Categories
Fréttir

Við köllum eftir stefnu í þessum málaflokki – ekki hentistefnu

Deila grein

26/04/2017

Við köllum eftir stefnu í þessum málaflokki – ekki hentistefnu

„Hæstv. forseti. Vart þarf að rifja það upp í þessum sal að búið er að tilkynna sölu á svokölluðu Vífilsstaðalandi í Garðabæ. Fjármálaráðherra stóð fyrir því. Hann ber því við að heimild til þess sé í fjárlögum, sem er rétt. En í fjárlögum er að finna ýmsar aðrar heimildir til handa ríkisvaldinu, svo sem eins og að selja hlut í bönkunum sem ríkið heldur á um þessar mundir. Þá er þar einnig að finna heimildir til að selja jarðir sem eru í eigu ríkisins, en kvartað hefur verið yfir því að nánast ómögulegt er að kaupa ríkisjarðir og nýta nú um stundir, enda er engin stefna til. Sem betur fer er fjöldi ungs fólks tilbúinn til að leggja matvælaframleiðslu fyrir sig og stunda landbúnað, byggja upp samfélagið og vera þar bústólpar. En því miður hefur þróunin verið sú að sífellt fleiri jarðir fara úr ábúð. Það hefur veikt mjög hinar dreifðu byggðir landsins sem eru mikilvægar út frá byggðasjónarmiðum til að tryggja matvælaframleiðslu og jafnrétti til búsetu.
Ríkissjóður á um 450 jarðir. Stór hluti þeirra er nýttur til landbúnaðar. Samkvæmt 12. gr. ábúðarlaga ber ábúanda að hafa fasta búsetu á ábúðarjörð og stunda þar landbúnað nema annað hafi verið samþykkt. Í þessu felast mikil tækifæri til að styrkja byggðir og styðja íslenskan landbúnað sem býr yfir mikilli þekkingu á verðmætum sem felast m.a. í heilbrigðum bústofni og þekkingu bænda á landinu.
Hæstv. forseti. Ég vil vekja athygli á því að á dagskrá þingsins í dag er tillaga til þingsályktunar um mótun eigendastefnu ríkisins fyrir bújarðir. Að henni stendur allur þingflokkur Framsóknarflokksins. Við teljum málið aðkallandi því að ekki verður lengur við það unað að jarðir fari í eyði og verðmæti sem felast í ræktuðu landi fari í órækt.
Hæstv. forseti. Við köllum eftir stefnu í þessum málaflokki, ekki hentistefnu.“
Þórunn Egilsdóttir í störfum þingsins 25. apríl 2017.