Categories
Fréttir

„Stórsókn í uppbyggingu íbúða en betur má ef duga skal“

Deila grein

19/04/2023

„Stórsókn í uppbyggingu íbúða en betur má ef duga skal“

„Við Íslendingar berum okkur jafnan saman við Evrópu en íbúaþróun á Íslandi er í engu samhengi við Evrópu og því er erfitt að gera raunhæfan samanburð. Íbúum í Evrópu hefur fjölgað um 2,8% frá aldamótum en íbúum á Íslandi hefur fjölgað um nær 40%. Auknum vinsældum og vexti íbúafjölda fylgja vissulega áskoranir og eitt af því er að tryggja nægilegan fjölda íbúða á hverjum tíma. Síðustu ár hefur verið gerð stórsókn í uppbyggingu íbúða en betur má ef duga skal,“ sagði Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins.

Fór hún yfir að síðustu ár hafi verkefnin fyrst og fremst miðast að því „að mæta uppsafnaðri þörf fyrri ára en það er afleiðing af aðgerðaleysi þeirra sem sátu við stjórnvölinn frá 2007–2012 sem segja má að hafi sett met í skorti á íbúðum.“

Núverandi ríkisstjórn vinnu að því að fjölga íbúðum og þá um leið að hjálpa fólki að komast í eigið húsnæði og tryggja fleiri leiguíbúðir í óhagnaðardrifnu eða samvinnuformi.

„Í kjölfarið hefur verið ánægjulegt að sjá þá þróun að einkaaðilum á leigumarkaði hefur fækkað mikið og varanlegt húsnæði í eigu hins opinbera og félaga hefur aukist. Það segir okkur að markaðurinn hafi hægt og rólega verið að lagast.

En við þurfum að halda áfram því við glímum enn við afleiðingar stöðnunar fyrri ára og í ofanálag erum við að glíma við alþjóðlega verðbólgu sem klárlega mun hafa áhrif á markaðinn. Okkar markmið ætti núna að vera fyrst og fremst að tryggja að við séum ekki að safna í aðra snjóhengju og halda áfram að byggja nægilega mikið af húsnæði og fjölga íbúðum í óhagnaðardrifnu leigukerfi á sem flestum stöðum hringinn í kringum landið,“ sagði Halla Signý að lokum.


Ræða Höllu Signýjar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Undanfarið hefur borið á gagnrýni á stöðu húsnæðismála hér á landi. Ég ætla mér ekki hér í dag að gera lítið úr þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir í húsnæðismálum en það er langt því frá að ekkert hafi verið gert í tíð núverandi ríkisstjórnar. Við Íslendingar berum okkur jafnan saman við Evrópu en íbúaþróun á Íslandi er í engu samhengi við Evrópu og því er erfitt að gera raunhæfan samanburð. Íbúum í Evrópu hefur fjölgað um 2,8% frá aldamótum en íbúum á Íslandi hefur fjölgað um nær 40%. Auknum vinsældum og vexti íbúafjölda fylgja vissulega áskoranir og eitt af því er að tryggja nægilegan fjölda íbúða á hverjum tíma. Síðustu ár hefur verið gerð stórsókn í uppbyggingu íbúða en betur má ef duga skal.

Aðgerðir síðustu ára hafa fyrst og fremst miðað að því að mæta uppsafnaðri þörf fyrri ára en það er afleiðing af aðgerðaleysi þeirra sem sátu við stjórnvölinn frá 2007–2012 sem segja má að hafi sett met í skorti á íbúðum. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa miðað að því að fjölga íbúðum, hjálpa fólki að komast í eigið húsnæði og byggja fleiri leiguíbúðir í óhagnaðardrifnu eða samvinnuformi. Í kjölfarið hefur verið ánægjulegt að sjá þá þróun að einkaaðilum á leigumarkaði hefur fækkað mikið og varanlegt húsnæði í eigu hins opinbera og félaga hefur aukist. Það segir okkur að markaðurinn hafi hægt og rólega verið að lagast. En við þurfum að halda áfram því við glímum enn við afleiðingar stöðnunar fyrri ára og í ofanálag erum við að glíma við alþjóðlega verðbólgu sem klárlega mun hafa áhrif á markaðinn. Okkar markmið ætti núna að vera fyrst og fremst að tryggja að við séum ekki að safna í aðra snjóhengju og halda áfram að byggja nægilega mikið af húsnæði og fjölga íbúðum í óhagnaðardrifnu leigukerfi á sem flestum stöðum hringinn í kringum landið.“