Þingflokki Framsóknarmanna var afhent falleg gjöf í gær. Willum Þór afhenti mikin skjöld er hagleikssmiður í Kópavogi, Hallgrímur Pétursson, skar út úr linditré en um er að ræða íslenska skjaldamerkið.
Lýðveldisskjaldarmerkið
Þegar leið að endurreisn lýðveldisins 1944, fól þáverandi forsætisráðherra dr. juris Björn Þórðarson þremur ráðuneytisstjórum (Vigfúsi Einarssyni, Agnari Kl. Jónssyni og Birgi Thorlacius) ásamt dr. Matthíasi Þórðarsyni þjóðminjaverði, sem hafði verið ráðunautur um gerð skjaldarmerkisins 1919, að athuga og gera tillögur um breytingu á ríkisskjaldarmerkinu. Breyting var í öllu falli nauðsynleg vegna þess að kóróna var yfir skildinum, en hún hlaut að hverfa við afnám konungdæmisins. Við, sem fengum þetta verkefni ræddum nokkuð um breytingar á sjálfu skjaldarmerkinu, og þá einkum, hvort taka bæri upp á ný fálka á bláum skildi. Niðurstaðan varð þó sú, að gera ekki tillögur um breytt skjaldarmerki og hverfa ekki frá landvættahugmyndinni að því er skjaldbera varðaði. Vorum við allir sammála um þetta og ræddum málið á fundi með forsætisráðherra og féllst hann á þessa skoðun. Var gerð ný teikning af skjaldarmerkinu, þar sem kórónan var felld burtu og lögun skjaldarins breytt. Skjaldberarnir voru teiknaðir með öðrum hætti en áður og einnig undirstaðan, sem skjöldurinn hvíldi á. Tryggvi Magnússon listmálari gerði teikninguna. Frummyndin er í Þjóðminjasafninu, nr. 15026.
Ekki vorum við ánægðir með teikninguna. Kom til orða síðar að leita til skjaldarmerkjafræðinga í páfagarði í þessu sambandi, en þeir voru þá svo önnum kafnir við gerð skjaldamerkja fyrir nýútnefnda kardinála að þeir máttu ekki vera að því að sinna öðrum verkefnum. – Við gerð undirstöðunnar, sem skjöldurinn hvílir á, var haft í huga „kirkjugólfið” á Kirkjubæjarklaustri.
Á fundi Alþingis, sem haldinn var 17. júní 1944 á hinum forna þingstað Þingvöllum við Öxará, var lýst yfir því að lýðveldi væri endurreist á Íslandi. Síðan kaus Alþingi fyrsta forseta lýðveldisins til eins árs, en eftir það skyldi hann þjóðkjörinn. Á ríkisráðsfundi, sem haldinn var sama dag á Þingvöllum, gaf hinn nýkjörni forseti, Sveinn Björnsson, út forsetaúrskurð um skjaldarmerki lýðveldisins og hljóðar hann þannig:
„Skjaldarmerki Íslands er silfurlitur kross í heiðbláum feldi, með eldrauðum krossi innan í silfurlita krossinum. Armar krossanna skulu ná alveg út í rendur skjaldarins á alla fjóra vegu. Breidd krossmarksins skal vera 2/9 af breidd skjaldarins, en rauði krossinn helmingi mjórri, 1/9 af breidd skjaldarins. Efri reitirnir skulu vera rétthyrndir, jafnhliða ferhyrningar og neðri reitirnir jafnbreiðir efri reitunum, en þriðjungi lengri.
Skjaldberar eru hinar fjórar landvættir, sem getur í Heimskringlu: Griðungur, vinstra megin skjaldarins, bergrisi, hægra megin, gammur, vinstra megin, ofan við griðunginn, og dreki, hægra megin, ofan við bergrisann. Skjöldurinn hvílir á stuðlabergshellu.”
Landvættirnar fjórar koma eins og áður sagði úr Heimskringlu Snorra Sturlusonar. Þar segir frá Haraldi konungi sem sendi mann til Íslands til að kanna aðstæður. Hann fór til Íslands í hvalslíki, synti í kringum landið og rakst á leið sinni á margar furðuverur. Við Vopnajörð blasti við honum dreki mikill, með orma, pöddur og eðlur í kringum sig, við Eyjafjörð tók á móti honum fugl svo stór og mikill að vængirnir náðu á milli tveggja fjalla. Á Breiðafirði rakst hann á griðung mikinn sem fór að gella ógurlega að honum en er hann kom suður fyrir Reykjanes tók á móti honum bergrisi sem bar höfuðið hærra en fjöllin öll. Sendimaðurinn komst því hvergi að landi og fór til baka og sagði konungi fréttirnar.Þessar fjórar yfirnáttúrulegu furðuverur standa vörð um hvern landsfjórðung fyrir sig og sem skjaldberar skjaldarmerkisins standa þær sem slíkar. Skjaldarmerkið sjálft sem er auðkenni stjórnvalda ríkisins er skjöldurinn með íslenska fánanum og hægt er að nota það með eða án skjaldberanna.
Categories
Þingflokki Framsóknarmanna afhent falleg gjöf
07/10/2015
Þingflokki Framsóknarmanna afhent falleg gjöf