Categories
Fréttir

Stjórnmálaályktun Suðvesturkjördæmis

Deila grein

15/11/2016

Stjórnmálaályktun Suðvesturkjördæmis

logo-framsokn-gluggiKjördæmisþing Framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi, haldið í Kópavogi 13. nóvember 2016 ályktar eftirfarandi:
Árangur í efnahagsmálum
Kjördæmisþingið lýsir ánægju með hinn mikla árangur sem náðist í efnahagsmálum á síðasta kjörtímabili, ekki síst í lækkun skulda einstaklinga og þjóðarbúsins. Skuldir heimilanna hafa ekki verið lægri síðan árið 2003.
Kaupmáttur launa hefur hækkað um rúmlega 20% á kjörtímabilinu og hefur aldrei verið meiri. Störfum hefur fjölgað um rúmlega 15.000 og atvinnuleysi er með lægsta móti. Fólkið í landinu mun senn njóta að fullu losunar haftanna.
Framsóknarflokkurinn vill að millistéttin og hinir tekjulægri hafi meira á milli handanna. Neðsta skattþrep verði lækkað verulega og skattkerfið verði vinnuhvetjandi.
Mikill árangur í húsnæðismálum
Kjördæmisþingið fagnar þeim árangri sem náðst hefur í húsnæðismálum á kjörtímabilinu. Samþykkt hafa verið ný lög um almennar íbúðir, lög um húsnæðisbætur, lög um húsnæðissamvinnufélög, lög um fasteignalán, húsaleigulög og lög um Fyrstu fasteign. Þá hefur átt sér stað algjör viðsnúningur í rekstri Íbúðalánasjóðs sem gerir hann reiðubúinn að takast á við öll þau verkefni sem honum hafa verið falin.
Mikill árangur er af Leiðréttingunni þar sem skuldir heimilanna eru nú með því lægsta sem þekkist á Norðurlöndunum. Fyrsta fasteign er rökrétt framhald af Leiðréttingunni. Aðgerðin auðveldar fólki að eignast þak yfir höfuðið og hvetur til töku óverðtryggðra lána.
Fyrstu skrefin í afnámi verðtryggingar hafa verið stigin í samræmi við tillögur verðtryggingarnefndar og húsnæðisöryggi landsmanna aukið til framtíðar.
Risaskref í þágu lífeyrisþega
Kjördæmisþingið lýsir yfir ánægju með samþykkt nýrra laga um almannatryggingar þar sem lífeyrir var hækkaður verulega. Lífeyriskerfi aldraðra var einfaldað, sveigjanleiki aukinn, skerðing krónu á móti krónu afnumin og lágmarkslífeyrir til samræmis við lágmarkslaun á vinnumarkaði.
Mikilvægt er að heildarendurskoðuninni verði lokið á kjörtímabilinu í þágu allra lífeyrisþega.
Efling opinberrar þjónustu
Innviðir samfélagsins og opinber þjónusta urðu fyrir skakkaföllum í kjölfar hrunsins árið 2008. Nú, þegar tekist hefur að reisa við fjárhag ríkisins, þarf að leggja mikla áherslu á eflingu opinberrar þjónustu. Einkum á þetta við um heilbrigðisþjónustu, menntakerfið og löggæslu.
Kjördæmisþingið lýsir vilja til þess að nýr Landspítali verði byggður á Vífilsstöðum.
Samgöngumál
Vegakerfið hefur látið á sjá síðustu ár og kemur þar aðallega tvennt til, annars vegar afleiðingar hrunsins og hins vegar aukin umferð vegna mikils hagvaxtar og fjölgunar ferðamanna. Gera þarf átak til að bæta vegakerfið, enda eru slíkar umbætur mjög arðsamar.
Sérstaka áherslu þarf að leggja á samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu, en vandræðaástand hefur skapast vegna vanrækslu sveitarstjórna þar, við skipulagningu og uppbyggingu samgönguæða. Segja má að sumar mikilvægustu samgönguæðar séu nánast ófærar klukkutímum saman á degi hverjum. Miklar umferðartafir valda ómældum kostnaði í þjóðfélaginu og gífurlegri mengun vegna bifreiða sem komast vart áfram og menga því margfalt meira en eðlilegt væri. Á þetta ekki síst við um Hringbraut og Miklubraut sem leiðir til efasemda um skynsemi þeirrar ákvörðunar að byggja nýjan Landspítala þar.
Kjördæmisþingið leggur mikla áherslu á að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í Vatnsmýrinni og bendir í því sambandi á skyldur Reykjavíkurborgar sem höfuðborgar við landsmenn, að hún segi sig ekki frá höfuðborgarhlutverkinu með því að þrengja að flugvellinum eða loka honum.
Umhverfismál
Leggja þarf kapp á aðgerðir til að uppfylla fyrirheit Íslands um aðgerðir í loftslagsmálum. Í því skyni þarf m.a. að flýta rafbílavæðingu og bæta dreifingu rafmagns um landið, bæði til að gera rafbíla nýtilega um allt land og einnig til að geta boðið skipum í höfn upp á rafmagn frá landi.