„Hæstv. forseti. Í störfum þingsins þann 5. apríl síðastliðinn fagnaði ég því að forsvarsmenn HB Granda hefðu farið í viðræður við bæjarstjórn Akraness og Faxaflóahafnir um framtíðaráform fyrirtækisins á Akranesi. Ég ræddi mikilvægi þess að allir aðilar tækju þátt í þessum viðræðum af heilum hug því að um væri að ræða gríðarlegt hagsmunamál fyrir starfsmenn HB Granda á Akranesi og bæjarfélagið Akranes. Í störfum þingsins ræddi ég jafnframt um að ef þessar viðræður bæjarstjórnar Akraness og Faxaflóahafna við kvótahæsta fyrirtæki landsins, þ.e. HB Granda, skiluðu ekki árangri blasti við að endurskoða þyrfti það kvótakerfi sem við búum við í dag. Skoða þyrfti hvort hægt væri með skýrari hætti að tengja kvóta við byggðir eða auðvelda sveitarfélögum að nýta sér forkaupsrétt í þeim kvóta sem fyrir er svo ákvörðun sem þessi ógnaði ekki atvinnuöryggi fjölda einstaklinga.
Í fréttum þann 20. apríl sl. tók hv. þm. Páll Magnússon, sem jafnframt er formaður hv. atvinnuveganefndar Alþingis, í svipaðan streng og sagði nauðsynlegt að breyta lögum um stjórn fiskveiða til að tryggja þá byggðafestu sem gert er ráð fyrir í lögunum. Hátt í 100 manns missa vinnuna ef HB Grandi hættir landvinnslu á Akranesi.
Hv. þm. Haraldur Benediktsson, sem er 1. þm. Norðvesturkjördæmis, tók undir þessi orð hv. þm. Páls Magnússonar og sagði að lög um stjórn fiskveiða væru til skoðunar innan stjórnkerfisins í ljósi þess að hátt í eitt hundrað manns missi vinnuna ef HB Grandi hætti landvinnslu á Akranesi. Það yrði grundvallarbreyting ef HB Grandi flytti starfsemi frá Akranesi til Reykjavíkur.
Mig langar að nýta þetta tækifæri og fagna orðum þessara hv. þingmanna. Ég vona svo sannarlega að fleiri hv. þingmenn hér geta tekið undir þessi orð okkar.“
Elsa Lára Arnardóttir í störfum þingsins 25. apríl 2017.
Categories
Tengja kvóta við byggðir eða auðvelda sveitarfélögum forkaupsrétt?
26/04/2017
Tengja kvóta við byggðir eða auðvelda sveitarfélögum forkaupsrétt?