Categories
Fréttir

Þekking íslenskra bænda á landinu er ómetanlegur fjársjóður

Deila grein

23/08/2016

Þekking íslenskra bænda á landinu er ómetanlegur fjársjóður

flickr-Þórunn Egilsdóttir„Hæstv. forseti. Íslenskur landbúnaður hefur verið stoð íslensks samfélags gegnum tíðina og verið grunnur byggða um allt land. Hann hefur farið í gegnum miklar breytingar og þróun síðastliðna áratugi, en nú stöndum við frammi fyrir að ná sáttum um nýjan samning um greinina sem tekur utan um nauðsynlegar breytingar með nýjum áherslum. Við erum að fara inn í nýja tíma sem krefjast róttækra breytinga á landbúnaði á Íslandi.

Landbúnaður líkt og aðrar atvinnugreinar þarf að búa við ákveðið öryggi og fyrirsjáanleika til framtíðar. Það er því mikilvægt að rammi samningsins sem hér um ræðir er til tíu ára. Aftur á móti er mikilvægt að vinna markvisst og þétt að endurskoðun og mati á áhrifum samningsins og virkni hans. Þess vegna vona ég að við berum gæfu til að hnykkja á þeim atriðum samningsins sem lúta að endurskoðun, kalla fleiri aðila að því borði og hafa samráð og samvinnu sem eykur sátt um íslenskan landbúnað. Þar þurfa hagsmunir íslenskra bænda og neytenda að fara saman í sátt við umhverfið og náttúruna.

Hæstv. forseti. Íslenskir bændur eru metnaðarfullir framleiðendur gæðavöru sem neytendur geta treyst að framleidd er á þann hátt að miklar kröfur eru gerðar til aðbúnaðar og meðferðar skepna og lyfjagjöf er með því lægsta sem gerist í heiminum. Mikilvægt er að reglugerð um upprunamerkingar á matvælum verði framfylgt þannig að tryggt sé að neytendur fái réttar upplýsingar um uppruna þeirrar vöru sem er til sölu í matvöruverslunum.

Hæstv. forseti. Bændur hafa verið virkir þátttakendur í uppgræðslu landsins og mikilvægt að áfram verði lögð áhersla á samspil landbúnaðar og umhverfisverndar með áherslu á sjálfbæra nýtingu. Þekking íslenskra bænda á landinu er ómetanlegur fjársjóður sem nýtist til styrkingar byggða um allt land. Tækifærin eru mýmörg og mikilvægt að leggja áherslu á sérstöðu íslensks landbúnaðar þegar kemur að hreinleika og lítilli lyfjanotkun svo dæmi sé tekið. Matvælalandið Ísland getur líka verið ferðamannaland sem við viljum búa í.“

Þórunn Egilsdóttir í störfum þingsins 19. ágúst 2016.