Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, skrifaði nýlega grein um mikilvægi þess að auðvelda ungu fólki kaup á fyrstu fasteign. Samkvæmt nýjustu könnun Íbúðalánasjóðs telja 57% leigjenda sig búa við húsnæðisöryggi samanborið við 94% þeirra sem búa í eigin húsnæði. Einungis 8% leigjenda eru á leigumarkaði vegna þess að þeir vilja vera þar en 64% leigjenda segjast vera á leigumarkaðnum af nauðsyn.
„Þetta er ekki ásættanlegt,“ sagði Ásmundur Einar.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir: „Ríkisstjórnin mun fara í aðgerðir sem lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkaðinn. Í því augnamiði verða stuðningskerfi hins opinbera endurskoðuð þannig að stuðningurinn nýtist fyrst og fremst þessum hópum. Meðal annars verða skoðaðir möguleikar á því að hægt verði að nýta lífeyrissparnað til þess.“
„Í Sviss er heimilt að nýta uppsafnaðan lífeyrissparnað til að afla eiginfjárframlags vegna íbúðakaupa. Ýmist er hægt að fá sparnaðinn fyrirframgreiddan eða veðsetja hann. Almennur lífeyrissparnaður má vera allt að 90% kaupverðs en viðbótarlífeyrissparnaður allt að 100%,“ sagði Ásmundur Einar.
„Nýlega lagði ég fram tillögu í ríkisstjórn um að farið væri í að útfæra fyrrgreindar lausnir hér á landi. Ég bind miklar vonir við að úrbætur til handa fyrstu kaupendum verði til þess að lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkaðinn,“ sagði Ásmundur Einar Daðason.
Greinina má lesa hér.
Categories
„Þetta er ekki ásættanlegt“
13/12/2018
„Þetta er ekki ásættanlegt“