Categories
Fréttir

Stjórnmálaályktun framsóknarfélaganna í Norðausturkjördæmi (KFNA)

Deila grein

26/10/2014

Stjórnmálaályktun framsóknarfélaganna í Norðausturkjördæmi (KFNA)

logo-framsokn-gluggiKjördæmisþing Framsóknarfélaganna í Norðausturkjördæmi haldið á Hallormsstað 18. október 2014 fagnar þeim árangri sem ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hefur náð í ríkisrekstri frá því að stjórn hans tók við. Mælikvarðar sem stuðst er við, til að vega og meta hagsæld þjóða, stefna upp á við. Það er ekki tilviljun. Þeirri stöðu hefur verið náð undir forystu Framsóknarflokksins sem hefur haldið fast í gildi sín sem frjálslyndur félagshyggjuflokkur.

 • Þingið leggur áherslu á að við afgreiðslu fjárlaga verði þess gætt að fyrirhugaðar skattabreytingar auki kaupmátt, lækki almennt verðlag og bæti sérstaklega stöðu lág- og millitekjuhópa.
 • Þingið leggur áherslu á að framfylgja stefnu Framsóknarflokksins í byggðamálum.
 • Þingið mótmælir öllum hugmyndum um tilflutning Reykjavíkurflugvallar úr Vatnsmýrinni. Núverandi staðsetning hans er eitt stærsta byggðamál samtímans og er grundvallarforsenda þess að Reykjavík sé höfuðborg landsins alls.
 • Tryggja verður fjármuni í viðhald smærri flugvalla.
 • Þingið styður flutning aðalstöðva Fiskistofu til Akureyrar. Þingið hvetur ríkisstjórnina til að flytja fleiri störf á vegum hins opinbera í landsbyggðirnar.
 • Þingið leggur áherslu á að góðar samgöngur eru grunnur að allri samfélagsþróun í kjördæminu og hvetur til aukinna framkvæmda á því sviði. Ástand fjarskiptamála er víða í algjörum ólestri. Þingið leggur áherslu á að sú vinna sem nú stendur yfir á vegum ríkisstjórnarinnar skili úrbótum sem allra fyrst.
 • Trygg raforka og aðgangur að öruggu háhraða netsambandi eru mikilvægar forsendur á þessu sviði. Mikilvægt er að litið verði á innanlandsflug sem einn lið í almenningssamgöngum og brýnt að tryggja rekstraröryggi þess til framtíðar. Jafnframt þarf að halda áfram að þróa almenningssamgöngur á landi.
 • Það er verulegt áhyggjuefni hve litlu fjármagni hefur verið varið til viðhalds á vegakerfinu til fjölda ára. Viðhald og endurbætur malarvega í kjördæminu er sérlega brýnt, ásamt áframhaldandi uppbyggingu vegakerfisins. Þær stórframkvæmdir sem nú standa yfir við Norðfjarðar- og Vaðlaheiðargöng eru fagnaðarefni. Nauðsynlegt er að halda áfram undirbúningsrannsóknum fyrir göng undir Fjarðarheiði annars vegar og endurbótum á Ólafsfjarðargöngum hins vegar.
 • Mikilvægt er að opna Ísland betur fyrir ferðamönnum og skapa aukinn grundvöll fyrir vöxt í ferðaþjónustu. Liður í því er að opna fleiri gáttir inn í landið s.s. með eflingu Akureyrar- og Egilsstaðaflugvalla.
 • Þingið leggur árherslu á trausta heilbrigðisþjónustu óháð búsetu. Standa þarf vörð um starfsemi sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana í kjördæminu með áherslu á heilsugæslu- og heimaþjónustu.
 • Mikilvægt er að unnið verði markvisst að áætlun um uppbyggingu hjúkrunarrýma og þróun öldrunarþjónustu sem taki mið af aðstæðum á hverjum stað.
 • Þingið leggur áherslu á að Háskólinn á Akureyri haldi sjálfstæði sínu og fjárhagslegum styrk til að þjóna hlutverki sínu. Samhliða flutningi aðalstöðva Fiskistofu til Akureyrar gefst kostur á eflingu sjávarútvegsdeildar Háskólans. Jafnframt verði hugað að því að hefja kennslu í dreifbýlislækningum við Háskólann sem lið í eflingu heilbrigðisdeildar.
 • Þingið leggur áherslu á mikilvægi framhaldsskóla fyrir þróun samfélagsins. Jafnframt er bent á nauðsyn öflugrar iðn- og verkmenntunar í ljósi vaxandi umsvifa í kjördæminu og á Norðurslóðum. Þingið lýsir yfir miklum áhyggjum, komi til aldurstakmarkana í framhaldsskólum og leggur þunga áherslu á sérstöðu og sjálfstæði smærri framhaldsskóla í kjördæminu sem lið í jafnrétti til búsetu.
 • Þingið undirstrikar stefnu flokksins um mikilvægt hlutverk LÍN til að tryggja jafna möguleika til náms óháð efnahag og búsetu.
 • Þingið undirstrikar mikilvægi öflugrar atvinnuþróunar og nýsköpunar. Mikilvægt er að fjármunir sem ætlaðir eru til þessara verkefna nýtist sem best.

*****

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.