Categories
Greinar

Frá fjöru til heiða

Deila grein

06/10/2015

Frá fjöru til heiða

sigrunmagnusdottir-vefmyndFegurð og fjölbreytileiki íslenskrar náttúru er mikill og landslagið síbreytilegt hvort sem er uppi til fjalla, niður til sjávar eða í fögrum dal. Dagur íslenskrar náttúru var haldinn hátíðlegur 16.september og settu fjölbreyttir og fróðlegir viðburðir víða um land, skemmtilegan svip á daginn.

Í tilefni dagsins voru veitt verðlaun vegna markverðs starfs á sviði náttúruverndar, Náttúruverndarviðurkenning Sigríðar í Brattholti. Að þessu sinni voru veittar tvennar viðurkenningar til einstaklinga sem hafa af mikilli eljusemi lagt sig fram um að bæta og endurheimta land með ræktun, oft á tíðum við erfið skilyrði. Þessir einstaklingar hafa tekist á við landgræðslu og skógrækt við sorfnar strendur og á hrjóstrugum heiðum og sýnt þannig í verki að þeim er annt um landið.

_MG_5286Viðurkenningarnar hlutu annars vegar hjónin Björn Halldórsson og Elisabeth Hauge á Valþjófsstöðum í Núpasveit, sem hafa lagt alúð við að græða og rækta upp jörð sína út við ysta haf. Hins vegar Völundur Jóhannesson sem þekkir hálendið vel og hefur sýnt fram á að þar er hægt að rækta upp og hlúa að gróðri langt yfir þeim hæðarmörkum sem menn hafa talið mögulegt að stunda ræktun.

Á alþjóðlegu ári jarðvegs er við hæfi að heiðra slíka einstaklinga því af jarðveginum og moldinni sprettur gróður og líf sem enginn okkar getur verið án. Um aldir snerist líf og velsæld þjóðarinnar um frjósemi moldarinnar og afrakstur hennar, hvort sem var til beitar eða ræktunar. Góð umgengni um landið felst ekki bara í því að forðast að skilja eftir sig ljót spor eða sviðna jörð heldur ekki síður að leggja sitt af mörkum til að varðveita þann jarðveg sem við eigum og nýta af skynsemi.

Sherry og Jean ræða málinHér á landi hefur verið unnið að jarðvegsvernd í yfir heila öld. Fyrir frumkvæði, þrautseigju og útsjónarsemi frumkvöðla í jarðvegsvernd hér á landi hefur náðst að bjarga sveitum sem voru undirlagðar sandi. Með tímanum hefur aukin þekking og reynsla gert okkur kleift að takast betur á við að laga land og bæta. Það er aðdáunarvert það eljusama starf sem bændur, skógræktarfólk, vísindamenn og áhugafólk hafa af mikilli ástríðu og þolinmæði lagt á sig við að rækta upp, binda örfoka land og græða. Oft á tíðum hefur tekist að endurheimta verðmætt landbúnaðarland sem er lykilþáttur þess að hægt sé að stunda búrekstur í sveitum.

Þessir einstaklingar, líkt og þeir sem hlutu Náttúruverndarviðurkenningar í ár, hafa lagt hug og hönd í verkið án þess að berja sér á brjóst, yrkt jörðina samkvæmt bestu mögulegu þekkingu og virkjað þann kraft sem býr í náttúrunni til að varðveita auðlindina til nota fyrir komandi kynslóðir. Þeir eru sannir náttúruverndarsinnar.

Sigrún Magnúsdóttir

Greinin birtist í Bændablaðinu 6. október 2015.