Categories
Fréttir

Stjórnmálin hafa farið fram úr almenningi – verðum að stoppa hér

Deila grein

25/11/2018

Stjórnmálin hafa farið fram úr almenningi – verðum að stoppa hér

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar ræddi þriðja orkupakkann við Heimi Má Pétursson, fréttamann, í þættinum Víglínan á Stöð 2, á laugardaginn.
Sjá nánar: Víglínan á Stöð 2
Fram kom á fundi miðstjórnar Framsóknar mikil umræða um þriðja orkupakka Evrópusambandsins. Löggjöfin hefur m.a. verið gagnrýnd með þeim orðum að upptaka hans hér myndi fela í sér valdaframsal til erlendra stofnana umfram það sem stjórnarskráin heimilar.
Miðstjórnin ákvað að álykta sérstaklega um þriðja orkupakkan á fundi sínum að Smyrlabjörgum í Suðursveit á dögunum:

Orkuauðlindin er ein af mikilvægustu forsendum velmegunar í landinu. Miðstjórn Framsóknarflokksins áréttar mikilvægi þess að allar ákvarðanir í orkumálum verði í höndum Íslendinga og minnir á að stjórnarskrá Íslands leyfir ekki framsal ríkisvalds til erlendra stofnana. Aðstæður Íslands í orkumálum eru gjörólíkar þeim sem liggja til grundvallar orkulöggjöf ESB og því er óskynsamlegt að innleiða það regluverk hér. Auk þess hefur Ísland enga tengingu við orkumarkað ESB og Framsóknarflokkurinn telur slíka tengingu ekki þjóna hagsmunum landsmanna. Því skal fá undanþágu frá innleiðingu þriðja orkupakkans.

„Við fengum strax í upphafi ýmsar undanþágur í orkusamningnum og satt best að segja er að við skiptum upp fyrirtækjunum þá gengum við lengra en nauðsynlegt var kveðið á um í tilskipuninni,“ sagði Sigurður Ingi.
Sigurður Ingi vill fá undanþágu frá þriðja orkupakkanum með fyrirvara um framhaldið. Hann yrði um að Ísland undirgangist ekki ákvæði um sameiginlegan orkumarkað Evrópu fyrr en og ef Íslendingar ákveddu einhvern tímann í framtíðinni að þeir vildu tengjast Evrópu með sæstreng.
„Það er engin spurning í mínum huga að EES-samningurinn hefur verið Íslandi ákaflega hagfelldur,“ sagði Sigurður Ingi. Það hefði birst í viðskiptum og margvíslegum öðrum ávinningi. Hann sagði að sífellt hefði orðið erfiðara að innleiða reglur ESB í EES-samninginn vegna minnkandi áherslu ESB á tveggja stoða kerfi EES-samningsins, margt hefði verið samþykkt þó að það byggði aðeins á einni stoð, Evrópusambandinu.
Sigurður Ingi segir mikinn mun á íslenskum og erlendum orkumarkaði. Hér væru orkufyrirtæki flest í opinberri eigu og orka ein sú ódýrasta sem völ væri á. Hann sagðist á sínum tíma hafa spurt sig hvers vegna Íslendingar hefðu gengið lengra í að aðskilja orkuvinnslu og dreifingu en flestar þjóðir Evrópu, og það þrátt fyrir að Ísland væri ekki hluti af orkumarkaði Evrópu sem orkupakkar Evrópusambandsins snúist um.
Reynslan sýnir að orkuverð hefði lækkað en dreifingarkostnaður hækkað.