Categories
Fréttir

Stafræn þróun má ekki skipta landsmönnum í tvennt !

„Enda þótt við búum við sterka innviði og átak í stafrænni stjórnsýslu sýni mjög góðan árangur gefa alþjóðlegar greiningar og rannsóknir til kynna að Ísland standi að mörgu leyti illa þegar kemur að stafrænni þróun og þá ekki síst ef tekið er mið af stöðu okkar helstu samanburðarríkja. Á það ekki síst við þegar kemur að atvinnulífi, vinnumarkaði og stafrænni hæfni almennings. Íslensk fyrirtæki og almenningur eru ekki nægilega meðvituð og undirbúin undir þær breytingar sem fjórða iðnbyltingin hefur í för með sér. Skortur á stafrænni hæfni getur hæglega framkallað samfélagslegan ójöfnuð,“ sagði Silja Dögg í færslu á Facebook.

Deila grein

27/01/2021

Stafræn þróun má ekki skipta landsmönnum í tvennt !

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um „stefnumótun á sviði stafrænnar þróunar“ til afgreiðslu á Alþingi.

„Enda þótt við búum við sterka innviði og átak í stafrænni stjórnsýslu sýni mjög góðan árangur gefa alþjóðlegar greiningar og rannsóknir til kynna að Ísland standi að mörgu leyti illa þegar kemur að stafrænni þróun og þá ekki síst ef tekið er mið af stöðu okkar helstu samanburðarríkja. Á það ekki síst við þegar kemur að atvinnulífi, vinnumarkaði og stafrænni hæfni almennings. Íslensk fyrirtæki og almenningur eru ekki nægilega meðvituð og undirbúin undir þær breytingar sem fjórða iðnbyltingin hefur í för með sér. Skortur á stafrænni hæfni getur hæglega framkallað samfélagslegan ójöfnuð,“ sagði Silja Dögg í færslu á Facebook.

Tillögugreinin hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að skipa starfshóp sem fái það hlutverk að móta heildstæða stefnu um stafræna þróun með aðgerðaáætlun til fimm ára hið skemmsta. Markmiðið verði:

a. að móta framtíðarsýn stafrænnar þróunar á Íslandi og aðgerðatillögur um hvernig megi efla stafræna þróun innan fyrirtækja, með áherslu á lítil og meðalstór fyrirtæki, efla stafræna hæfni á vinnumarkaði, efla stafræna þróun í rannsóknum, nýsköpun og frumkvöðlastarfi og efla stafræna hæfni á öllum skólastigum, og þar á meðal í sí- og endurmenntun,

b. að leggja áherslu á netöryggismál, gagnaaðgengi og nýtingu gagna, viðeigandi lög og stjórnvaldsfyrirmæli, hvort sem snýr að atvinnulífinu eða hinu opinbera, stafrænt stjórnkerfi, stafræna innviði, gervigreind, íslensku í stafrænum heimi, hvernig betur megi grípa þau tækifæri sem stafræn þróun hefur í för með sér og hvernig lágmarka má neikvæðar afleiðingar stafrænnar þróunar.

Forsætisráðherra skili skýrslu til Alþingis með niðurstöðum starfshóps í lok maí 2021.

„Notkun veraldarvefsins og stafrænnar tækni fjórðu iðnbyltingarinnar breytir heiminum. Hún hefur víðtæk áhrif á hagkerfi nútímans og verður samfélögum sífellt mikilvægari. Þessi þróun er óumflýjanleg og mannkyninu gagnleg og getur skapað gríðarleg verðmæti. Í slíkri þróun felast í senn mikil tækifæri og hættur og því er gífurlega mikilvægt að undir hana séum við búin. Sú hætta kann að raungerast að stafræn þróun skipti landsmönnum í tvennt, þ.e. í þá sem hafa þekkingu og getu til að hagnýta stafræna tækni og þá sem það geta ekki. Á alþjóðavettvangi er mikil áhersla lögð á verðmætasköpun og ávinning af hagnýtingu stafrænnar tækni. Er þannig hafið kapphlaup sem þjóðríki, sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklingar verða að taka þátt í ætli þau að vera samkeppnishæf og tryggja lífsgæði.

Samkeppnishæfni Íslands.

Enda þótt við búum við sterka innviði og átak í stafrænni stjórnsýslu sýni mjög góðan árangur gefa alþjóðlegar greiningar og rannsóknir til kynna að Ísland standi að mörgu leyti illa þegar kemur að stafrænni þróun og þá ekki síst ef tekið er mið af stöðu okkar helstu samanburðarríkja. Á það ekki síst við þegar kemur að atvinnulífi, vinnumarkaði og stafrænni hæfni almennings. Íslensk fyrirtæki og almenningur eru ekki nægilega meðvituð og undirbúin undir þær breytingar sem fjórða iðnbyltingin hefur í för með sér. Almenningur gegnir fyrst og fremst hlutverki neytenda stafrænnar tækni. Nauðsynlegt er að bæta tækni- og upplýsingalæsi og efla frumkvæði þegar kemur að nýtingu stafrænnar tækni til framþróunar og sköpunar. Ef svo fer fram sem horfir mun staða okkar draga úr samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og þjóðarinnar allrar. Skortur á stafrænni hæfni getur hæglega framkallað samfélagslegan ójöfnuð.

Samstarf innan Norðurlanda.

