklar sveiflur á húsnæðismarkaði.

Fyrir tæpu ári náðum við mikilvægum áfanga þegar ég skrifaði fyrir hönd ríkisins undir rammasamkomulag við Samband íslenskra sveitarfélaga sem felur í sér sameiginlega sýn um uppbyggingu húsnæðis. Við höfum lengi og sérstaklega frá hruni búið við miklar verðsveiflur sem meðal annars hafa skapast vegna skorts á byggingarlóðum,“ sagði Sigurður Ingi.

Sagði hann rammasamkomulagið og síðar samningur við Reykjavíkurborg – og samningar við önnur 15-20 sveitarfélög eru á lokasprettinum- fela í sér að bæði ríki og sveitarfélög skuldbindi sig til að stuðla að verulegri uppbyggingu íbúðarhúsnæðis.

„Sú tala sem nefnd hefur verið er að lágmarki 35 þúsund nýjar íbúðir á tíu árum. Sú áætlun sem var á borðinu mun hnikast til vegna verðbólgunnar enda væri mjög óskynsamlegt að vinna gegn aðgerðum Seðlabankans,“ sagði Sigurður Ingi.

„Það sem við ætlum hins vegar að leggja áherslu á er það að stuðla að uppbyggingu fyrir þann hóp sem minnst hefur á milli handanna. Það eiga allir að hafa öruggt þak yfir höfuðið en aðstæður eru misjafnar og því er alltaf einhver hópur fólks sem á erfitt með að eignast húsnæði eða leigja húsnæði á viðráðanlegan hátt – án aðkomu hins opinbera.
Þau kerfi sem byggð hafa verið upp undir forystu Framsóknar með stofnframlögum ríkisins til óhagnaðardrifinna leigufélaga á borð við Bjarg eða Brák – og hlutdeildarlánum þar sem ríkið leggur tímabundið fjármagn á móti einstaklingum svo hann geti eignast íbúð eru mjög góð og marka tímamót í húsnæðismálum Íslendinga.“

„Þessi kerfi taka vel utan um þann vanda sem margir búa við og munu ekki aðeins hjálpa til við að halda niðri húsnæðiskostnaði heldur einnig koma veg fyrir algjört frost í uppbyggingu íbúða. Við viljum ekki og megum ekki standa hjá aðgerðarlaus og horfa á byggingariðnaðinn fara í frost á sama hátt og gerðist á árunum eftir hrun. Við verðum að láta hjól byggingariðnaðarins ganga áfram svo við upplifum ekki enn meiri skort á húsnæðismarkaði með tilheyrandi verðhækkunum í næstu uppsveiflu á húsnæðismarkaði,“ sagði Sigurður Ingi.

💚💚💚 Vorfundur miðstjórnar Framsóknar var haldinn föstudaginn 2. júní á Grand Hótel Reykjavík. Fundurinn var fjölmennur…

Posted by Framsókn on Mánudagur, 5. júní 2023

Ræða Sigurðar Inga í heild sinni á vorfundi miðstjórnar:

Kæru félagar, Það er ánægjulegt að sjá ykkur svona mörg hér í dag. Ekki skrýtið að sumarið byrji loks á suðvesturhorninu þegar Framsóknarfólk kemur til fundar.

Það eru krefjandi tímar í efnahagsmálum landsins og það sem meira er það eru krefjandi tímar í efnahagsmálum heimsins. Það vill nefnilega oft gleymast í umræðunni að verðbólgan er alþjóðlegt vandamál. Í kjölfar heimsfaraldurs kom innrás rússneska hersins í Úkraínu. Því fylgdi hækkun á aðföngum um allan heim sem síðan leiðir til verðbólgu.

Verðbólgan er því ekki heimatilbúinn vandi eins og mætti skilja af máli margra. Það sem gerir ástandið hins vegar sérstakt hér á landi er hinn mikli hagvöxtur. Hér snúast öll hjól á fullu og fjölmargar greinar í miklum vexti. Hér ríkir þensla. Hér ríkir ekki kreppa eins og í sumum löndum Evrópu þar sem hagvöxtur er lítill og atvinnuleysi mikið. Á Íslandi er atvinnuleysi í lágmarki. Hættan er hinsvegar sú að verðbólgan gæti verið að þróast í þann vonda vítahring vixlverkunar hækkunar launa og verðlags. Þá verðbólgu þekkjum við of vel og vitum að það þarf samstillt átak allra til að losa okkur við.

