„Fæðuöryggi er hugtak sem margir kannast orðið við, ekki síst í umræðu um farsóttir og náttúruhamfarir sem er raunveruleg stöðug ógn eins og við finnum vel fyrir þessar vikurnar. Framboð á matvælum mun að óbreyttu ekki haldast í hendur við fjölgun jarðarbúa á næstu áratugum,“ sagði Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Suðurkjördæmi, í ræðu í störfum þingsins á Alþingi í dag.
„Flutningur á matvælum heimshorna á milli fjölgar kolefnissporum og eykur afföll miðað við að fæðunnar sé neytt sem næst framleiðslustöð. Að þessu sögðu þá er það skylda okkar að leita allra leiða til að auka sjálfbærni landsins hvað fæðuframleiðslu varðar og þar með tryggja öryggi þjóðarinnar og að sjálfsögðu að draga úr neikvæðum loftslagsáhrifum eins og hægt er. Eitt af því sem við gætum gert og eigum að gera til að ná þessum markmiðum, þ.e. að bæta fæðuöryggi og ekki síst draga úr neikvæðum loftslagsáhrifum, er að koma til móts við grænmetisbændur varðandi flutningsverð á raforku,“ sagði Silja Dögg.
Silja Dögg sagði Íslendinga hafa einblínt hingað til á hefðbundnar fiskveiðar og landbúnað í umræðu um fæðuöryggi. Sagðist hún vilja sjá horft einnig til þátta eins og t.d. til þörungaframleiðslu í meira mæli, en úr þörungum má framleiða olíu, næringarríka fæðu fyrir menn og dýr og góðan áburð.
Að lokum vildi Silja Dögg taka undir orð sveitarstjórnar Bláskógabyggðar, í yfirlýsingu, um fæðuöruggi, frá því í gær. Í henni kemur fram hvatning til stjórnvalda og allra landsmanna að taka fæðuöryggi þjóðarinnar föstum tökum:
„Sveitarstjórn Bláskógabyggðar vill skora á stjórnvöld að tryggja til framtíðar þá grunnþætti er mestu skipta varðandi fæðuöryggi þjóðarinnar. Þar má nefna eignarhald á jörðum, varðveislu ræktunarlands, tollvernd sem heldur, og almenna þekkingu og viðurkenningu á hæfi mismunandi landgerða til mismunandi landnota, ekki síst matvælaframleiðslu. […] Stuðla þarf að aukinni fjölbreytni í matvælaframleiðslu, m.a. með því að styðja við ylrækt, garðyrkju og kornrækt. Miklir vannýttir möguleikar eru varðandi nýtingu íslensks korns bæði í manneldi og búfjárrækt. Í ylræktinni eru frábær tækifæri til að nýta hreinar orku- og vatnsauðlindir til að framleiða úrvals matvæli og blóm sem gleðja.“