Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, alþingismaður, sagði í störfunum á Alþingi að stjórnmálin væru oft skemmtileg en á tímum væru þau einnig krefjandi og það sérstaklega í dag. Auðvelt væri að hlaupa á eftir popúlísku áliti, „en að standa í lappirnar, hafa trú á eigin sannfæringu og nálgast umræðuna út frá staðreyndum sem er aflað með því að kynna sér málin og það sem liggur til grundvallar hverju sinni.“
„Hér ætla ég ekki að tiltaka neitt eitt umfram annað en oft hættir okkur til að láta undan í ákvarðanatökum vegna sjónarmiða sem ekki verður annað séð en að byggist á pólitískum rétttrúnaði eða til að styggja ekki neinn,“ sagði Hafdís Hrönn.
„Við verðum að passa að láta prinsippin ekki flækjast fyrir í okkar vinnu að framfaramálum í þágu þjóðarinnar og orð sem hér eru látin falla eða annars staðar úti í samfélaginu af okkar hálfu bera svo sannarlega ábyrgð því fólk hlustar á okkur.“
„Þetta ferðalag sem lífið er býður ekkert oft upp á mikla fyrirhyggju frá degi til dags en við vinnum af sannfæringu og höfum trú á því að það sem við erum að gera sé það rétta í stöðunni. En að því sögðu þá vil ég hvetja okkur til að nálgast næstu daga og vikur með samvinnuhugsjón og nálgast hlutina út frá skynsemi og með röksemdum og staðreyndum. Fólkið okkar treystir á það og við í Framsókn munum gera akkúrat það, nú sem áður, að hafa samvinnu að leiðarljósi svo hægt sé að vinna áfram að framfaramálum þjóðinni til heilla,“ sagði Hafdís Hrönn að lokum.
Ræða Hafdísar Hrannar í heild sinni á Alþingi:
„Virðulegi forseti. Á þeim tímum sem við búum á er auðvelt að hlaupa á eftir popúlísku áliti annarra og jafnvel er það bara auðveldara til skemmri tíma en að standa í lappirnar, hafa trú á eigin sannfæringu og nálgast umræðuna út frá staðreyndum sem er aflað með því að kynna sér málin og það sem liggur til grundvallar hverju sinni. Við höfum öll fengið ýmiss konar áskoranir um að ráðast í ýmsar aðgerðir undanfarnar vikur, úr ýmsum áttum. Þeir póstar varða ýmis mál. Hafa allar staðreyndir verið hafðar til grundvallar í þeirri umræðu? Hér ætla ég ekki að tiltaka neitt eitt umfram annað en oft hættir okkur til að láta undan í ákvarðanatökum vegna sjónarmiða sem ekki verður annað séð en að byggist á pólitískum rétttrúnaði eða til að styggja ekki neinn. En þannig virkar lífið því miður ekki. Við verðum að passa að láta prinsippin ekki flækjast fyrir í okkar vinnu að framfaramálum í þágu þjóðarinnar og orð sem hér eru látin falla eða annars staðar úti í samfélaginu af okkar hálfu bera svo sannarlega ábyrgð því fólk hlustar á okkur. Það treystir því og býst við því að við nálgumst umræðuna með röksemdum, skynsemi og staðreyndum. Stjórnmálin eru oft skemmtileg en þau eru líka krefjandi og sérstaklega á tímum sem þessum. Í gegnum allt lífið færum við ákveðnar fórnir fyrir þær ákvarðanir sem hafa verið teknar. Þetta ferðalag sem lífið er býður ekkert oft upp á mikla fyrirhyggju frá degi til dags en við vinnum af sannfæringu og höfum trú á því að það sem við erum að gera sé það rétta í stöðunni. En að því sögðu þá vil ég hvetja okkur til að nálgast næstu daga og vikur með samvinnuhugsjón og nálgast hlutina út frá skynsemi og með röksemdum og staðreyndum. Fólkið okkar treystir á það og við í Framsókn munum gera akkúrat það, nú sem áður, að hafa samvinnu að leiðarljósi svo hægt sé að vinna áfram að framfaramálum þjóðinni til heilla.“