Categories
Fréttir

Stjórnmálaályktun 18. Kjördæmisþings Framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi (KFNA)

Deila grein

21/10/2018

Stjórnmálaályktun 18. Kjördæmisþings Framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi (KFNA)

18. Kjördæmisþing Framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi, haldið á Fljótsdalshéraði þann 20. október 2018, telur brýnt  að áfram verði unnið með stöðugleika, traust og jöfnuð í fyrirrúmi til framtíðar, landi og þjóð til heilla.
Þingið leggur áherslu á að nýrri og metnaðarfyllri byggðaáætlun verði fylgt eftir af fullum þunga og áhersla verði lögð á jöfnuð óháð búsetu. Jafnaður verði húshitunarkostnaður landsmanna og byggð verði upp traust heilbrigðisþjónusta. Standa verður vörð um starfsemi sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana í kjördæminu og stórauka þarf fjölda hjúkrunarrýma og tryggja fjármuni til reksturs þeirra. Þá verður að gera stórátak í geðheilbrigðismálum um land allt til að hlú að þeim sem slíka þjónustu þurfa.
Um leið og þingið fagnar því að búið sé að leggja fram fullfjármagnaða samgönguáætlun þá minnir það á þá miklu þörf sem er í kjördæminu fyrir bættum samgöngum til að rjúfa vetrareinangrun byggðarlaga og styrkja atvinnusvæði innan þess. Því hvetur þingið til þess að leitað verði allra leiða til að flýta sem mest brýnum slíkum verkefnum sem bíða og hefur verið raðað aftar á samgönguáætlun.
Þingið fagnar forystu framsóknar í menntamálum enda er sá málaflokkur ein mikilvægasta stoð samfélagsins. Í þeim efnum minnir þingið á nauðsyn þess að efla hlut iðn- og tæknigreina í menntakerfinu. Þá er brýnt að standa vörð um tungumálið okkar og auka lestur ungmennna.
Þingið lýsir yfir ánægju sinni með þá vinnu sem félagsmálaráðráðherra hefur hafið í húsnæðismálum á landsbyggðinni þar sem meðal annars er horft til þess markaðsbrest sem víða er. Er mikilvægt að þeirri vinnu ljúki sem fyrst.
Þá leggur þingið áherslu á það að atvinnuuppbygging um land allt geti þrifist innan þess regluverks sem gildandi er og ekki sé hægt leggja stein í götu slíkrar uppbyggingar með flækjustigum og óskýrum lagabókstöfum eins og til að mynda í fiskeldi. Regluverk atvinnulífsins þarf að vera einfalt, heilbrigt og skýrt til að uppbygging geti átt sér stað um land allt.
Þingið hvetur ráðherra og ríkisstjórn í samvinnu við verkalýðshreyfinguna að leiða til lykta farsæla lausnir í komandi kjarasamningum sem treysta mun efnahag og hagsæld landsins með jöfnuð og félagshyggju í forgrunni.
Þá minnir þingið á mikilvægi íslensks landbúnaðar fyrir samfélagið allt og þá miklu þörf sem er fyrir aðgerðir af hálfu ríkisvaldsins til að mæta þeim tímbundnu erfiðleikum sem að landbúnaðinum steðja. Þar þarf framsóknarflokkurinn að stíga fast til jarðar og leiða slíka vinnu. Ekki þarf að fjölyrða neitt um nauðsyn matvælaöryggis fyrir þjóðina og er landbúnaðurinn ein af grunnstoðum í því. Þá þarf að ljúka vinnu við regluverk um eignarhald á bújörðum og stefnu í málefnum ríkisjarða. Þessi mál þola enga bið og hafa þarf hagsmuni bænda að leiðarljósi við hana.
Þá leggur þingið þunga áherslu á að fjölgað verði innkomuleiðum ferðamanna inn í landið með frekari uppbyggingu millilandaflugvalla kjördæmisins, Akureyri og Egilsstöðum, þannig að þeir geti sinnt hlutverki sínu. Isavia verði gerð eigandastefna með þetta í huga þannig að jafnræði sé gætt milli millilandaflugvalla landsins. Þá verði hin svokallaða „Skoska leið“ innleidd þannig að flugsamgöngur á landsbyggðinni geti gengt hlutverki sínu sem almenningssamgöngur sem þær sannarlegu eru fyrir þá sem lengst búa frá höfuðborginni.
***
18. Kjördæmisþing KFNA, haldið á Egilsstöðum þann 20. október 2018, fagnar auknu fjármagni til vegamála í tillögu að samgönguáætlun, en harmar að framkvæmdir við Fjarðarheiðargöng skuli ekki vera á framkvæmdaáætlun næstu fimm ára og skorar á þingmenn Framsóknarflokksins að sjá til þess að því verði breytt.