Categories
Fréttir

Stóreflum uppbyggingu íþróttamannvirkja og sjálfboðastarf

Deila grein

23/09/2015

Stóreflum uppbyggingu íþróttamannvirkja og sjálfboðastarf

VilllumDreift hefur verið á Alþingi frumvarpi um breytingu á lögum er varða uppbyggingu og viðhald íþróttamannvirkja. Lagt er til að íþrótta-, ungmenna- og æskulýðsfélögum verði endurgreiddur allur virðisaukaskattur sem greiddur hefur verið af vinnu manna við nýbyggingu, endurbyggingu og viðhaldi við íþróttamannvirki, en einnig af þjónustu vegna hönnunar, eftirlits eða viðhalds þeirra. Frumvarpið gerir ráð fyrir að þjónusta og vörusala sem stunduð er til að afla fjár fyrir hefðbundna starfsemi íþróttafélaga verði undanþegnar virðisaukaskatti. Tímabilið í frumvarpinu er eitt ár, frá 1. janúar 2016 til 1. janúar 2017.
Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins, er fyrsti flutningsmaður málsins en aðrir meðflutningsmenn eru þingmennirnir: Ásmundur Einar Daðason, Páll Jóhann Pálsson, Haraldur Einarsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Ásmundur Friðriksson.
„Árangurinn í íþróttum undanfarnar vikur sýnir mikilvægi innviðauppbyggingar í íþróttum. Löggjafinn þarf að hvetja til uppbyggingar á íþróttamannvirkjum og þetta frumvarp er lykilatriði í mínum huga,“ segir Willum Þór Þórsson, alþingismaður Framsóknarflokksins.
Willum segir jafnframt að að sjálfboðaliðastarf hafi lengi verið grunnurinn að öflugu íþróttastarfi á Íslandi og markmiðið frumvarpsins sé að styðja við allt sjálfboðaliðastarf innan íþróttahreyfingarinnar hér á landi.