Categories
Fréttir

„Það undrar okkur alltaf, sérstaklega Vestfirðinga, þegar að deilur rísa um vegabætur“

Deila grein

04/09/2019

„Það undrar okkur alltaf, sérstaklega Vestfirðinga, þegar að deilur rísa um vegabætur“

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, segir það undra sig að kalla vegabætur í Árneshreppi náttúruspjöll þegar verið sé að bæta vegi sem fyrir voru. Rask sem fylgir framkvæmdum á svæðinu grær svo með tímanum. Þetta kemur fram í yfirlýsingu hennar í dag.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, voru á dögunum í Árneshreppi og skoðuðu vegaframkvæmdirnar í Ingólfs- og Ófeigsfirði og aðstæður við fyrirhugaða Hvalárvirkjun. Hreppsnefndin hefur veitt framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku í Ingólfsfirði vegna uppbyggingar vegarins um Ófeigsfjörð segir í frétt á visir.is.
„Við Ásmundur brugðum okkur í Árneshrepp um daginn. Kíktum m.a. á þær vegabætur sem er verið að gera þar. Bæði í Norðurfirði og á kaflanum þaðan og í Ófeigsfjörð. Það undrar mig að kalla þessar vegabætur náttúruspjöll, hér er verið að bæta vegi sem fyrir voru og það rask sem verður við þetta græðir tíminn og er fljótur að því. Sýnist mér að deilurnar um vegabæturnar séu reistar á tilefninu en ekki framkvæmdinni,“ segir Halla Signý.
Það undrar okkur alltaf, sérstaklega Vestfirðinga, þegar að deilur rísa um vegabætur. Þetta er bara jákvæð þróun fyrir samfélagið og kemur alltaf til bóta en ég held að deilurnar séu reistar á tilefninu en ekki framkvæmdinni,“ segir Halla Signý í samtali við visir.is.
„Vonandi eigum við eftir að sjá meira af bættum samgöngum um Árneshreppinn og tek ég þá undir ákall hreppsbúa að koma á góðum vegi sem hægt er að halda meira opnum yfir árið,“ segir Halla Signý.