Categories
Fréttir

Sú þjóð sem ég þekki

Deila grein

30/04/2016

Sú þjóð sem ég þekki

Silja-Dogg-mynd01-vef„Hæstv. forseti. Í gær átti ég samtal við nemendur í Fjölbrautaskóla Suðurlands. Tilefnið var stjórnmáladagar í skólanum. Mörg þeirra spurðu hvort ekki þyrfti að gera breytingar á húsnæðiskerfinu, það væri allt of dýrt að leigja. Það er rétt og ég gat þá upplýst þau um að Alþingi væri nú langt komið með húsnæðisfrumvörpin en markmið þeirra er að tryggja öllum húsnæði á viðráðanlegu verði.
Mörgum þeirra varð tíðrætt um neikvæða umræðu á samfélagsmiðlum og spurðu svo: Gengur ekki bara allt vel? Af hverju er svona margir reiðir?
Þetta voru einlægar spurningar. Okkur Íslendingum gengur nefnilega ansi vel. Okkur hefur tekist að greiða niður skuldir ríkissjóðs og staða sjóðsins er nú betri en nokkru sinni fyrr. Skuldaleiðréttingin og áætlun um afnám hafta hefur haft mjög jákvæð áhrif á þjóðarbúið. Fyrir fáum dögum fengum við þær fréttir að ríkissjóður skilaði óvæntum afgangi upp á rúma 70 milljarða kr. 70 milljarðar eru ansi miklir peningar og ég hefði viljað sjá meiri umfjöllun um hvaða þýðingu það hefur fyrir samfélagið.
Þrátt fyrir góðan árangur ríkisstjórnarinnar tæmist verkefnalistinn aldrei. Við þurfum að halda áfram að styrkja heilbrigðiskerfið. Við höfum reyndar bætt verulega í á síðustu þremur árum, en betur má ef duga skal. Við þurfum einnig að gefa verulega í hvað varðar samgöngumálin en samkvæmt fyrirliggjandi samgönguáætlun er stefna ríkisstjórnarinnar að bæta við nokkrum milljörðum árlega í þau verkefni þannig að við erum á réttri leið.
Ríkisstjórnin stendur sig vel. Árangurinn er mælanlegur og hann er góður. Stjórnarandstaðan heldur samt áfram að kalla eftir þingrofi og kosningum í nafni þjóðarinnar. Sú þjóð sem ég þekki vill ekki kosningar og þingrof og það vill heldur ekki meiri hluti Alþingis. Það liggur fyrir.
Hæstv. forseti. Það er eitthvað verulega skakkt við umræðuna.“
Silja Dögg Gunnarsdóttir í störfum þingsins 29. apríl 2016.