Það hefur verð mikil eftirspurn eftir vinnuafli og á síðasta ári varð metfjölgun í flutningi fólks til landsins, Það kemur bæði til af fjölda flóttamanna en einnig og ekki síður – vegna þarfar atvinnulífsins fyrir starfsfólk.

Frá því ríkisstjórn Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs tók við árið 2017 hafa lífsgæði aukist á Íslandi. Við höfum fjárfest gríðarlega í uppbyggingu innviða, heilbrigðiskerfinu, menntun, menningu og veitt atvinnulífinu gott umhverfi.

Á þessum tíma hefur líka ýmislegt gengið á. Heimsfaraldur og stríð í Evrópu er ekki eitthvað sem gerist á hverjum degi. Og við höfum komist vel í gegnum þessa sögulegu atburði hér á Íslandi. Við stöndum vel í samanburði við flest lönd. Ríkisstjórnin er skipuð flokkum og fólki sem hefur mikla reynslu og það hefur skipt miklu máli. Hún er skipuð flokkum sem hafa sterk baklönd, skýra stefnu og bærast ekki eins og lauf í vindi. Sá stöðugleiki, það jafnvægi sem fylgir breiðri og öflugri ríkisstjórn skiptir höfuðmáli á erfiðum tímum. Það þarf nefnilega sterk bein til að takast á við bæði uppgang og áföll.

Vextir eru helsta umræðuefnið þessi misserin. Vegna aðstæðna hefur vaxtastigið farið hratt upp á við. Það gerir Seðlabankinn til þess að slá á þá miklu þenslu sem er í samfélaginu. Háir stýrivextir eru sársaukafullir en nauðsynlegir til þess að ná böndum á verðbólguna. Sársaukinn sem háir vextir valda er minni en sársaukinn af langvarandi hárri verðbólgu sem hefur það í för með sér að verðgildi gjaldmiðilsins lækkar stöðugt og kaupmáttur einnig. Við verðum líka að muna að breytilegir vextir hreyfast ekki aðeins upp á við.

Stjórnarandstaðan sækir auðvitað á þegar ríkisstjórn fæst við erfið verkefni. Við erfiðleikum á hún þó yfirleitt aðeins tvær lausnir: ný stjórnarskrá eða göngum í ESB og tökum upp evru. Nú kallar hún á nýjan gjaldmiðil. Talar um fórnarkostnaðinn af sjálfstæðum gjaldmiðli. Ég spyr: Felst að þeirra mati fórnarkostnaður í því að við búum að jafnaði við mun minna atvinnuleysi en aðrar þjóðir? Meira að segja flokkurinn sem segist ekki setja ESB á dagskrá er öflugur í þeirri umræðu að krónan sé ónýt og kerfið sé ónýtt.

Stjórnarandstaðan sem aldrei leggur neitt til nema aukin útgjöld ríkissjóðs fárast nú yfir einhverju sem þau kalla lausatök í ríkisrekstri. Stjórnarandstaðan sem hefur fátt til málanna að leggja nema aukin útgjöld og aukna skattheimtu hrópar nú að ríkisstjórnin sé stefnulaus og verklaus og eru þá að tala um þá ríkisstjórn sem hefur stjórnað frá árinu 2017 og leitt þjóðina í gegnum alls kyns áföll. Stjórnina sem hefur undir forystu Framsóknar lagt áherslu á kerfisbreytingar í málefnum barna og fjölskyldna, aukið framlög til heilbrigðismála svo um munar, lækkað skatta með áherslu á þá sem lægstar tekjur hafa og aukið fjárfestingu í samgöngum verulega.

 Staðreyndin er sú að við búum við einhver bestu lífskjör í heiminum og göngum nú í gegnum erfiðleika, örlítið bakslag. Eftir margra ára hækkun ráðstöfunartekna syrtir tímabundið í álinn. Við slíkar aðstæður er mikilvægt að ríkisstjórnin sé yfirveguð og hlaupi ekki á eftir hverjum þeim sem hæst hrópar þann daginn. Það þarf kjark til að standa í fæturna – sterkt bakland – fylgja skýrri sýn hvert stefnt er en sveiflast ekki með vindinum.

1990 var þjóðarsáttarsamningarnir svokölluðu undirritaðir. Þeir voru gerðir eftir langvarandi óðaverðbólgu á Íslandi. Varla er hægt að bera saman íslenskt samfélag þá og nú. Íslenskt efnahagslíf er öflugt í dag og atvinnulífið mun fjölbreyttara og sterkara. Lífskjör almennings eru mun betri í dag. Þau verkefni sem við stöndum frammi fyrir á Íslandi í dag eru ekki jafn dramatísk og stór og þau sem ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar stóð frammi fyrir árið 1990. Þau verkefni sem við stöndum frammi fyrir kalla samt á yfirvegað samtal og umræður.  Þar þurfa allir að axla ábyrgð og leggja sitt af mörkum.

