Categories
Fréttir

Almannahagsmunir að styrkja samfélög og tapa ekki eignarhaldi á auðlindum

Deila grein

24/11/2018

Almannahagsmunir að styrkja samfélög og tapa ekki eignarhaldi á auðlindum

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, kom inn á heitt mál í þjóðfélagsumræðunni í sérstökum umræðum á Alþingi á dögunum. En eignarhald á bújöðrum í höndum erlendra aðila hefur skapað áhyggjur af því að Íslendingar séu með andvaraleysi að tapa eignarhaldi á auðlindum á landi.
Verðmæti í ræktun, húsnæði og fleiru tapast er jörð fer í eyði, sveitarfélagið og samfélagið sjálft stendur eftir veikara, eignarhald, ráðstöfunarréttur og ábyrgð á landi verður óljós. Bújarðir á Íslandi eru nú 6.000-7.000 og hefur ásókn fólks sem ekki er búsett á Íslandi eftir eignarhaldi á jörðum aukist á síðustu árum. Við það hafa vaknað spurningar um eignasöfnun á fárra hendur og vandi komið upp vegna óþekkts og óljóss fyrirsvars jarða.
Áhrif á ráðstöfun lands er í höndum stjórnvalda og geta til þess beitt ýmsum tækjum. „Ég álít allt land vera auðlind, landið sjálft, jarðveginn og gróðurinn sem þar þrífst. Sumt land nýtist til matvælaframleiðslu, annað til útivistar og auk þess geta fylgt landi önnur gæði sem enn auka verðmæti þess, t.d. veiði og vatnsréttindi. Meðferð og notkun alls lands skiptir alla landsmenn máli, bæði nú og til framtíðar. Það felast miklir almannahagsmunir í ráðstöfun og meðferð lands og því geta ekki gilt sömu reglur um kaup og sölu á landi eins og á hverri annarri fasteign,“ sagði Líneik Anna.
Hugmyndir að ráðstöfunum stjórnvalda:

  • Að lögfesta búsetuskilyrði,
  • setja skilyrði um nýtingu lands í landbúnaðarnotum,
  • takmarkanir á stærð eða fjölda fasteigna í eigu sama aðila,
  • fyrirframsamþykki opinberra aðila fyrir eignaskiptum og að unnin verði hlutlæg viðmið fyrir slíka ákvarðanatöku, verðstýringarheimildir og skýrari reglur um fyrirsvar.

„Sú leið sem ég tel fært að ganga beint í að festa í lög eða reglugerð eru skilyrði um að einstaklingar sem öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir landi í landbúnaðarnotum skuli hafa lögheimili hér á landi eða hafa haft það áður í tiltekinn tíma. Ég tel að slíkar takmarkanir eigi ekki að vera bundnar við land í landbúnaðarnotum, heldur ná yfir allt land“, sagði Líneik Anna.
Stjórnvöld og almenningur hafa áhrif á landnýtingu í gegnum skipulagsáætlanir sveitarfélaga og „sveitarfélög geta skilgreint landbúnaðarland sem halda skal í ræktanlegu ástandi og líka jarðir þar sem heilsársbúseta telst æskileg og geta þar komið inn fleiri sjónarmið en nýting til landbúnaðar, svo sem styrking samfélaga, öryggissjónarmið, eftirlit lands, eftirlit minja og náttúruvernd. Bætt skráning landeigna er líka forsenda þess að hægt verði að beita stjórntækjum við markvissa ráðstöfun“, sagði Líneik Anna.