Categories
Fréttir

Stuðlar að einni stærstu breytingu á skipulagi íþróttastarfs síðustu áratugi

Deila grein

07/11/2023

Stuðlar að einni stærstu breytingu á skipulagi íþróttastarfs síðustu áratugi

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, segir gaman að taka þátt og fá að leiða mikilvægar breytingar í samstarfi við öflugt fólk. Stefnt er að því að setja á laggirnar átta starfsstöðvar á landsvísu sem munu þjónusta öll 25 íþróttahéruð landsins. Horft er til samlegðaráhrifa við svæðisskipt verkefni ríkis og sveitarfélaga s.s. skólaþjónustu, farsæld barna og æskulýðsstarfi.

„Ég hef lagt ríka áherslu á breytingar sem stuðla að eflingu íþróttalífs í landinu. Mikilvægur áfangi í þessari vinnu er nýtt samkomulag sem stuðlar að einni stærstu breytingu á skipulagi íþróttastarfs síðustu áratugi,“ segir Ásmundur Einar.

Með stuðningi stjórnvalda ætla ÍSÍ og UMFÍ að setja sameiginlega á laggirnar átta sjálfstæðar starfsstöðvar sem munu þjónusta öll 25 íþróttahéruð landsins. Þessu til viðbótar munum við fjármagna og setja á fót sérstakan hvatasjóð sem hafi það markmið að jafna tækifæri allra barna til þátttöku í íþróttastarfi þar sem lögð verður sérstök áhersla á málefni barna og ungmenna með fötlun og börn með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn.

„Eftir góða samvinnu milli allra aðila þá er það mikið fagnaðarefni að sjá einróma samstöðu hjá íþróttahreyfingunni og stjórnvöldum um þessar miklu breytingar. Ég er sannfærður um að þetta mun jafna tækifæri til íþróttaiðkunar, hvort sem þú ert ungur eða aldraður, innfæddur eða innflytjandi, með eða án fötlunar, jafnt á landsbyggðinni sem og á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Ásmundur Einar.

Markmiðið er að efla íþróttahéruð með því að koma á fót sameiginlegum starfsstöðvum sem hafa það hlutverk að þjónusta íþróttahéruðin í nærumhverfi sínu með samræmdum hætti. Horft er til þess að sterkari íþróttahéruð og starfsstöðvar um allt land auki skilvirkni innan íþróttahreyfingarinnar og geri þeim kleift að takast á við núverandi og fyrirséð verkefni. Það mun styrkja stefnumótandi vinnu og aðgerðir á landsvísu og þannig jafna tækifæri barna óháð aðstæðum og búsetu sem og að efla þjónustu á viðkomandi svæði. Breytingin nær til tæplega 500 íþrótta- og ungmennafélaga um allt land.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, undirritaði viljayfirlýsingu þess efnis með forseta Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) og formanni Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) í dag.

Andri Stefánsson framkvæmdastjóri ÍSÍ, Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ, Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ og Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ við undirritun viljayfirlýsingar - mynd

Andri Stefánsson framkvæmdastjóri ÍSÍ, Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ, Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ og Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ við undirritun viljayfirlýsingar.

Full samstaða er meðal sambandsaðila ÍSÍ, UMFÍ og stjórnvalda sem eru sammála og samstíga um stofnun starfsstöðva en tillögur þess efnis voru samþykktar á þingi ÍSÍ í vor og á þingi UMFÍ nú í október. Slík samstaða markar tímamót innan íþróttahreyfingarinnar. Starfsstöðvarnar verða fjármagnaðar að hluta til með á annað hundrað m.kr. árlegu fjárframlagi frá íþrótta- og ungmennafélagshreyfingunni.

Mennta- og barnamálaráðherra lýsir yfir vilja til þess að styðja við verkefnið með 200 m.kr. árlegu framlagi til ÍSÍ og UMFÍ til næstu tveggja ára, til að byrja með. Framlaginu er ætlað að styðja við þessa uppbyggingu um allt land og meðal annars koma á fót hvatasjóði. Hlutverk hvatasjóðsins er að stuðla að aukinni þátttöku barna og ungmenna í íþróttum, með áherslu á börn með fötlun og börn með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn.

„Það er mikið fagnaðarefni að sjá einróma samstöðu hjá íþróttahreyfingunni og stjórnvöldum um hið nýja skipulag. Við viljum með þessu samþætta þjónustu og skapa jöfn tækifæri til íþróttaiðkunar, hvort sem þú ert ungur eða aldraður, innfæddur eða innflytjandi, með eða án fötlunar, jafnt á landsbyggðinni sem og á höfuðborgarsvæðinu. Ég held að hér sé um að ræða eina stærstu breytingu á skipulagi íþróttastarfs á Íslandi síðustu árutugi,“ segir Ásmundur Einar.

Mennta- og barnamálaráðuneytið, ÍSÍ og UMFÍ munu samkvæmt viljayfirlýsingunni undirrita samning í lok árs um skiptingu og rekstur svæða. Mælikvarðar verða skilgreindir samhliða því til að mæla framgang og samfélagslegan ávinning verkefnisins. Stefnt er að því að samningurinn taki gildi 1. janúar 2024.

Öflugt íþróttastarf er lykilþáttur í að stuðla að farsæld barna. Áherslur eru að mörgu leyti þær sömu og í nýjum lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Íþróttir leiða til farsældar og er markmiðið að bæta og samþætta þjónustuna á landsvísu með jöfn tækifæri og samnýtingu svæða að leiðarljósi.

Mennta- og barnamálaráðuneytið í samstarfi við íþróttahreyfinguna vinnur einnig að því að efla afreksíþróttastarf á Íslandi og munu starfsstöðvarnar vera mikilvægur samstarfsaðili í því verkefni. Þau mál verða til umræðu á ráðstefnunni Vinnum gullið – ný stefna í afreksíþróttum á Íslandi þann 20. nóvember n.k.

👉 Hef lagt ríka áherslu á breytingar sem stuðla að eflingu íþróttalífs í landinu. Mikilvægur áfangi í þessari vinnu er…

Posted by Ásmundur Einar Daðason on Þriðjudagur, 7. nóvember 2023