Categories
Fréttir

„Stór skref til að gera okkar góða samfélag enn betra“

Deila grein

11/09/2015

„Stór skref til að gera okkar góða samfélag enn betra“

Eygló Harðardóttir„Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Stefna núverandi ríkisstjórnar, ríkisstjórnar heimilanna, snýst ekki bara um sum heimili, hún snýst um öll heimili. Það endurspeglast skýrt í fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram á Alþingi í dag. Í þriðja sinn eru lögð fram hallalaus fjárlög með verulegum afgangi um leið og við lækkum skatta og aukum framlög til velferðarmála þannig að fjárveiting til þeirra hefur nær aldrei verið jafnmikil. Kjör allra munu batna en þó umfram allt kjör millitekju – og lágtekjufólks. Ungir sem aldnir, heilbrigðir sem sjúkir munu hafa það betra.
Bætur almannatrygginga og atvinnuleysisbætur hækka um 9,4% samkvæmt frumvarpinu á næsta ári eða um samtals 9,6 milljarða kr. Ef að auki er litið til þeirra hækkana bóta sem hafa komið til í ársbyrjun 2014 og 2015 nemur uppsöfnuð hækkun bóta til ársins 2016 16,6%. Því er spáð að uppsöfnuð verðbólga yfir sama tímabil verði 8,7% og samkvæmt því er ljóst að kaupmáttur bótanna hefur aukist verulega.
Eins og ég sagði þá snýst stefna núverandi ríkisstjórnar, ríkisstjórnar heimilanna, ekki bara um sum heimili, hún snýst um öll heimili. Hún snýst um fjölskylduna um sem við þekkjum svo vel, fjölskylduna sem við kannski sjálf erum, barnafjölskyldan á verkamannakaupi sem flakkað hefur á milli leiguíbúða með tilheyrandi kostnaði og álagi síðustu árin þar sem langtímaleiga er orð sem varla þekkist á íslenskum leigumarkaði. Hún snýst um einstæðu móðurina á örorkubótum með tvö börn sem býr í 50 fermetra íbúð í kjallara og hefur ekki efni á að flytja vegna hás leiguverðs eða einfaldlega vegna þess að íbúðin finnst ekki. Um námsmanninn sem þakkar fyrir að fá að leigja hluta af bílskúr frænku sinnar þar sem allt er einfaldlega fullt á stúdentagörðunum fyrir löngu síðan eða unga parið sem dreymir um að stofna sitt fyrsta heimili og veltir fyrir sér hvernig það eigi eiginlega að ná að safna fyrir útborgun í litla íbúð. Eða bara um gömlu konuna sem stendur frammi fyrir því enn á ný að vera að missa íbúðina og þurfa að horfa fram á það að þurfa að taka rúm barnabarnanna enn á ný eftir að hafa misst húsnæði sitt.
Í húsnæðisfrumvörpum ríkisstjórnarinnar, sem lögð verða fram á þessu þingi, kristallast þessar áherslur ríkisstjórnarinnar á öll heimili, ekki bara sum. Þær snúa að breyttum veruleika íslenskra heimila þar sem skuldaleiðrétting ríkisstjórnarinnar hefur skilað verulegum árangri fyrir þau heimili sem eiga sitt eigið húsnæði. Þær snúa að þeirri staðreynd að tæpur þriðjungur íslenskra heimila býr nú í leiguhúsnæði og að kostnaður fjölskyldna á leigumarkaðinum hefur hækkað verulega á síðustu árum á meðan húsnæðiskostnaður fólks sem býr í eigin húsnæði hefur lækkað.
Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um húsnæðismál, í tengslum við kjarasamninga í lok maí sl., kemur fram að ráðist verði í byggingu allt að því 2.300 félagslegra leiguíbúða á árunum 2016–2019. Til að gera sér grein fyrir umfangi þessa átaks var lokið við tæplega 1.200 íbúðir á landinu öllu árið 2014. Við munum fjármagna byggingu íbúðanna með stofnframlögum ríkis og sveitarfélaga og með beinum vaxtaniðurgreiðslum ríkisins sem nema núvirt um 30% af stofnkostnaði og er gert ráð fyrir 1,5 milljörðum kr. í stofnframlög í fjárlagafrumvarpinu.
Sameiginleg framlög ríkis og sveitarfélaga, ásamt auknum stuðningi um hækkun bóta til leigjenda á árunum 2016–2017, eiga að leiða til þess að leiga einstaklings með lágar tekjur nemi ekki hærra hlutfalli en 20–25% af tekjum. Það er þannig að langflestir stíga einmitt sín fyrstu skref af húsnæðismarkaðinum í leiguhúsnæði. Í framhaldi af því er oftast næsta skref að kaupa sítt eigin húsnæði og fjármagna kaupin með sparifé, aðstoð ættingja eða lántökum. Í mínum huga er forsenda fyrir stöðugleika á húsnæðismarkaði, og því að ungt fólk geti eignast sitt eigið húsnæði, virkur leigumarkaður þar sem framboð og eftirspurn haldast í hendur og fólk hefur svigrúm og hvata til að spara fyrir húsnæði. Það er það sem við erum að gera með okkar tillögum í húsnæðismálum.
Það endurspeglast meðal annars í hækkun húsnæðisbóta á árunum 2016 og 2017 þar sem við gerum ráð fyrir 1,1 milljarði kr. í breyttan húsnæðisstuðning við leigjendur. Við breytum skattlagningu tekna á leiguíbúð í eigu einstaklinga til að lækka leiguverð og auka framboð leiguíbúða og við ætlum að koma til móts við þá sem kaupa sína fyrstu íbúð með húsnæðissparnaðarleiðinni. Við ætlum að gera allt sem við getum til að tryggja að íbúðirnar verði byggðar á sem hagkvæmastan máta þannig að sem flestir geti fengið öruggt húsaskjól.
Þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru loforð, loforð sem við gáfum í tengslum við kjarasamningana sem náðust í vor og við þau loforð mun ríkisstjórnin standa. Stór skref verða þannig stigin til að gera okkar góða samfélag enn betra. Við getum og eigum að hjálpa þeim sem aðstoð þurfa, bæði hér heima og erlendis. Til þess er ríkur vilji, jafnt meðal þjóðarinnar og hér á Alþingi. Og það er það sem við munum gera.“

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra
145. löggjafarþing — 2. fundur,  8. sept. 2015.
Stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.