Stærsta verkefni okkar í dag er húsnæðismarkaðurinn. Við stigum stór skref með stofnun innviðaráðuneytis í átt að meiri yfirsýn, betri rauntímaupplýsinga og þar af leiðandi öflugri tækja ríkisins til að stíga inn og koma í veg fyrir alltof miklar sveiflur á húsnæðismarkaði.

Fyrir tæpu ári náðum við mikilvægum áfanga þegar ég skrifaði fyrir hönd ríkisins undir rammasamkomulag við Samband íslenskra sveitarfélaga sem felur í sér sameiginlega sýn um uppbyggingu húsnæðis. Við höfum lengi og sérstaklega frá hruni búið við miklar verðsveiflur sem meðal annars hafa skapast vegna skorts á byggingarlóðum.

 Rammasamkomulagið og síðar samningur við Reykjavíkurborg – og samningar við önnur 15-20 sveitarfélög eru á lokasprettinum-  felur í sér að bæði ríki og sveitarfélög skuldbinda sig til að stuðla að verulegri uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Sú tala sem nefnd hefur verið er að lágmarki 35 þúsund nýjar íbúðir á tíu árum. Sú áætlun sem var á borðinu mun hnikast til vegna verðbólgunnar enda væri mjög óskynsamlegt að vinna gegn aðgerðum Seðlabankans.

 Það sem við ætlum hins vegar að leggja áherslu á er það að stuðla að uppbyggingu fyrir þann hóp sem minnst hefur á milli handanna. Það eiga allir að hafa öruggt þak yfir höfuðið en aðstæður eru misjafnar og því er alltaf einhver hópur fólks sem á erfitt með að eignast húsnæði eða leigja húsnæði á viðráðanlegan hátt – án aðkomu hins opinbera.

Þau kerfi sem byggð hafa verið upp undir forystu Framsóknar með stofnframlögum ríkisins til óhagnaðardrifinna leigufélaga á borð við Bjarg eða Brák – og hlutdeildarlánum þar sem ríkið leggur tímabundið fjármagn á móti einstaklingum svo hann geti eignast íbúð eru mjög góð og marka tímamót í húsnæðismálum Íslendinga.

Þessi kerfi taka vel utan um þann vanda sem margir búa við og munu ekki aðeins hjálpa til við að halda niðri húsnæðiskostnaði heldur einnig koma veg fyrir algjört frost í uppbyggingu íbúða. Við viljum ekki og megum ekki standa hjá aðgerðarlaus og horfa á byggingariðnaðinn fara í frost á sama hátt og gerðist á árunum eftir hrun. Við verðum að láta hjól byggingariðnaðarins ganga áfram svo við upplifum ekki enn meiri skort á húsnæðismarkaði með tilheyrandi verðhækkunum í næstu uppsveiflu á húsnæðismarkaði.

Sá grunnur sem við í innviðaráðuneytinu höfum unnið að síðustu misserin er mikilvægur liður í því að skapa hér sátt því fátt skiptir einstaklinga og fjölskyldur meira máli en það að húsnæðiskostnaður sé lágur. Til að skapa sátt þarf samtal. Eitt ráðuneyti, ein ríkisstjórn, getur ekki upp á sitt eindæmi skapað sátt í samfélaginu. Aðilar vinnumarkaðarins leika lykilhlutverk í því að skapa sátt. Þess vegna er fátt brýnna en það að forystufólk vinnumarkaðarins og stjórnvöld eigi opið, heiðarlegt og yfirvegað samtal fyrir næstu kjarasamningalotu því sú lota mun ráða miklu um lífsgæði okkar næstu árin.

Kæra Framsóknarfólk.

Við erum nú stödd á miðju kjörtímabili. Allir ráðherrar okkar hafa lagt nótt við dag við að vinna að mikilvægum málum sem varða þjóðina alla. Varaformaðurinn okkar, Lilja Dögg, hefur staðið í ströngu við að skapa framtíðarsýn í ferðaþjónustu og sérstakur stuðningur hefur verið við millilandaflug í gegnum Akureyri og Egilsstaði. Hún hefur lagt sérstaka áherslu á umgjörðina um skapandi greinar sem árið 2021 skilaði 126 milljarða í tekjur. Kvikmyndagerðin er á miklu flugi en veltan í greininni hefur aukist um 85%. Þá hefur Lilja Dögg staðið í stafni í málefnum íslensku tungunnar, ekki síst varðandi máltækni og gervigreind.

