Categories
Fréttir

„Það er ekkert í störfum lögreglu gert af geðþótta“

Deila grein

21/06/2024

„Það er ekkert í störfum lögreglu gert af geðþótta“

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, alþingismaður, ræddi málefni lögreglu í störfum þingsins og sagði okkur vera með löggæslu sem sé virkilega fagleg í sínum störfum og hafi yfirgripsmikla þekkingu.

„Í öllu því sem við gerum eigum við að styrkja stöðu lögreglunnar því að það skiptir máli fyrir öryggi lögreglumanna, fyrir okkar öryggi og við skulum ekki gleyma því að þessir lögreglumenn eiga líka fjölskyldur sem treysta á það að einstaklingarnir sem leggja líf sitt og heilsu að veði á hverjum degi til að tryggja okkar öryggi komi heilir heim,“ sagði Hafdís Hrönn.

Lögreglan sé að gera sitt besta í samræmi við heimildir og verkfæri og bera verði virðingu fyrir því.

„Það er svo magnað að hlusta á fólk tjá sig um störf lögreglu af þekkingarleysi og með sleggjudómum, eins og við höfum séð á undanförnum vikum þar sem lögreglan er gagnrýnd fyrir að tryggja bæði öryggi einstaklinganna sem höfð eru afskipti af, sitt öryggi og öryggi borgaranna,“ sagði Hafdís Hrönn.

„Það er ekkert í störfum lögreglu gert af geðþótta og þegar það þarf að hafa afskipti af borgurunum, hvað þá einstaklingum sem eru að mæta lögreglunni á sínum viðkvæmustu og erfiðustu tímapunktum í lífinu, þá er ekkert fallegt við valdbeitingu, þurfi að grípa til hennar. En hún getur verið nauðsynleg og við þurfum að átta okkur á því að það er forsaga í öllum málum.“

Sagði hún lögreglu verða geta brugðist örugglega við sé þjóðaröryggi í hættu og koma í veg fyrir að skipulögð brotastarfsemi nái að skjóta hér rótum enn frekar. Löggjafinn verði að gefa lögreglu þær heimildir sem þarf til.

„Við þurfum að valdefla lögregluna í sínum verkefnum því að ef við gerum það ekki þá er það á okkar ábyrgð ef það gerist eitthvað stórt hér á landi og lögreglan hefur ekki þær heimildir sem þarf til að koma í veg fyrir afbrot á stærri skala.

Ég hvet okkur öll til að sameinast um þær breytingar sem liggja fyrir þinginu, lögreglu og þjóðinni allri til heilla“ sagði Hafdís Hrönn að lokum.


Ræða Hafdísar Hrannar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Við erum með löggæslu í þessu landi sem er virkilega fagleg í sínum störfum og hefur yfirgripsmikla þekkingu. Í öllu því sem við gerum eigum við að styrkja stöðu lögreglunnar því að það skiptir máli fyrir öryggi lögreglumanna, fyrir okkar öryggi og við skulum ekki gleyma því að þessir lögreglumenn eiga líka fjölskyldur sem treysta á það að einstaklingarnir sem leggja líf sitt og heilsu að veði á hverjum degi til að tryggja okkar öryggi komi heilir heim. Lögreglan er að gera sitt allra besta með þær heimildir sem og þau verkfæri sem hún hefur yfir að ráða og við eigum og þurfum að bera virðingu fyrir því. Það er svo magnað að hlusta á fólk tjá sig um störf lögreglu af þekkingarleysi og með sleggjudómum, eins og við höfum séð á undanförnum vikum þar sem lögreglan er gagnrýnd fyrir að tryggja bæði öryggi einstaklinganna sem höfð eru afskipti af, sitt öryggi og öryggi borgaranna. Það er ekkert í störfum lögreglu gert af geðþótta og þegar það þarf að hafa afskipti af borgurunum, hvað þá einstaklingum sem eru að mæta lögreglunni á sínum viðkvæmustu og erfiðustu tímapunktum í lífinu, þá er ekkert fallegt við valdbeitingu, þurfi að grípa til hennar. En hún getur verið nauðsynleg og við þurfum að átta okkur á því að það er forsaga í öllum málum.

Tryggjum að lögreglan geti brugðist örugglega við og gefum henni þær heimildir sem þörf er á til að tryggja megi þjóðaröryggi og koma í veg fyrir að skipulögð brotastarfsemi nái að skjóta enn frekar rótum hér á landi. Við þurfum að valdefla lögregluna í sínum verkefnum því að ef við gerum það ekki þá er það á okkar ábyrgð ef það gerist eitthvað stórt hér á landi og lögreglan hefur ekki þær heimildir sem þarf til að koma í veg fyrir afbrot á stærri skala. Ég hvet okkur öll til að sameinast um þær breytingar sem liggja fyrir þinginu, lögreglu og þjóðinni allri til heilla.“