Önnur Norðurlönd standa mun framar en Ísland þegar að stafrænni umbreytingu kemur en þau ríki lenda jafnan mjög ofarlega í öllum samanburði. Ísland hefur tækifæri til að líta til reynslu þeirra, t.d. í norrænu samstarfi. Þegar hefur samstarf á ýmsum sviðum litið dagsins ljós, eins og Framkvæmdaáætlun Norðurlandaráðs 2021–2024, um Norðurlöndin sem sjálfbærasta og samþættasta svæði í heimi, og Ráðherrayfirlýsingin Digital North 2.0 bera með sér. Annars staðar á Norðurlöndum hefur jafnframt verið unnin heildstæð stafræn stefna, sem Ísland getur litið til. Má þar sérstaklega benda á stefnur Dana, Norðmanna og Svía, en í Finnlandi eru slík málefni í raun samofin annarri stefnumótun. Við vinnuna mætti líta til reynslu Norðurlandaþjóðanna og annarra minni þjóða sem lengst eru komnar í mótun stafrænnar stefnu, svo sem Hollands og Írlands.

Stafræn tækni og efnahagsmál.

Stafræn þróun og þróun í átt til aukinnar sjálfbærni eru umfangsmestu breytingarnar sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir. Góð nýting stafrænnar tækni getur m.a. aukið framleiðni, hvatt til nýsköpunar, bætt þjónustu, einfaldað þátttöku í samfélaginu, skapað störf, bætt lífsgæði, aukið lífslíkur og haft jákvæð áhrif á hagvöxt. Aukin færni og þekking á stafrænni tækni hefur þannig í för með sér fjölbreyttan ávinning. Hagnýting stafrænnar tækni getur aukið efnahagslega samkeppnishæfni og leikið lykilhlutverk í umhverfismálum og leikur lykilhlutverk í framgangi heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna sem Ísland hefur skuldbundið sig til að vinna að. Efling stafrænnar hæfni og nýting stafrænnar tækni er jafnframt talin ein besta leiðin til að koma efnahagskerfi heimsins út úr þeirri kreppu sem kórónuveirufaraldurinn hefur valdið.

Stefna stjórnvalda.

Stjórnvöld gera sér grein fyrir mikilvægi þess að bregðast við þeim áskorunum sem fjórða iðnbyltingin hefur í för með sér og að nýta þau tækifæri sem hún býður upp á. Þetta má m.a. leiða af umfjöllun í skýrslu forsætisráðuneytisins um fjórðu iðnbyltinguna og aðgerðaáætlun í kjölfar hennar, nýsköpunarstefnunni, Vísinda- og tæknistefnu 2020–2022, en ekki síður í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem kemur m.a. fram að lögð verði áhersla á að Ísland búi sig undir að mæta þeim áskorunum og nýta þau tækifæri sem felast í sífellt örari tæknibreytingum.

Þrátt fyrir að stjórnvöld geri sér grein fyrir mikilvægi málefnisins og mikil og góð vinna hafi þegar verið unnin á ýmsum sviðum, svo sem í rafrænni stjórnsýslu, með máltæknistefnu, norrænu samstarfi þar sem stafræn tækni leikur lykilhlutverk, stefnumótun um gervigreind og tillögum að aðgerðum tengdum fjórðu iðnbyltingunni, þarf að líta heildstæðar á stafræna þróun og þá hæfni sem til þarf eigi Ísland að geta viðhaldið samkeppnishæfni sinni og lífsgæðum. Ljóst er að stafræn þróun hefur áhrif um allt samfélagið og ekkert er henni óviðkomandi. Því er nauðsynlegt að tryggja yfirsýn og samræmingu allra aðgerða helstu hagaðila til að nýta megi samlegðaráhrif til fullnustu, tryggja þekkingaryfirfærslu, koma í veg fyrir tvíverknað og tryggja að ekkert gleymist í þessari mikilvægu vinnu. Í dag vantar m.a. mikið upp á að til staðar séu skýr stefna og aðgerðir varðandi stuðning við fyrirtæki í stafrænni umbreytingu, eflingu stafrænnar hæfni á vinnumarkaði og að efling stafrænnar hæfni sé skýrt og markvisst fram sett í menntastefnu og aðgerðum í menntamálum. Hins vegar má sjá allt þetta skýrt sett fram í fjölmörgum stefnum og aðgerðaáætlunum þeirra landa sem við helst berum okkur saman við, svo sem Norðurlandanna. og í löndum sem vel hentar að líta til og læra af í þessum málum, svo sem í Hollandi og Írlandi.

Hvetja þarf og styðja stjórnvöld, sveitarfélög, menntakerfið, atvinnulífið og launþega til að grípa til skjótra, öflugra og markvissra aðgerða í þeim tilgangi að efla stafræna þekkingu og færni og auka þannig tækifæri til nýtingar stafrænnar tækni í íslensku atvinnulífi og samfélaginu í heild. Að öðrum kosti er hætt við að Ísland dragist aftur úr helstu samanburðarríkjum þegar að stafrænni þróun kemur, standi höllum fæti í alþjóðlegri samkeppni og að almenningur muni því búa við minni lífsgæði. Þetta verður best gert með öflugu samstarfi allra hagaðila, þvert á atvinnugreinar, jafnt í hinu opinbera sem einkageiranum. Flutningsmenn leggja áherslu á mikilvægi þess að unnið verði markvisst að samstarfi og stefnumótun á sviði stafrænnar þróunar svo tryggja megi áframhaldandi samkeppnishæfni landsins og lífsgæði.“