Ásmundur Einar hefur haldið áfram sínu góða og öfluga starfi í þágu barna og barnafjölskyldna og tekið fast á málefnum framhaldsskólanna með áherslu á verkmenntun. Við sjáum strax árangurinn af farsældarlögunum í því að viðbragðstími hefur styst og úrlausn mála gengur betur. Ég skrifaði sem innviðaráðherra undir merkilegt samkomulag sem varðar Skálatún og framtíðarsýn um uppbyggingu þjónustu fyrir börn, ungmenni og fjölskyldur í Mosfellsbæ.

 Samkomulag sem Mennta- og barnamálaráðherrann okkar -Ásmundur Einar á allan heiður af.  Blásið hefur verið til sóknar í afreksíþróttum með undirritun samstarfssamnings um stefnumörkun og uppbyggingu afreksíþróttastarfs á Íslandi við Íþrótta- og ólympíusambands Íslands. Þá heldur vinna við þjóðarhöll áfram af fullum krafti.

Heilbrigðisráðherrann okkar, Willum Þór, hefur tekið heilbrigðismálin föstum tökum. Tímamótasamningar um liðskiptaaðgerðir og kviðsjáraðgerðir vegna endómetríósu voru undirritaðir í byrjun árs og afkastageta heilbrigðiskerfisins stóraukin sem leiðir til styttri biðtíma eftir þessari mikilvægu þjónustu. Þá hefur verið samþykkt umfangsmikil aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum. Unnið er að umbótum í bráðaþjónustu um allt land og er fjárfesting í aðbúnaði og tækjum upp á 330 milljónir króna. Þá eru komnar tillögur frá starfshópi heilbrigðisráðherra um leiðir til að jafna aðgengi að sérfræðiþjónustu óháð búsetu og hvernig nýta megi ákvæði um sérstaka ívilnun í lögum um Menntasjóð námsmanna til að skapa hvata fyrir heilbrigðisstarfsfólk til að starfa á landsbyggðinni.

Síðast en ekki síst hefur samningur Sjúkratrygginga um sálfræðiþjónustu sjálfstætt starfandi sálfræðinga verið uppfærður með það að leiðarljósi að auka aðgengi að sálfræðisþjónustu. Samningurinn nær nú til allra aldurshópa og stuðlar að fjölbreyttari þjónustu. Felur samningurinn meðal annars í sér möguleika til að veita fjarheilbrigðisþjónustu.

Í innviðaráðuneytinu hefur megináherslan verið lögð á húsnæðis- og skipulagsmál eins og fram kom í máli mínu hér áðan. Stefnumótun í samgöngum hefur verið unnin og liggur ný samgönguáætlun fyrir þinginu. Nýtt varaflugvallargjald mun gjörbreyta uppbyggingu á flugvöllum um allt land og ný jarðgangaáætlun gerir ráð fyrir allt að 14 jarðgöngum á næstu 30 árum sem mun bylta samgöngum víða um land. Þá liggur fyrir þinginu áætlun í málefnum sveitarfélaga og frumvarp um breytingar á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

Okkar öflugi þingflokkur undir forystu Ingibjargar Isaksen hefur unnið hörðum höndum á þinginu að góðum málum í samstarfi við hina stjórnarflokkanna. Samspil ráðherra okkar við kraftmikinn þingflokk skiptir öllu máli við það að gera hugsjónir okkar og kosningaáherslur að veruleika. Og það gengur vel.

Góðu félagar.

Það skiptir alltaf höfuðmáli fyrir kjörna fulltrúa að eiga öflugt bakland. Gott og gjöfult samtal flokksfólks um allt land er mikil auðlind. Verkefnin sem við stöndum frammi fyrir, bæði á sviði landsmálanna og sveitarfélaganna, eru stór og hvernig þau eru unnin skiptir höfuðmáli. Það sem einkennir okkar góðu Framsókn er hversu samvinnuhugsjónin er inngróin í líf okkar og vinnu. Sú hugsjón veitir okkur bæði yfirvegun og hugrekki til að leggja okkar af mörkum til að bæta íslenskt samfélag. Vinnusemi og samvinnan gerir okkur bæði eftirsóknarverð til forystu sem og samstarfs við aðra.

Ég vil að lokum þakka ykkur öllum fyrir gott samstarf í vetur og megið þið öll njóta hins íslenska sumars.

„“